Eins og við greindum frá í gær eignaðist Kim Kardashian litla stúlku í gær. Fréttamiðlar í Bandaríkjunum hafa greint frá atburðum og alltaf koma fram meiri upplýsingar.

Samkvæmt heimildarmönnum Perez Hilton byrjaði Kim að líða illa á föstudagskvöldið og í framhaldi af því fæddist stúlkan, getgátur eru um það hvort að veikindi hennar hafi haft áhrif á það að barnið fæddist fyrir tímann en líklegt er þó að hún hafi bara byrjað að fá samdrætti snemma.

Kim er sögð hafa átt náttúrulega fæðingu og maður hennar, Kanye West og móðir hennar Kris Jenner voru henni við hlið allan tímann. Stúlkan fæddist 5 vikum fyrir tímann en sagt er að bæði móður og barni heilsist vel, sem er fyrir öllu.

Kim hefur sagt frá því opinberlega að barn hennar muni ekki birtast í raunveruleikaþáttum fjölskyldunnar en móðir hennar er, samkvæmt slúðursíðum vestanhafs, strax farin að gera samninga við slúðurblöðin um að birta myndir af barninu fyrir himinháar upphæðir. Það verður svo að koma í ljós hvort eitthvað sé til í þessum sögusögnum á næstu mánuðum. Heimurinn bíður í það minnsta spenntur eftir að sjá myndir af stúlkunni litlu.

SHARE