Seinni undanriðillinn í Eurovision er framundan í kvöld og loks kominn tími á það að fulltrúi okkar, hinn glæsilegi Eyþór Ingi, stígi á svið. Það eru 17 lög sem keppa í kvöld á móti 16 lögum í þeim fyrri, þannig að samkeppnin er aðeins harðari. Hinsvegar er alveg hellingur af hund leiðinlegum, jafnvel ógeðslega leiðinlegum lögum á dagskrá í kvöld sem vonandi hjálpar okkur þó svo að maður hafi aldrei hugmynd um hvað Evrópa kýs! Eyþóri hefur gengið mjög vel á æfingunum og blaðamennirnir elska hann. Gömul klisja já, en af presónulegri reynslu eftir að hafa farið út og unnið í kringum Eurovision þá verð ég að segja að þetta er alveg satt. Við kunnum bara að tækla þetta og sendum undantekningalaust hæfileikafólk út sem þýðir að blaðamennirnir og aðdáendurnir verða ástfangnir af okkur, þetta er ekki svona með alla keppendur!
Allar æfingar hafa gengið vel og Eyþór gerði víst gott mót á dómararennslinu í gærkvöldi, þannig að það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á kvöldið og skemmta sér í fyrirpartýinu fyrir laugardaginn. Nú skulum við aðeins líta á hvaða lög ég tel að fari áfram í kvöld og vert sé að fylgjast með!
Ísland: Eyþór Ingi – Ég á líf
Best að klára okkur bara af strax. Fyrir mánuði síðan fór ég í fýlu af því að við ætluðum að syngja ekki að syngja á ensku og allt það – en núna er ég bara bjartsýnn. Eyþór og allir þeir sem standa að laginu eru fagmenn og ef þið skoðið track recordið hjá Eyþóri í söngkeppnum sjáið þið að hann er með 100% árangur! Þannig að það er bjart yfir drengnum og hann mun því fljúga upp í kvöld!
Noregur: Margaret Berger – Feed You My Love
Þetta lag er alveg truflaðslega töff, pínu dörtý sánd í því sem ég fýla í botn. Söngkonan, Margaret Berger, er alveg bullandi sæt, hefur mikið sex appeal og mun skila þessu lagi af sér með stakri prýði. Ég tel að þetta fljúgi í gegn.
Azerbaijan: Farid Mammadov – Hold Me
Ég verð að viðurkenna það að ég er enginn sérstakur aðdáandi Azerbaijan í Eurovision. Þetta er eitt af þeim löndum sem kaupa sér ávalt lög af þekktum “hit makerum” frá öðrum löndum og þannig hafa þeir náð langt. Í ár er lagið keypt frá þekktum grískum lagahöfundi sem hefur verið mjög vinsæll í Evrópu. Þetta lag er voða öruggt Eurolag og Azerarnir fljúga mjög líklega í gegn.
Grikkland: Koza Mostra & Agathon Iakovidis – Alcohol Is Free
Það er nánast sama hvað Grikkir gera, þeir komast alltaf upp úr undanriðlinum! Í ár senda þeir einhverja fyllerísvísu sem byrjar eins og þeir séu að syngja kl 6 að morgni eftir stífa drykkju en breytist yfir í bullandi balkanpopp, sem helst er hægt að líka við Hvanndalsbræðurnar hérna heima. Hressandi lag og það flýgur upp. Veitið gamla kallinum með mottuna sérstaka athygli! 🙂
Finnland: Krista Siegfrids – Marry Me
Skandinavísku félagar okkar Finnar (vonandi kjósa þeir skandinavískt í kvöld!) mæta hér með hressan popp hittara sem að ég held endar í sleik milli tveggja kvenna á sviðinu (man einhver eftir TaTu stöntinu?). Lagið er bara ágætt, hressandi og skemmtilegt! Krista hefur verið að standa sig ágætlega á æfingum og engin ástæða til annars en að hún komist áfram!
Ungverjaland: ByeAlex – Kedvesem
Ungverjar sem eru andlegir Eurovision félagar okkar (hafa gefið okkur mikið af stigum og öfugt) mæta hér með mjög töff lag, sungið á ungversku. Það er eitthvað sem heillar mig hér og þetta kemst áfram segi ég. Veljum ungverskt!
Georgía: Nodi & Sophie – Waterfall
Fín “mega ballaða” frá Georgíu. Lítið hægt að segja, ekkert nýtt hér á ferð en nægilega gott til að skila þeim inn í úrslitin, mjög vel flutt og kraftmikið.
Makedónía: Esma & Lozano – Pred Da Se Razdeni
Alveg hreint bullandi “austantjalds-steik” en kemst líklegast áfram vegna þess. Þetta er svona fulltrúi “austan-tjaldssteikurinnar” í ár og kemst því áfram vegna þess! Makedónía hefur líka nokkuð sterkt bakland í þessari keppni.
Sviss: Takasa – You And Me
Hjálpræðisherinn er mætur og allir í stuði! Þetta er flott lag frá Sviss og fullt af brosi og jákvæðni. Ég efast ekki um að það eigi eftir að skila sér áhorfenda í kvöld. Krúttlegi 95 gamli maðurinn mun einnig skila sínu!
Israel: Moran Mazor – Rak Bishvilo
Ég er með hina svokölluðu “hebresku-euro-veiki” og er því alltaf svoldið veikur fyrir því sem kemur frá Ísrael í þessa keppni. Þetta er klassísk Ísraels-ballaða sem mun án efa fara upp í úrslit í kvöld!
Svo eru það löndin og lögin sem ber að varast í kvöld! Hugsanlega er gott að fara á klósettið þegar þessi lög hljóma eða bara bregða sér út á meðan… svona til að slaka taugarnar. Lag Búlgaríu, Samo Shampioni, er held ég eitt af allra verstu lögunum í ár, það er eins og að lagahöfundurinn hafi verið að leita af mest pirrandi hljóðum sem hægt var að finna. Svo er það hann Czar frá Rúmeníu sem endar kvöldið á hryllilegum kontra-tenórs dansbræðingi! Varist þetta!!
Svo er það bara stóra spurningin, eruð þið sammála?