Ljósabekkir eru mjög hættulegir – Enginn ætti að fara í slík ljós

Hér á landi hefur sortuæxlum fjölgað mikið undanfarin ár og hefur tíðnin tvöfaldast á einum áratug. Þau eru algengari meðal kvenna hér á landi en karla, en það er gagnstætt því sem má finna í mörgum nágrannalöndum okkar. Fjölgun tilfella er mest áberandi hjá ungum konum og er nú svo komið að sortuæxli eru algengasta krabbameinið hjá ungum konum.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameins­félagsins greinast að meðaltali 50 manns á ári með sortuæxli í húð, 60 með önnur illkynja húðæxli. Auk þess greinast um 225 manns með svonefnd grunnfrumuæxli í húð (miðað við 2004­-2008). Níu Íslendingar deyja að meðaltali á ári af völdum sortuæxla.

Sólbruni er stórhættulegur

Fjöldi rannsókna hefur sýnt að samband er á milli sortuæxla og útfjólublárra geisla, hvort sem þeir koma frá sólinni eða ljósabekkjum. Sérstaklega er slæmt ef húðin brennur í sólinni í bernsku eða fyrir 18 ára aldur.

Í ljós hefur komið að aukning á nýgengi sortuæxla, sem sést hefur undanfarna áratugi, er að mestu bundin við hvíta kynstofninn. Allir geta fengið sortuæxli en þeir sem eru með ljósa húð og þeir sem þola sólina illa eru í meiri hættu en aðrir. Talið var að sólbruni væri aðallega hættulegur fyrir börn og unglinga en nýlega hefur komið í ljós að hann er einnig hættulegur fyrir þá sem eldri eru. Alvarlegustu skemmdirnar í húðinni koma þó fram hjá börnum og unglingum og þá sérstaklega ef þau sólbrenna oftar en tvisvar eða þrisvar fyrir fullorðinsaldur.

Það er auðvelt að gleyma sér í sólinni
Það er auðvelt að gleyma sér í sólinni


Þeir sem hafa mikið af fæðingarblettum eru líklegri til að mynda sortuæxli. Sumir hafa einnig svonefnda óreglulega fæðingarbletti og fylgir þeim meiri áhætta á myndun sortu­æxla. Slíkir einstaklingar þurfa að vera í reglulegu eftirliti hjá lækni.
 

Sortuæxli eru ein af mörgum tegundum húðkrabbameina og er auðvelt að lækna slík mein ef þau greinast snemma en ef þau eru uppgötvuð seint og hafa náð að dreifa sér geta þau verið banvæn.

Eftirtaldir þættir geta aukið líkur á myndun sortuæxla:
  • Ljós húð
  • freknur
  • húð sem brennur auðveldlega
  • sólbruni í ljósabekkjum
  • margir fæðingarblettir
  • óreglulegir fæðingar­blettir
  • náinn ættingi hefur greinst með sortuæxli.

Allir sem hafa einn eða fleiri áhættuþætti ættu að láta lækni skoða sig.

Forvarnir

Vitað er að sólin getur valdið sortuæxlum. Sólböð barna og unglinga virðast vera sérstaklega hættuleg. Ljósabekkir eru einnig mjög hættulegir. Enginn ætti því að fara í slík ljós, sérstaklega ekki börn og unglingar yngri en 18 ára. Þessar ráðleggingar eru einkum mikilvægar fyrir þá sem kunna að hafa aðra áhættuþætti.

Ef farið er í sól, hérlendis eða erlendis, skal nota sterka sólarvörn, að minnsta kosti SPF 25 (Sun Protective Factor)sem ver bæði fyrir A­ og B­ geislum en gæta þess samt að vera ekki lengi í sól í einu. Þegar sólin er hæst á lofti eru geislarnir sterkastir. Best er því að vera innandyra kringum hádegið. Einnig má klæða af sér sólina og nota höfuðföt.

Heimildir:

Vefur Krabbameinsfélagsins www.krabb.is  

Bæklingur um sortuæxli. Sækið bæklinginn hér!Melanoma Screen shot 2013-05-27 at 14.39.22 Screen shot 2013-05-27 at 14.40.10

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here