Tannáverkar – Hvað skal gera?

Úrslegnar tennur

Hafa skal strax samband við tannlækni.

Mikilvægt er að átta sig á því hvort um barnatönn eða fullorðinstönn er að ræða. Tannskiptum framtanna er venjulega lokið við 8 ára aldur.

Ef um barnatönn er að ræða þá er hún ekki sett aftur í.
Ef um fullorðinstönn er að ræða verður að bregðast hratt og rétt við:

Besta bráðahjálpin á úrsleginni fullorðinstönn er að koma henni strax aftur í holu sína.

Það verður þó að gera varlega. Taka skal um krónuhlutann og ef rótin er mjög óhrein skal skola hana í rennandi volgu vatni í nokkrar sekúndur áður en henni er komið fyrir.

 

Sjá einnig: Stjörnur sem hafa verslað sér nýjar tennur

Það má aldrei skrapa eða nudda óhreinindin af. Talið er að betra sé að setja tönn upp með örlitlum óhreinindum frekar en að hætta á að skaða frekar eða jafnvel skafa rótarslíður tannarinnar af. Slíðrirð ver tönnina og tryggir heilbrigði hennar. Mikilvægt er einnig að nota aðeins mjög léttan þrýsting eða kraft þegar tönninni er komið fyrir. Ef hægt er að koma tönninni fyrir skal halda henni með mjög léttum þrýstingi þar til komið er til tannlæknis.

Ef ég get ekki sett tönnina í aftur?

Ef ekki er mögulegt að koma tönninni fyrir í stæði sínu á nýjan leik án þess að þurfa að beita kröftum er sennilegt að fyrirstaða sé í holunni eða að hún sé að einhverju leyti fallin saman. Er þá best að bíða með að setja tönnina upp þar til komið er á tannlæknastofu. Á leið þangað er mikilvægt að halda tannrótarslíðrinu röku og um leið lifandi. Það er þó alls ekki sama hvaða vökvi er notaður til að halda slíðrinu röku og er vatn alls ekki nothæft til þess og ætti síðast að grípa til þess ráðs. Þá er munnvatn heldur skárra en þó einnig afar slæmur geymslustaður.

 

Sjá einnig: 102 ára gömul dúlluleg amma blæs á afmæliskertin og tennurnar fjúka!

Besta lausnin.

Besta lausnin og sú sem oftast er tiltækust er mjólk. Jónaþrýstingur hennar er nálægt líkamsvökvum, pH er nálægt því sem frumur þrífast best í og sýnt hefur verið fram á að tannrótarslíðursfrumur geta lifað í henni í þó nokkurn tíma. Auk þessa er lítið um örverur í gerilsneyddri mjólk. Rannsóknir hafa leitt í ljós að mjólkin er mun betri geymsluvökvi en munnvatn. Tennur sem hafa verið geymdar í mjólk í allt að 6 klukkustundir hafa nærri eins góðar batahorfur og þær tennur er voru settar strax aftur í holuna eftir að þær voru slegnar úr.

Ef mjólk er ekki tiltæk og ekki mögulegt að koma tönninni fyrir aftur í sæti sínu er skárri kostur að setja hana í keypta saltvatnslausn í apóteki eða ef um allt um þrýtur munnvatn frekar en að geyma hana þurra. Saltvatnslausn sem er fengin tilbúin í apóteki er góður kostur í stuttan tíma en þar sem hún inniheldur ekki neina næringu fyrir frumurnar þá fara þær að skreppa saman og deyja eftir 2 til 3 tíma í lausninni.

Aldrei skal reyna að búa til saltlausn með því að setja matarsalt í kranavatn því frumurnar eru viðkvæmar fyrir magni saltjóna í umhverfi sínu og má ekki miklu skeika. Munnvatn er næstsíðasti kosturinn ef ekkert annað finnst á undan kranavatni. Um tíma var munnvatn talið vera eins góður kostur og hvað annað, en nú er ljóst að jónastyrkur þess er langt frá því að vera hagstæður fyrir frumurnar. Einnig inniheldur munnvatn mikið magn örvera, sem geta haft áhrif á græðslu tannarinnar, sérstaklega ef rótarslíðrið er baðað í þeim í langan tíma. Ljóst er þó að munnvatn, hvort sem tönnin er geymd út við kinn sjúklingsins eða í dollu með söfnuðu munnvatni frá einum eða fleiri er betri kostur en kranavatn. Ef ekkert finnst til að geyma tönnina í mæla sumir með því að setja hana í kranavatn, en eins og áður sagði þá er það afarkostur og þá aðeins í mjög stuttan tíma en sennilega skárra en að geyma hana þurra, sem er það allra versta sem hægt er að gera við úrslegna tönn.

Brotin tönn

Ef tannkrónuhluti fullorðinstannar brotnar er stundum hægt að líma brotið aftur við tönnina. Nauðsynlegt er því að finna brotið ef hægt er. Hafa skal strax samband við tannlækni.

Fengið af vef  Tannlæknafélags Íslands og birt með góðfúslegu leyfi,

 

SHARE