Síðustu þrjár kynslóðir aumingjar?

Hjalti Tomm skrifaði stutta frásögn á facebook síðu sína. Spurning hvort eitthvað sé til í þessu eða hvort þetta séu tómar ýkjur. Erum við foreldrar að gera börnin okkar að ,,aumingjum‘‘?
Frásögnina má lesa hér að neðan:

Ég held að það sé búið að eyðileggja minnst tvær, ef ekki þrjár, kynslóðir með þessu krúttbulli og meðvirkni sem öllu tröllríður núna.
Við sjáum þetta meira að segja í sumum nýju framboðanna nú um mundir.
Það er búið að gera þessar kynslóðir að aumingjum sem kunna ekki að tala eðlilega eða dýfa hendi í kalt vatn án þess að kvarta og kveina. Ekkert má vera óþægilegt án þess að það sé ætlast til þess að einhver annar komi og taki óþægindin burt.
Dæmi:
Fyrirtæki auglýsir í dagblöðum að það hjálpi unglingum að vakna á morgnanna.
???????????
Síðan hvenær þurfti að „hjálpa“ fólki til að vakna?
Hvenær varð það á ábyrgð annarra að passa upp á að þessir ormar vöknuðu í skólann? Eða vinnuna? Er hætt að framleiða vekjaraklukkur?

Annað dæmi.
Krakki dettur úr rólu á leikvelli og það verður að blaðamáli og leikvellinum er lokað „meðan rannsókn fer fram“ Í gamla daga þá fór maður skælandi heim, fékk plástur og fór aftur út á róló. Að einhverjum dytti í hug að það væri blaðamál þó krakki meiddi sig? Sénsinn!!

Að róló væri lokað? Nei, því það var talið hluti af þroskaferli krakka og unglinga að reka sig á. Að meiða sig var talið manni holl lexía enda meiddi maður sig sjaldnast að sama hlutnum tvisvar.

Þegar þessi grey koma svo út á vinnumarkaðinn þar sem samúðin og meðvirknin er minni en engin þá verður þeim oft illa við. Sum höndla það engan veginn. Fjöldi ungs fólks á örorku er sláandi.

Ég hef unnið með boldangsstrákum, heltönuðum, úttúttnuðum úr líkamsræktinni sem ekki máttu rispa á sér fingur án þess að hlaupið væri til læknis og teknir þrír dagar í frí til að jafna sig eftir áfallið. Hvað er að gerast með þessa krakkaorma okkar? Ég bara spyr.
Þetta var ekki svona þegar ég var að alast upp.

Þá var kysst á bágtið og settur plástur, ef hann var þá til og manni sagt að fara út aftur og snúa exinni rétt í næsta skiptið. Eða láta hund nágrannans í friði, manni var nær að vera að djöflast í honum. Hundar bíta ef þeim finnst sér ógnað. Hundinum var ekki kennt um eins og nú er gert.

Og mikið svakalega getur þetta krútthjal farið í taugarnar á mér.
Það er eins og allt gangi út á toppa hvert annað í krútti.
„Elska þig pabbilíus“ fékk ég um daginn á Facebook frá einu afkvæmanna. Jafngott og það er að finna að börnin manns elska mann og þora að segja manni það þá er ég ekki krútt og hef aldrei verið. Og ég ætla heldur ekki að verða krúttlegt gamalmenni. Það þarf því ekki að tala við mig á Krúttísku.

„Knúsíknúsíhús“ er annað frá Fésinu.
Hversvegna er ekki hægt að segja „bestu kveðjur heim til þín“? Eða „mér þykir vænt um þig, bið að heilsa“?
Hvað varð um almenna kurteisi og eðlileg samskipti?

Við þurfum að snúa þessari þróun við. Annars endum við uppi með þjóðfélag þar sem enginn þarf að taka ábyrgð á neinu og öllu þykir sjálfsagt að einhver annar komi og snúi klukkunni til baka og allt verði gott á ný.

Og á meðan kæfum við hvert annað í krútti.
Viljum við það, ha?

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here