Sigríður hætti á blæðingum eftir bólusetningu

Hópurinn Tíðahringur bólusettra kvenna gegn c19 er á Facebook og í honum eru tæplega 2300 meðlimir. Hópurinn var stofnaður fyrir konur sem hafa verið að glíma við breytingar á tíðahring eftir bólusetningu gegn Covid-19 en Rebekka Ósk Sváfnisdóttir, stofnandi hópsins, segir að breytingar á tíðahring geti verið mismunandi á milli kvenna. Sumar konur hafa kannski ekki farið á blæðingar síðan þær fóru í bólusetningu, aðrar hafa verið stanslaust á blæðingum allt upp í 100 daga samfleytt og konur sem höfðu farið í gegnum tíðahvörf hafa byrjað aftur á blæðingum og farið aftur í gegnum tíðahvörf. Rebekka segist sjálf hafa farið á túr í 53 daga eftir sprautuna og svo stoppað í 20 daga, farið í 4 daga á blæðingar og hafi ekki fengið mælanlegt egglos síðan hún fékk bólusetninguna.

Sjá einnig: 11 hlutir sem kona ætti aldrei að gera fyrir mann

Missti bragð- og lyktarskyn mjög snögglega

Við ræddum við einn af meðlimum hópsins sem hefur aldeilis fundið fyrir aukaverkunum eftir að hún fékk seinni sprautuna af bóluefninu sem henni var gefið. Hún heitir Sigríður Inga Sigurjónsdóttir og er 53 ára, býr á Ísafirði og starfar sem dýralæknir.

„Ég fékk fyrri sprautuna þann 20. maí 2021 og fékk engin viðbrögð eftir hana. Seinni sprautuna fékk ég 10. júní 2021 og mig sveið eftir þá stungu en það lagaðist fljótt,“ segir Sigríður í samtali við Hún.is. Það var svo 8 dögum seinna, 18. júní, sem Sigríður missti bragð og lyktarskyn mjög skyndilega og daginn eftir varð hún lasin.

„Ég fékk heiftarlega flensu og fann að ég var að fá lungnabólgu. Það var mjög erfitt að fá tíma hjá lækni, þannig að ég tók sýklalyf sem ég átti frá því fyrir nokkru síðan,“ segir Sigríður og bætir við að 1-2 vikum eftir þetta hafi hún byrjað að fá hitakófsköst.

„Ég fékk mörg hitaköst yfir daginn og þetta ástand varði í 2 mánuði. Ég er að eðlisfari mikil kuldaskræfa en það breyttist í sumar. Ég stökk meira að segja í ískaldan sjóinn og fannst það ekki kalt. Þetta er eitthvað sem ég hafði aldrei gert áður á Íslandi.“

Sjá einnig: 102 ára íslensk kona sigraðist á COVID-19

Kvenhormónin mæld hjá lækni

Sigríður segir að aðalvandamálið hafi verið hitakófin en hún hafi líka fengið svakaleg svitakóf og allir sem hún talaði við um þetta, sögðu að hún væri eflaust bara byrjuð á breytingarskeiðinu.

„Ég hætti líka á blæðingum sem höfðu verið mjög reglulegar fram að þessu og hef ekki farið á blæðingar eftir bólusetninguna. Ég var líka frekar þunglynd og átti erfitt með að koma hlutum í verk eins og bara að gera bókhaldið. Svefninn var í algjöru rugli en ég var alltaf að vakna alla nótttina,“ segir Sigríður og segist hún alltaf hafa verið að bíða eftir að þetta hætti en fór svo á endanum til læknis.

„Hún tók blóðprufur til að mæla allt mögulegt, þar á meðal kvenhormónið östrogen/estrógen. Blóðprufurnar komu allar vel út og östrógenið í fullkomnu lagi,“ segir Sigríður, en enn þann dag í dag finnur hún ekkert bragð og lyktarskynið er ekki eins og það var áður, en hún finnur stundum örlitla lykt. Henni líður þó mun betur andlega og líkamlega og hitakófunum hafi fækkað. Eins sé hún farin að koma sér í verk sem hún kom sér ekki í í sumar.

Læknirinn sagði Sigríði að það væri alveg hugsanlegt að þetta tengist allt bóluefninu en það sé ekki hægt að vita það fyrir víst. „Þótt ég sé 53 ára og veit að breytingaskeiðið kemur, þá held ég varla að það komi akkúrat 8 dögum eftir seinni sprautuna af bóluefninu. Ég er menntaður dýralæknir og veit nú ýmislegt um læknisfræði. Þar sem östrogenið er í lagi þá á ég nú erfitt með að útskýra þetta allt út frá breytingaskeiðinu,“ segir Sigríður að lokum.

SHARE