Blóðleysi á meðgöngu

Konum er mun hættara við blóðleysi en körlum. Það stafar af mánaðarlegum blæðingum kvenna. Þegar konan hefur haft á klæðum notar hún járnforða sinn til að rétta af járntapið í blóðinu og því er fáheyrt að konur hafi varaforða af járni, þegar þær verða barnshafandi.

Það getur hljómað ótrúlega að hætta sé á járnskorti þegar þú verður ófrísk og hefur ekki lengur mánaðarlegar blæðingar. Ástæðan er sú að þegar fóstrið stækkar er meiri þörf fyrir járn í blóðið en venjulega.

Hvað gerist?

Líkami þinn framleiðir meira blóð til að hægt sé að dæla blóði til fylgjunnar þannig að barnið fái næringu og súrefni. Gert er ráð fyrir að blóðmagnið aukist um 45% á meðgöngunni. Ef þú eykur ekki við járnneysluna færðu ekki nóg járn til að framleiða þessi nýju rauðu blóðkorn. Mesta járnþörfin er á u.þ.b. 20. viku meðgöngunnar og um það leyti er algengt að konur finni til mikillar þreytu og mæði.

Sjá einnig: Meðgönguþunglyndi eða fæðingarþunglyndi

Hvers vegna er járn svona mikilvægt?

Járn er málmur (snefilefni) sem er nauðsynlegt framleiðslu rauðra blóðkorna. Það eru rauðu blóðkornin sem flytja súrefnið með hemoglóbíni út í hverja einustu frumu líkamans. Hemoglóbín er prótín í rauðu blóðkornunum og sér um að flytja hið lífsnauðsynlega súrefni um líkamann. Í einni blóðprufunni sem tekin er á meðgöngunni er magn hemoglóbíns í blóðinu mælt og þar með fundin blóðprósentan.

Hversu mikil er járnþörfin?

 

 • Undir venjulegum kringumstæðum hefur kona þörf fyrir u.þ.b. 15 mg af járni á dag.
 • Á meðgöngunni þarf hún u.þ.b. 30 mg á dag.

Járnþörf þín tvöfaldast því frá því sem venjulegt er og u.þ.b. helmingur vanfærra kvenna þarf að taka inn járntöflur á meðgöngunni.

Sumir læknar kjósa að láta allar þungaðar konur taka inn járn til vonar og vara, en aðrir fara eftir blóðprufum.

Járn er gefið ýmist í töfluformi eða sem mixtúra. Einnig eru til ýmsar náttúruvörur sem innihalda járn. Ræddu um það sem best hentar þér við lækninn þinn eða ljósmóðurina.

Sjá einnig: Vissir sjúkdómar og líkamsástand auka hættu á meðgöngueitrun

Vertu viðbúin því að járnlyf geti valdið óþægindum í maga, ógleði eða uppköstum og harðlífi. Til að vinna gegn þessu er ráð að taka járnið inn að kvöldi, áður en þú ferð að sofa, og borða trefjaríkt fæði.

Hver eru einkenni blóðleysis?

Ef um er að ræða vægt blóðleysi er ekki víst að þú fáir nein einkenni önnur en almenna þreytu.

Einkenni um alvarlegt blóðleysi:

 • þreyta, máttleysi og aukin sýkingahætta
 • fölvi
 • mæði
 • hjartabank
 • svimi og svartir dílar fyrir augunum
 • yfirlið eða aðkenning að slíku.

Ef þú verður vör við einhver þessarra einkenna skaltu leita til læknis til að kanna hvort þú sért blóðlaus. Blóðleysi getur einnig stafað af öðru en þungun, t.d.:

 • blæðingum
 • nýrna-, lifrar- eða þarmasjúkdómum
 • alvarlegum sýkingum
 • skorti á Fólínsýru (Fólínsýra er vítamín sem er nauðsynlegt til framleiðslu rauðra blóðkorna).

Ef þú þjáist af þessum sjúkdómum skaltu viðhafa sérstaka aðgát á meðgöngunni og taka sérstakt tillit til þess í samráði við lækninn og ljósmóðurina.

Sjá einnig: Svefntruflanir á meðgöngu

Hvað geturðu sjálf gert til að tryggja þér nóg járn á meðgöngunni?

Ef þú ert meðvituð um aukna járnþörf á meðgöngunni geturðu hagað matarvenjum þínum þannig að þú fáir sem mest járn úr fæðunni.

Eftirfarandi matvæli eru auðug af járni:

Lifur, lifrarkæfa, grænt grænmeti, t.d. spergilkál. Kornvara, t.d. gróft brauð og múslí. Járnið nýtist betur sé það tekið með C-vítamíni, því er hagstætt að borða mikið af grænmeti og ávöxtum. Nú er ekki lengur mælt með risaskömmtum af C-vítamíni.

 

Fleiri frábærar heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

SHARE