„Ég hef aðeins verið að líta í innkaupakörfuna þína og ég er svo hneyksluð!“

Sunna Mjöll póstaði þessar færslu á Facebook hjá sér eftir að hafa orðið vitni að ótrúlegum dónaskap frá konu sem var henni alveg ókunnug.

Það skeður alls ekki oft að ég verði orðlaus og á sama tíma að ég þurfi virkilega að hemja mig að láta manneskju ekki heyra það vegna reiði hjá mér..
En áðan þurfti ég svakalega að passa mig, eftir að hafa verið orðlaus og stjörf því ég var svo hneyksluð þurfti ég virkilega að halda aftur að mér að missa mig ekki alveg gjörsamlega! Ég var stödd í grænmetisdeildinni í Bónus fyrr í dag að versla í matinn og voru 2 manneskjur þar inni á sama tíma, stelpa aðeins yngri en ég og svo ein eldri kona.
Konan labbar upp að stelpunni og segir við hana eitthvað nokkurnvegin orðrétt svona: „Afsakið, ég hef aðeins verið að líta í innkaupakörfuna þína og ég er svo hneyksluð! Manneskja sem er svona þétt og er í svona miklum holdum eins og þú verður að kaupa þér hollari mat! Stelpan hérna við hliðina á þér (semsagt ég) er alveg í þokkalega miklum holdum (vá, takk kærlega fyrir! ) en samt ekki eins stór og þú, en hún er með grænmeti og kjúkling í sinni körfu en þú ert með hamborgara, súkkulaðikex og gos í þinni! Þú verður að hugsa um heilsuna..“ og síðan tók konan iceberg-haus og setti ofan í körfuna hjá stelpunni og tók kexpakkann uppúr.. Gekk síðan í burtu með kexpakkann en sneri sér við, veifaði kexinu að stelpunni og sagði „Farðu svo að horfa á The Biggest looser“.
Og eftir stóð stelpugreyið gjörsamlega í sjokki, skiljanlega! Svona í alvörunni talað, hvað er í gangi? Er fólk farið að skipta sér að öllu nú til dags og leyfa sér að móðga náungann eins og enginn sé morgundagurinn? Ég átti ekki til eitt einasta orð, sjaldan verið jafn hneyksluð á ævinni. Varð bara að deila þessu með ykkur, því ég er varla enn að trúa því hvernig þessi kona leyfði sér að tala við stelpuna! Ég er enn orðlaus eiginlega!

Hvað finnst ykkur um þetta kæru lesendur, hafið þið orðið vitni að einhverju svipuðu? Megið endilega senda okkur línu á ritstjorn@hun.is.

SHARE