Raunveruleiki pissublautrar konu

Ég var nýkomin heim með fyrsta barnið mitt, í sjokki yfir breytingunni, þegar þetta kom fyrst almennilega fyrir.  Ég uppgötvaði sem sagt að pissið mitt hafði sjálfstæðan vilja, kom bara þegar því hentaði, oft án þess að gera nokkur boð á undan sér.  Þarna stóð ég í Hagkaup, í fyrsta skipti úti á meðal fólks eftir barnsburðinn, í miðri ösinni, blaut af hlandi niður á hné.  Ég dreif mig heim þar sem mamma, kærastinn minn og nýja barnið mitt biðu mín.  Ég man hreinlega ekki lengur hvort að ég lét þau vita af þessu.  Man bara að ég laumaðist inn á bað og fór í sturtu, eiginlega í algjöru áfalli yfir niðurlægingunni.  Klæddi mig í hrein föt og hugsaði sem svo að svona ætti þetta kannski bara að vera og þetta hlyti að lagast, ég var nú líka nýbúin að eiga barn.

Þegar ég hugsa til baka veit ég að þetta voru varnarviðbrögð og í raun bara þekkingarleysi.  Á fæðingardeildinni höfðu ljósmæðurnar og hjúkrunarfræðingarnir spurt mig stöðugt eftir fæðinguna hvort ég væri búin að pissa.  Ég sagði jú, eftir 3 daga, en þá fyrst fór ég á klósettið og nokkrir dropar komu í það.  Annars lak þetta bara með úthreinsuninni og ég hélt að þetta ætti að vera svona.  Samt vissi ég að ég hafði ekkert rifnað og fæðingin gekk vel og ég hefði getað sagt mér að þetta væri ekki eðlilegt.  En þetta fannst mér ekki vandamál miðað við það að reyna að höndla það að vera orðin móðir.  Ung og vitlaus og alveg út á þekju.

Sjá einnig:Áreynsluþvagleki og grindarbotnsæfingar

Eftir fæðingu, sérstaklega fyrsta barns, er maður ekki alveg með á nótunum og því þagði ég lengi yfir því að ég pissaði á mig.  Lyktin olli mér ógleði, kynlífslöngun varð nákvæmlega engin þar sem mér fannst ég frekar ógeðsleg ef ég á að vera hreinskilin.  Þetta vakti upp hjá mér gamlan draug.  Gömul tilfinning um líkamlega afneitun og viðbjóð gerði vart við sig, tilfinning sem fyrst kom upp hjá mér eftir nauðgun nokkrum árum áður.  Þetta gerði mér enn erfiðara fyrir um að gera þetta vandamál opinbert og meðvitað fyrir sjálfri mér og hvað þá öðrum.

Ég pissaði á mig eiginlega alveg fyrsta hálfa árið eftir að dóttir mín fæddist, ég réði ekkert við þetta og gat engan veginn borið mig eftir aðstoðinni.  Jú, ég vissi um grindarbotnsæfingar og reyndi það en einhvern veginn fannst mér að þetta væri ekki alveg að virka eins og það ætti að gera.  Enda held ég að afneitunin hafi verið svo sterk að ég hafi hreinlega ekki verið í sambandi við kerfið þarna niðri.

Tíminn leið og þetta lagaðist aðeins.  Ég lærði að höndla þetta betur og koma í veg fyrir mestu bleytuna með tíðum klósettferðum og misstórum bindum eftir tilefni og ástandi.  Tilfellunum þar sem bleytan náði niður á hné fækkaði og þetta varð svona þolanlegra.  Ég var oft illa lyktandi að mér fannst og gríðarlega mikið á móti því að vera alltaf með bindi, frekar fór ég heim og skipti um föt, ekki veit ég af hverju.  Ég vildi ekki sætta mig við þann dóm, 23 ára að þurfa alltaf að vera með bindi vegna þvagleka.  Var alls ekki sátt við það.

Svo man ég eftir atviki sem var eiginlega svona punkturinn yfir mitt pissublauta i. Þá var ég líklega já svona 23 ára, dóttir mín orðin 2ja ára og ég á leið af kaffihúsi, labbandi.  Ég man að ég  fékk mér einn bjór og passaði að venju að fara á klósettið áður en ég lagði af stað heim.  Þegar ég var hálfnuð heim kom brekka niður og ég hélt áfram syngjandi því það lá svo ljómandi vel á mér.  Og þá byrjaði að leka og leka og leka og ég réð ekkert við það.  Ég varð alveg brjáluð úr reiði og endaði á því að hlaupa heim og leyfa öllu þessu helvíti að koma bara. Þá kom ég með ekka og kærastinn minn tók í taumana og gekk á eftir mér að gera eitthvað í þessu.

Þá tóku við gríðarlega skemmtilegar og gefandi rannsóknir bæði á spítalanum í mínum heimabæ og á gamla Borgarspítalanum.  Út úr þeim kom nákvæmlega ekki neitt!!!! Vei.  Jú, ég segi nú bara svona, auðvitað var gott að ekkert alvarlegt var að mér, en þetta gaf mér engin svör. Þeir sögðu reyndar að e.t.v. gæti verið að taug hefði skaddast við fæðingu barnsins míns en það væri ekkert víst og mundi lagast á svona 5-6 árum. Af hverju höfðu meðvitaðar grindarbotnsæfinar mínar ekki haft meiri áhrif en orðið var????  Ég var send í sjúkraþjálfun, í kennslu í grindarbotnsæfingum, fór í 2 tíma, fannst tilgangslaust að borga peninga fyrir það sem ég hafði verið að gera heima ókeypis.  En það var nú líka bara mín afneitun og efahyggja sem var að tala.  Og með þrjóskuna að vopni ákvað ég frekar að fara í körfubolta.  Halló, ekki alveg það besta, stanslaus hopp.  Jæja, ég þjösnaðist pissublaut og sveitt í körfuboltanum hálfan vetur og ekki bætti það ástandið.  Ég veit alveg að margt hafði áhrif á mig á þessum tíma sem gerði það að verkum að ég horfðist ekki í augu við þetta og gerði ekki nógu mikið átak í þessu.  Ég átti m.a. barn sem alltaf var vei kt og ekkert fannst að, var á kafi í námi og að reyna að vera í sambandi.  Barnið mitt reyndist með fæðingargalla og þurfti í rannsóknir og aðgerðir því tengdu.  Þá setti ég sjálfan mig á hóld og keypti mér bindi.

Árin liðu og alltaf ýtti ég vandamálinu fast og örugglega frá mér. Ég barðist við grindarbotnsæfingar og reyndi að taka bleytuslysum af sóískri ró.  Það gekk svona misvel eftir andlegu ástandi mínu.  Ég lærði betur hvað ég mátti og hvað ég mátti alls ekki.  Til dæmis mátti ég alls ekki hlaupa, hlæja, hnerra, dansa, labba hratt…………en ég sættist einhvernveginn við þetta og fór að líða ágætlega með það.  Ég held samt að þetta ástand hafi haft töluvert meiri áhrif á mig en ég þori enn að viðurkenna.  Það gekk nefnilega ýmislegt á eftir því sem árin liðu.  Samband mitt við kærasta minn og barnsföður rann út í sandinn.  Ég drakk of mikið, var á þunglyndislyfjum, hætti alveg að hreyfa mig og þyngdist.  Það var alveg eitur og ég fann alltaf fyrir ef ég bætti á mig 1-2 kg því þá jókst bleytan.  Einu ráðleggingarnar sem ég fékk í gegnum áðurnefnt rannsóknarferli var að ég mætti alls ekki þyngjast.  Það voru frekar erfiðar ráðleggingar fyrir harmonikkuna í þyngd sem ég er.  Það sem hjálpaði mér mest í því að tækla þetta og ná betri tenslum við svæðið þarna niðri  og sjálfa mig var að ég fór í body ballance.  Það eru hægar æfingar, blanda af jóga, thi chi og pilates.  Þessar æfingar virtust gera eitthvað fyrir mig, mér leið betur og hafði meiri stjórn á því hvort ég pissaði einfaldleg á mig eða komst í tíma á klósettið.

Þegar 6 ár voru liðin frá fæðingu dóttur minnar varð ég barnshafandi.  Þá var ástandið þarna niðri eiginlega í fyrsta skipti orðið þolanlegt og þetta hætt að þjaka mig, enda var ég komin á betri stað með sjálfan mig.  Á þeirri meðgöngu fann ég aðeins fyrir þvagleka en var þó ekki eins slæm og ég var hrædd um að ég yrði.  Ég held líka að ég hafi bara verið orðin vön þessu að mér fannst smá versnun ekkert tiltökumál. Seinni fæðingin gekk vel eins og mín fyrri og ég fann ekki fyrir versnun á þvaglekanum strax eftir hana svo ég var alveg í skýjunum. Ég missti ein 15kg á fyrsta hálfa ári drengsins míns, vegna brjóstagjafar og stanslausum gönguferðum (sem reyndar oft enduðu með blautum bindum og buxum).  Ég skánaði af þvaglekanum eftir því sem kílóin fuku en leit ennfremur alltaf verr og verr út. Um leið og brjóstagjöfinni lauk, fór ég að þyngjast og já auðvitað þvaglekinn að aukast.  Þá sat ég með tilvísun frá heimilislækni í höndunum upp á sjúkraþjálfun á Landspítalanum.  Harkaði mér loksins eftir nokkra mánaða umhugsun í að hringja.  Ég fékk engin svör nema það að ekki væru til peningar, sú sem sæi um þetta væri upptekin og það væri bara ekkert pláss fyrir mig.  Ég var alveg agndofa eftir þetta samtal.  Jæja, það eru örugglega einhverjir sem pissa meira á sig en ég.  Og við það sat.

Núna átta árum eftir fæðingu dóttur minnar er ég loksins að taka á málunum.  Dreif mig til sjúkraþjálfara eftir að kvensjúkdómalæknirinn minn lagði hart að mér að taka mér nú tíma og vinna í þessu.  Þannig að eftir að ég var búin að horfa á þessa þriðju beiðni mína í 3 mánuði mætti ég galvösk til þessa fína sjúkraþjálfara.  Markmiðið er að komast út að hlaupa. En nú er það orðið svo að það sem aftrar mér í batanum er að ég er með svo mikla varnarspennu í grindarbotnsvöðvunum að ég á erfitt með að slaka á til að ná að vinna upp meiri spennu og styrkja vöðvana.  Þetta verður því mikil þolinmæðisvinna og þroskaverkefni fyrir mig.  Nú er ég í innri hugleiðslu 3svar á dag til þess eins að ná sambandi við þetta svæði sem ég hef vanrækt svo mjög.  Ég áttaði mig loksins á því að ég á skilið að þurfa ekki að upplifa pissublauta daga, vonda lykt og neikvætt viðhorf gangvart líkama mínum.  Hingað og ekki lengra, nú skal berjast til síðasta pissudropa.

Ekki bíða gerið eitthvað í málunum núna!!

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE