Ég elska karlmenn..

Ég elska karlmenn, mér finnst þeir oft alveg frábærir. Ég hef alltaf átt mikið af karlkynsvinum  og svo á ég auðvitað frábæran kærasta. Þrátt fyrir að mér finnist karlmenn frábærir verð ég að viðurkenna að stundum á ég erfitt með að skilja hvernig þeir virka. Oftast er það það sama sem konur pirra sig á í fari karlmanna og það er oftast vegna einhverra hluta sem við vildum að þeir vissu og gerðu án þess að við þyrftum að segja þeim það. Þegar ég var yngri vildi ég oft að kærastinn minn læsi bara hugsanir og myndi bara vita ákveðna hluti svo ég þyrfti ekki að segja honum það. Áttaði mig nú snemma á því að það er ekki sanngjarnt og segi honum í staðinn bara hreint út það sem ég er að hugsa.
Hérna er dæmi ;

Hver kannast ekki við það að kærastinn spyr þig  t.d. „Á ég að koma með þér í afmælið? Eða þarf ég þess ekki?“ Þá hugsar  stelpan að öllum líkindum að hana langi rosalega að fá hann með, en til þess að vera ekki of stjórnsöm segir hún „Þú þarft þess ekkert “ … þegar stelpa segir þetta er hún oftast að vonast til þess að hann segi „Jú , mig langar að koma með þér“ en margir menn átta sig ekki á þessu.  Í staðinn svarar kærastinn „Nei ókey , flott þá ætla ég bara út með strákunum“… þá gæti stelpan orðið fyrir vonbrigðum en kærastinn fattar það auðvitað ekki og heldur að allt sé í góðu lagi og þá geta skapast vandamál. Stelpur geta lesið svo mikið inn í hluti og byrjað að velta þessu fyrir sér  meðan strákurinn áttar sig ekki á að neitt sé að. Þetta er að vissu leyti ekki sanngjarnt   ef við tölum ekki um hvað okkur finnst vera að.  Stundum þurfa strákar bara að reyna að lesa í okkur stelpurnar til þess að fatta hvað við erum að hugsa því að við sýnum það ekki alltaf ? vá, hljómar ósanngjarnt en þið vitið hvað ég meina, sjálfsbjargarviðleitnin strákar, sjálfsbjargarviðleitnin !

Sýndu kærustunni/konunni þinni að hún skipti þig máli;

Það skiptir stelpur miklu máli að vita að þær skipti manninn sem þær elska máli. Konur kunna að meta það þegar menn leggja eitthvað á sig  til þess að sýna okkur það. Oft  þarf ekki meira  en  að senda okkur fallegt sms eða taka frá dag eða kvöld fyrir ykkur tvö.

Ef þú hefur áhuga á stelpu, láttu hana þá vita af því . Það finnst  mörgum mönnum  erfitt að gera en það er alveg nauðsynlegt.  Það eru litlu hlutirnir sem skipta okkur stelpur máli. Oft þarf ekki nema eitt símtal eða sms frá okkar heittelskaða til að gera daginn góðan hjá okkur. Við þurfum að vita að við skiptum ykkur máli , það er ekki nóg að segja það einu sinni heldur þarf að sýna það reglulega líka og láta okkur vita af því.

Mér finnst svo ótrúlega margir menn og strákar á Íslandi gleyma því að vera herramenn við dömurnar sínar. Stelpur vilja láta koma fram við sig eins og prinsessur, sama hvað hver segir, innst inni viljum við það allar. Bjóddu henni í glas, opnaðu fyrir hana hurðina þegar þið farið út að skemmta ykkur, spurðu hana hvernig hún hafði það í dag o.s.frv.
Komdu henni á óvart !

Flestum stelpum finnst rómantískt að láta koma sér á óvart, rændu henni yfir helgi og bjóddu henni í rómantíska sumarbústaðaferð eða taktu frá einn planaðan dag og kvöld fyrir ykkur tvö að gera eitthvað sniðugt, fara í Bláa lónið og út að borða. Það myndi líka klárlega gera lukku að bjóða henni í rómantíska máltíð sem þú hefur eldað og íbúðin skreytt kertaljósum út um allt. Hvaða kona kann ekki að meta mann sem leggur það á sig að elda fyrir hana ?

Ekki tala við stelpuna eins og þú talar við félagana 

Þetta er mjög mikilvægt , það er ekki heillandi þegar menn tala við okkur eins og þeir séu að tala við félagana. Sem dæmi, ekki tala um það þegar þú og vinir þínir fóru einhverntímann á strippstað eða eitthvert djammið þar sem þú eða einhver vinur þinn vaknaðir með þrem píum. Það vill engin stelpa heyra eitthvað svona. Og í guðanna bænum ekki tala um hvað þú varst einu sinni mikill player eða hvað þú rústaðir mörgum í slag, það er það allra hallærislegasta.

Leggðu þig fram við að kynnast vinum hennar 

Vertu opinn fyrir vinum hennar og komdu vel fram við þá. Við kunnum að meta það. Þó að þér finnist kannski einhverjar vinkonur eða vinir hennar hundleiðinlegir, láttu þig samt hafa það að vera kurteis við þá, við kunnum að meta það og þú færð klárlega stig fyrir það

Kynntu stelpuna fyrir vinum þínum. Þannig veit hún að þú ert að leggja þig fram og ert að hugsa þetta til frambúðar. Það er líka mikilvægt að breytast ekki í annan karakter þegar þú ert nálægt félögunum. Hver hefur ekki lent í því að vera með stráki sem breytist úr algjöru yndi í einhvern fávita þegar félagarnir eru nálægt ? það er ekki heillandi og sýnir óöryggi.

Ég held samt að það sem skiptir aðal máli sé að vera góð hvort við annað, reyna að aðlaga sig að hvoru öðru eins og maður getur og gera skemmtilega og rómantíska hluti saman inn á milli. Mér finnst samt mikilvægast að láta hvort annað vita að ykkur er ekki sama reglulega. Virkar allaveganna fyrir mig.

SHARE