Ástarsambönd – hvað lætur þau virka?

Ég hef oft spáð í hvað heldur samböndum gangandi til langs tíma og nærir þau. Er nóg að elska einhvern eða þarf eitthvað meira? Ástin ein og sér er líklega ekki nóg. Maður þarf að hafa vilja til að halda sambandinu gangandi og ástríku. Það þarf alltaf tvo til að halda sambandi gangandi og það er tapstaða ef báðir aðilar taka ekki virkan þátt.  Allur gróður þarf næringu, vatn og sólarljós og það er ekkert öðruvísi með mannsálirnar.  Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að tala saman og vera virkur hlustandi. Það er stórhættulegt fyrir samskipti fólks að þykjast hlusta, telja sig jafnvel vera að hlusta en vera þó víðs fjarri og hafa satt best að segja engan áhuga fyrir umræðuefninu.

Gæti þetta verð ein af ástæðum þess hve mörg sambönd renna sitt skeið furðu fljótt? Mér virðist ég oft hafa séð eftirfarandi atburðarás: Það koma þannig dagar að fólk svífur ekki um á bleiku skýi, það eru sem sagt ekki alltaf jólin, raunveruleikinn getur verið býsna hversdagslegur og þá gefst fólk bara upp og hættir saman. Lífið er einfaldlega ekki þannig að allir dagar séu frábærir. Það skiptast á skin og skúrir og er þá ekki eðlilegt að sólskinið í samböndum fólks sé ekki alltaf jafn skjannabjart?

Ef við rifjum upp  hvernig tilveran var  þegar við vorum einhleyp komast flestir að því að ekki voru þeir allir  frábærir. Sumir dagar gátu verið hreint ómögulegir og hamingjan ef til vill í lágmarki. Þegar pör eru nýbyrjuð saman og í tilhugalífinu er allt frábært, við sjáum ekki neina galla hjá ástinni okkar og allt er alveg yndislegt, dekrið er í hámarki og allir dagar eru eins og við séum á fyrsta stefnumótinu. Það er eins og drottinn hafi verið að enda við að skapa heiminn.

Amma mín sagði mér frá því að einhvern tíma spurði hún ömmu sína hvort hún væri hætt að elska afa. Þú skilur þetta ekki, góða mín, sagði hún. Fyrst er logandi heitur eldur og svo kemur enn heitari glóð. Og það er þessi glóð sem við ættum að huga að og varðveita.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here