María Helga Guðmundsdóttir lýsti reynslu sinni af því að vera hinsegin í íþróttum. Hún þekkir fordóma af eigin raun og þótti erfitt að hlusta á fólk sem hún lítur upp til segja hommabrandara í hennar viðurvist.

„Stór þáttur í því sem gerir hinsegin fólki erfitt fyrir í íþróttum er þögn. Stundum fer þögnin jafnvel út þöggun. Þá er skortur á fyrirmyndum og umhverfi þar sem búið er að afgreiða þetta upp á yfirborðið með skilaboðum um það sé allt í lagi að vera samkynhneigður eða trans, eða þar fram eftir götunum,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, landsliðskona í karate og jafningjafræðari á vegum Samtakanna ´78.

Mikilvægt frumkvæði

Hún hélt fyrirlestur á hádegisfundi á vegum ÍSÍ, KSÍ og Samtakanna ´78 um málefni hinsegin fólks innan íþrótta, sem haldinn var á miðvikudag, og lýsti meðal annars reynslu sinni af því að vera hinsegin íþróttamanneskja á Íslandi í dag.

„Fyrir mér snýst þetta um að búa til vettvang til að ræða þessi mál opinskátt. Það er mikilvægt að við hjá íþróttahreyfingunni tökum frumkvæði og búum til gott umhverfi fyrir alla okkar skjólstæðinga og félaga. Svona umræða tekur sig ekki sjálf og það er mikill vilji til að gera vel.“

Hefur upplifað fordóma

Sjálf hefur María lent í aðstæðum þar sem hún hefur upplifað óvissu og óöryggi með það hvernig því yrði tekið ef hún segði frá því að hún væri hinsegin og að henni þætti óþægilegt að hlusta á endalausa hommabrandara. „Þar var um að ræða fólk sem ég lít mikið upp til í minni grein og þorði ekki að opna á mér munninn. Sem betur fer hef ég aldrei upplifað slíkt í mínu félagi eða íþróttasambandi. Ég kem úr lítilli íþróttagrein þar sem við erum öll náin og miklir uppeldisfélagar. En ég hef til dæmis verið á erlendum vettvangi þar sem allt er ópersónulegra, þar sem ég hef persónulega upplifað fordóma,“ segir María sem einnig hefur heyrt margar reynslusögur frá félögum sínum í öðrum íþróttagreinum sem hafa orðið fyrir mjög slæmu aðkasti.

Allt á réttri leið

Þá þekkir hún dæmi þess að efnilegt íþróttafólk hafi hrökklast frá íþrótt sinni vegna fordóma. „Það er almennt viðurkennt að töluvert er um brottfall hinsegin fólks úr íþróttum. En það er eitthvað sem ætti ekki að vera erfitt að taka á með góðu forvarnarstarfi og með því að bjóða upp á góðar fyrirmyndir og vinsamlegt umhverfi,“ segir María.

„Það er stundum talað um að íþróttaheimurinn sé síðasta vígið,“ segir hún aðspurð hvort þetta hafi ekki breyst til batnaðar á síðustu árum. „Sérstaklega í knattspyrnunni, strákamegin. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa verið hreinskilnir með það hverjir þeir eru meðan á keppnisferlinum stendur. Ég held samt, að minnsta kosti í okkar samfélagi, þá sé þetta allt á leið í rétta átt.“

26756 Maria 02351

 

SHARE