Lykillinn að unglegu útliti samkvæmt Cher

Söngkonan Cher er ein af þessum manneskjum sem virðist ekki eldast neitt en hún er 77 ára. Hún hefur nú opnað sig um hvernig er að eldast og hvernig hún fer að því að vera alltaf svona ungleg.

Cher, sem er að nálgast áttrætt, sagði nýlega í viðtali við Good Morning America: „Ég bara trúi því varla að ég verði bráðum áttræð, miklu fyrr en ég vildi. Ég verð áfram í gallabuxum og með sítt hár og ég mun halda áfram að gera það sem ég hef alltaf verið að gera.“

Söngkonan þakkar góðum genum einnig fyrir unglegt útlit sitt, en móðir hennar varð 96 ára en hún lést í desember síðastliðinn. „Ég veit ekki hvort að það, að mér líði ekki eins og ég sé gömul, haldi mér unglegri. Ég fylgist með tískunni og á mikið af ungum vinum. En ég á líka gamla vini. Í hreinskilni sagt er ég ekki að reyna að láta mér líða eins og ég sé ung eða að reyna að vera ung. Ég er bara eins og ég er,“ sagði Cher.

Cher hefur líka sagt frá því að hún haldi sig frá óhollustu og borðar mjög hollan mat. Hún forðast líka að borða kjöt, ost og mjólk en fær sér einstöku sinnum eftirrétti og þá helst súkkulaði.

SHARE