Ég þoli ekki fyrrverandi!

Öll börn þrá ást, athygli og umhyggju frá báðum foreldrum sínum. Það skiptir börn alltaf máli að fá að eiga samskipti við báða foreldra ef þeir eru til staðar. Þegar hjón eða kærustupar ákveða að fara í sitthvora áttina og barn er í spilinu hlýtur barnið að vera í forgangi, það hlýtur að vera aðalmarkmið foreldra að láta barnið finna sem minnst fyrir illindum sem kunna að vera milli foreldra og raska lífi barnsins eins lítið og mögulegt er, þó auðvitað breytist ýmsir hlutir. Mér finnst það því rosalega sorglegt þegar fólk getur ekki sett hagsmuni barnsins framar sínum eigin og lætur biturleika út í fyrrverandi maka bitna á barninu. Það getur lýst sér á ýmsan hátt, ljótt umtal um annað foreldri í nærveru barna er líklega ein versta tilfinning sem barn finnur, rifrildi og öskur fyrir framan barnið líka, en svo er það það allra versta, að skerða umgengni þess foreldris sem hefur minni réttindi lagalega séð gagnvart barninu.

Sem betur fer er fólk almennt í lagi og þá hefur fólk þroska til að taka á málunum eins og fullorðnu fólki ber að gera. Það er þó ekki alltaf þannig og þeir sem virðist halla mest á í þessum málum eru feður. Feður eru oft á tíðum nánast réttindalausir eftir skilnað og móðir getur svipt þá umgengnisrétt þegar henni hentar ef enginn samningur hefur verið gerður hjá sýslumanni. Hópuir fólks sem er umhugað um þessi mál hafa stofnað samtök sem eru undir nafninu “Samtök meðlagsgreiðanda” og þeirra stærsta barátta er að knýja á um að umgengnisforeldrar (oftast feður) verði skráðir sem foreldrar í Þjóðskrá. Eins og staðan er í dag eru eingöngu lögheimilisforeldri skráð sem foreldri. Vegna þess að meðlagsgreiðendur eru ekki skráðir sem foreldrar í Þjóðskrá geta þeir til að mynda ekki pantað þjónustu á vegum sveitafélags ss. dagvist osfrv., ráðstafað frístundakorti barnsins og því miður er það alltof algengt að meðlagsgreiðendur fái ekki einu sinni póst frá skóla barnsins þegar eitthvað bjátar á.

Það að skerða umgengni barns við annað foreldri er ekkert nema ofbeldi í garð barnsins. Það er þó eitt sem líklega sumt fólk áttar sig ekki á að við umgengnistálmun missir barnið ekki aðeins af tíma með foreldri, heldur einnig systkinum, öfum og ömmum, frænkum, frændum, skyldfólki og vinum þeim megin. Það vita flestir að umgengni við skyldfólk er afar mikilvægur partur af lífi allra. Ég veit að ég hefði misst af gríðarlega miklu ef ég hefði ekki fengið að kynnast báðum ömmum mínum sem voru mjög ólíkar og kenndu mér báðar ýmislegt. Það er svo ótrúlega dýrmætt að fá að kynnast fjölskyldu sinni og mér finnst alveg hræðilega sorglegt þegar amman og afinn öðrum megin fá nánast aldrei að sjá barnabarnið sitt. Við getum rétt ímyndað okkur tímann sem afar og ömmur ná að eyða með barnabarni sínu ef faðir fær barnið einungis aðra hvora helgi, jafnvel sjaldnar. Ef þú þekkir einhvern sem brýtur á rétti barns síns með þeim hætti að skerða umgengni þess við foreldri og ættfólk, ekki vera meðvirk og segja ekki neitt. Það er EKKI í lagi að barn sé á milli í deilum milli fullorðins fólks og ég hef fulla trú á því að ef að manneskju er gert grein fyrir því hverju barnið er í raun að missa af, muni hún endurskoða ákvörðun sína.

Ekki ræna barnið hinum helmingi fjölskyldu sinnar!

 

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here