Íþróttakonan Annie Mist Þórisdóttir hefur náð að heilla ritstjóra ameríska Vogue með árangri sínum í Cross Fit en það er hægara sagt en gert. Það hefur mikið verið fjallað um á erlendum netsíðum upp á síðkastið hversu langan tíma það tók fyrir Kim Kardashian að komast á síður tímaritsins en hingað til hefur það verið sagt að ritstjóranum hafi ekki þótt Kim nógu verðug til að prýða síður blaðsins.

Það fer þó ekki milli mála að Annie Mist er vænlegur kostur til að fylla síður þessa virta tískutímarits. Annie hefur sýnt og sannað með glæsilegum árangri sínum á Cross Fit leikunum að hún er bæði góð íþróttakona og fyrirmynd.
Í viðtalinu er farið snögglega en ýtarlega yfir sögu Annie, allt frá því að hún byrjaði að skríða á sinn einstaka hátt til dagsins í dag.
Annie er eina konan til að sigra Cross Fit leikana tvö ár í röð, 2011 og 2012, en vegna meiðsla gat hún ekki keppt í fyrra.  Eftir langt bataferli virðist Annie vera kominn á gott skrið og ætlar sér að taka þátt í leikunum í ár til þess að sýna að sama hvað gerist, ef þú ætlar þér eitthvað getur þú alltaf fundið leið til að ná því.
Annie segir að hún vilji hafa áhrif á ungar stelpur og fá þær til að einblína frekar á það hvað þær geta gert með líkama sínum frekar en það hvernig hann lítur út. Hún vill sýna þeim hvernig það getur gefið þeim betra sjálfsálit að æfa og að það sé fallegt að vera sterkur.

SHARE