„Hann var allt öðruvísi heima“ – Ekkja Robin Williams segir frá

Fráfall Robin Williams verður alltaf eitt af þeim sorglegustu í sögu Hollywood. Hann átti marga aðdáendur og margir syrgðu leikarann. Robin var giftur Susan Schneider frá árinu 2011 til 2014 þegar hann lést. Þetta var hans þriðja hjónaband.

Fyrsta eiginkona Robin heitir Valerie Velardi en þau kynntust árið 1976 og voru gift í rúman áratug. Önnur eiginkona Robin heitir Marsha Garces og voru þau saman frá árinu 1989 til 2010. Þriðja eiginkona Robin var svo fyrrnefnd Susan og segir hún að hún hafi ekki gifst Robin af því hann væri „svo fyndinn maður.“

Hvort sem Robin var að leika í bíómynd eða í viðtali, hafði Robin þann hæfileika að skína og var svakalega heillandi og skemmtilegur. Hann var þekktur fyrir að lýsa upp hvert herbergi sem hann kom inn í.

Susan segir að hann hafi verið allt önnur týpa þegar hann var heima, hann hafi verið djúpt hugsi og þögull. „Maðurinn sem hann var heima, var rólegur, íhugull og vel lesinn. Uppistandið og leiklistin, það var vinnan hans,” sagði hún við The Guardian.

Susan segir jafnframt að hún hefði aldrei gengið í hjónaband með karakternum sem hann var út á við. „Við Robin elskuðum að fara saman á söfn. Hann var mikill áhugamaður um sögu, svo hann var með söguna á hreinu og ég var betur að mér varðandi listina og það var svakalega gaman hjá okkur. Fólk gerði alltaf ráð fyrir því að hann væri sami maður heima og út á við en ég leyfi mér að segja það hátt og skýrt að ég hefði aldrei gifst þeim manni.“

Robin Williams tók sitt eigið líf árið 2014 og þegar hann var krufinn kom í ljós að hann var með langt genginn Lewy body heilabilun, sem hafði ekki verið greind í honum fyrir andlátið.

SHARE