Björn Geir Leifsson skurðlæknir skrifar.
Sýnilegasti “heilbrigðisráðunautur” (sjálfskipaður) landsins undanfarin misseri sýnir enn einu sinni færni sína í að klippa og líma og auglýsir um leið fæðubótarblöndu og sjálfa sig.
Í þetta sinn er það lækningamáttur sveppa sem á að vera dásamleg lausn á… ja, hverju? Jú flestu, eða þannig.
Hún hefur væntanlega verið á fyrirlestrinum hjá Önnu Rósu grasalækni í fyrri vikunni þar sem grasagræðarinn Robert Dale Rogers hélt erindi. Sá segist m.a. vera arómaþerapisti og lithimnufræðingur.
Hvort tveggja eru gervifræði. Meira að segja er lithimnugreining vísindalega afsönnuð aðferð en slíkt er oftast erfitt þar sem það er tæknilega örðugt að sanna að eitthvað sé ekki til. Reynið t.d. að sanna að jólasveinninn sé ekki til. Það að maður sem telst háskólaborgari taki slíkt fram í ferilskránni segir mér að honum er örugglega ekki treystandi til að þekkja kvef frá nefi.
Heilbrigðisráðunautur Mörtu í Smartlandi segir sig vera “næringarþerapisti”.
Titill þessi vísar ekki í viðurkennt nám eða fræðigrunn og má segja að sé heimatilbúningur. Námið í Danmörku þar sem hún segist menntuð er sagt samsvara 34 daga námi dreift á þrjú ár í dönskum bréfaskóla.
Ekki skal farið út í að greina þekkingargrunn næringarþerapista hér en það sem hægt er að finna um námsefni í slíku gefur ekki sérlega traustvekjandi mynd af hrærigraut almennrar þekkingar, hindurvitni og gervikenninga.
Sjá m.a. þetta: http://www.dcscience.net/?p=4997
Ekki fer yfirleitt mikið fyrir tilvitnunum í þekkingu í ritverkum heilbrigðisráðunautarins. Hér lætur hún sér nægja að sýna færni sína í að klippa og líma. Nýfenginni sveppatrú sinni til stuðnings límir hún inn hinn klassíska, freistandi (fyrir trúgjarna) fullyrðingaflaum sem við þekkjum svo vel því hann er notaður með litlum breytileika til að selja flest öll gervimeðul og fæðufals.
1. Geta haft góð áhrif á kynorku og frjósemi.
2. Geta ýtt undir þyngdartap og blóðsykursstjórnun
3. Eru þekktir fyrir að geta haft góð áhrif á minnið.
4. Geta styrkt ónæmiskerfið.
5. Eru taldir hafa krabbameinshamlandi virkni.
6. Geta hjálpað mannslíkamanum að berjast gegn vírusum, eins og inflúensu, herpes og einkyrningasótt.
7. Geta virkað bólgueyðandi og hjálplegir við gigtar og sjálfsónæmissjúkdómum.
8. Eru almennt talin vera nærandi fyrir taugakerfið og stuðla að betri andlegri líðan.
Heilbrigðisráðunauturinn (sjálfskipuð) laumar meira að segja þarna inn auglýsingu fyrir fæðubótarefni sem mann gæti grunað að hún hafi hag af að seljist vel. Alltaf gott að fá ókeypis auglýsingu.
HÉR má lesa pistilinn hans Björns.
Og HÉR er linkur á greinina sem Björn er að tala um frá mbl.is
Höfundur: Anna Birgis
Fleiri spennandi greinar tengdar heilsu er að finna á Heilsutorg.is