Algeng orsök þarmasýkinga út um allan heim

Niðurgangur af völdum nóróveira er algeng orsök þarmasýkinga út um allan heim. Hún greindist í fyrsta sinn í tengslum við hópsýkingu í grunnskóla í Norwalk, Ohio í Bandaríkjunum árið 1972 og er fyrsta veiran sem tengd var einkennum frá meltingarvegi. Í kjölfar þessa greindust fleiri veirur með svipað útlit og eiginleika, fengu þær nöfn eftir stöðunum þar sem þær fundust (Hawai, Montgomery County, Taunton og Snow Mountain).

Allar veirurnar voru svipaðar í útliti, litlar og hringlaga, við skoðun í rafeindasmásjá . Þær fengu því nafnið „litlu hringlaga veirurnar“ (Small Round Structured Viruses) en ganga nú hérlendis undir nafninu nóróveirur (sem dregið er af eldra heiti þeirra, Norwalk líkar veirur, NLV). Veiran er bráðsmitandi og berst auðveldlega manna á milli. Hópsýkingar á sjúkrahúsum og öðrum meðferðar- og umönnunarstofnunum geta verið alvarlegt vandamál þegar þær koma upp og því er mjög mikilvægt að reyna að hindra útbreiðslu veirunnar innan sjúkrastofnana. Hópsýkingar á skemmtiferðaskipum og hótelum hafa einnig valdið töluverðum usla.

Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tími frá smiti til einkenna, er einn til tveir sólarhringar.

Sjá einnig: Hvað er innkirtlakerfi?

Einkenni

Algengustu einkennin eru niðurgangur og/eða uppköst sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til þremur sólarhringum án nokkurrar meðferðar.

Smitleiðir

Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu en einnig benda líkur til að smitið geti verið loftborið. Uppköst eru bráðsmitandi og eru dæmi þess að veiran hafi borist í loftinu til fólks í nánasta umhverfi. Önnur algeng smitleið er með fæðu og vatni og er mengun matvæla frá sýktum einstaklingum algeng smitleið. Einnig er smit með ostrum vel þekkt, en smitið berst í ostrurnar með nóróveirumenguðu vatni.

Meðferð

Sýklalyfjagjöf kemur ekki að gagni. Verkjalyf (paracetamol) geta dregið úr einkennum, einkum ef sýkinni fylgja beinverkir og höfuðverkur. Mikilvægt er að drekka vel á meðan á veikindum stendur. Í einstaka tilfellum reynist nauðsynlegt að leggja viðkomandi inn á sjúkrahús til vökvagjafar í æð.

Sjá einnig: Hægðatregða hjá kornabörnum

Fylgikvillar

Sýkingin getur valdið verri einkennum hjá einstaklingum sem eru veikir fyrir.

Forvarnir

Einstaklingar með nóróveirusýkingu eru smitandi meðan á veikindum stendur en eru í flestum tilfellum lausir við smit tveimur til þremur sólarhringum eftir að einkenni eru horfin.  Þó eru dæmi um smitandi einstaklinga allt að 10 dögum eftir bata.

Gæta skal varúðar við þegar hreinsað er eftir einstaklinga með NLV- sýkingu þar sem uppköst og niðurgangur eru bráðsmitandi.

Á sjúkrastofnunum ber að einangra  viðkomandi eftir bestu getu meðan á veikindum stendur og í tvo sólarhringa eftir að einkenni eru horfin. Starfsfólki á sjúkrastofnunum ber að vera heima í tvo sólarhringa eftir að það hefur náð sér áður en það kemur aftur til vinnu.

Einstaklingar með einkenni um nóróveirusýkingu skulu ekki elda eða framreiða mat fyrir aðra.

Góður handþvottur er ávallt mikilvægur og árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit.

Ekki er hægt að bólusetja gegn nóróveirusýkingum.

Birt með góðfúslegu leyfi frá landlæknisembættinu www.landlaeknir.is

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE