Alvarlegt ofbeldi milli systkina – Íslensk kona segir frá

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú vilt deila reynslu þinni í Þjóðarsálinni, mátt þú endilega senda okkur póst á hun@hun.is og saga þín verður birt. Þú ákveður hvort hún eigi að vera nafnlaus eða ekki. 

Það finnst kannski mörgum eðlilegt að systkini rífist og sláist öðru hvoru. Það er ekki sjálfgefið að systkini eigi skap saman og geti leikið sér, en ef samskiptin milli þeirra þróast út í gróft ofbeldi þar sem annað barnið er yfirburðar sterkara en hitt, þá getur það haft alvarlegar afleiðingar til framtíðar fyrir þann sem verður fyrir ofbeldinu. Það hefur ekki verið fjallað mikið um alvarlegt ofbeldi milli systkina á Íslandi en það er nauðsynlegt að vekja athygli á því.

Það voru fá ár á milli mín og bróður míns. Það hefur væntanlega búið mikil ólga og reiði í honum þar sem hann varð sjálfur fyrir grófu ofbeldi að hálfu foreldra okkar. Drengurinn fékk svo útrás á litlu systur sinni.  Hann talaði aldrei eðlilega við mig heldur nýtti hvert tækifæri til þess að láta mig vita að ég væri heimsk og ljót. Hann réðst á mig fyrirvaralaust, sparkaði í magann þannig að ég missti andann, barði mig fast í öxl og bak, hrinti, tók mig hálstaki, snéri mig niður og hélt mér fastri á meðan hann kýldi mig í líkamann. Setti sæng yfir höfuðið og hélt henni fastri þangað til lítið súrefni var eftir. Felldi mig í gólfið þannig að höfuðið skall niður á meðan hann kom fótum sínum fyrir ofan á handleggjum mínum þannig að ég var bjargarlaus á meðan hann pikkaði á bringuna og viðbein.  Ég þjálfaði upp tækni til þess að aftengja huga frá líkamanum á meðan pyntingunum stóð til þess að lifa þær af.  

Þessar árásir stóðu yfir frá því ég var lítið barn og alveg þangað til ég varð unglingur.  Þær voru oft gerðar þegar enginn sá til en líka fyrir framan vini hans eða vinkonur mínar þannig að andlegri niðurlægingu var bætt ofan á líkamlegar þjáningar.  Ég flúði undan honum inn í herbergi mitt og þar sat ég ein, hötuð og niðurlægð klukkutímum saman eins og fangi.  Það er með ólíkindum að hann hafi aldrei spurt sjálfan sig, úff… skildi ég hafa gengið of langt núna þegar hann heyrði sáran grátur litlu systur sinnar.

Ég átti ekki roð í hann, hvorki líkamlega né andlega þar sem ég er kvenkyns og jafnramt yngri. Ég átti ekki roð í hann frekar en aðrir strákar á hans aldri þar sem hann var yfirburðar sterkari en allir. Við þessa yfirburði þurfti ég að takast á við nánast daglega og jafnvel oft á dag, árum saman.

Þegar ég var komin vel á unglingsaldur þá hættu þessar árásir. Það var svo mikill léttir.  Ég var svo þakklát fyrir þennan frið frá ofbeldinu og ég var fljót að rusla sárum upplifunum ofan í kassa, líma fyrir og gleyma.  Ég var svo fegin að geta átt ánægjuleg samskipti við bróður minn.  En líkaminn gleymir ekki, hann geymir og safnar.

Ég hef sem fullorðin kona þurft að takast á við hin ýmsu vandamál eins og allir aðrir.  Það var vond vöggugjöf að vera skilað frá æskunni með ofþanið taugakerfi og brotna sjálfsmynd. Það hafa fundist gamlir áverkar í líkama mínum þegar ég varð fullorðin sem voru ekki meðhöndlaðir. Einnig þoli ég ekki að vera snert á ákveðnum stöðum á líkamanum þar sem pyntingarnar voru mestar. Þegar ég hef svo þurft að takast á við áföll og erfiðleika eins og flestir ganga í gegnum þá kom að því að taugakerfi mitt sprakk og ég hef neyðst til þess að leita mér aðstoðar. Ég myndi aldrei leggja það á mig að rifja þessar hörmungar upp og horfast í augu við þær nema vegna þess að líkaminn er læstur.  Hann getur ekki meir. Ég á engra annarra kosta völ en að reyna að plástra þessi gömlu viðbjóðslegu sár því ég verð einhvern vegin að safna orku til þess að takast á við lífið. Ég hef þurft að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég ólst upp í aðstæðum sem voru stjórnlausar og hrottalegar, bjó við stöðugan ótta því ég vissi ekki hvort það kæmi högg handan við hornið.  

Ég er greind með áfallastreituröskun og vefjagigt. Vefjagigt er ólæknandi taugasjúkdómur.  Ég þarf að taka mikið af lyfjum á hverjum einasta degi til þess að lifa hann af en samt er ég alltaf með þunga verki í líkamanum og þarf að sætta mig við takmörkuð lífsgæði.  Sálfræðingarnir sem ég hef verið hjá undanfarin ár leiða mig alltaf niður í æskuna og það er þyngra en tárum taki að þurfa að rifja það helvíti upp.  Þeir segja að það sé eina leiðin svo ég geti átt möguleika á því að geta byggt mig upp. 

Bróðir minn gekk þannig frá mér að ég fæ aldrei tækifæri á að gleyma barsmíðunum í æsku. Hann gaf mér að lokum óvelkomna gjöf sem er ólæknandi taugasjúkdómur sem kvelur mig á hverjum degi, út ævina. Takk fyrir þetta kæri bróðir.

SHARE