Á heimasíðunni Heilsa.is er að finna margar fræðandi og góðar greinar tengdar heilsu.

Blöðrubólga er ótrúlega algeng hjá konum, allt að 10-20% kvenna fá einkenni a.m.k. einu sinni á ári og 37% kvenna, sem hafa verið lausar við þvagfærasýkingar til þessa eiga á hættu að fá hana innan 10 ára. Þvagfærasýkingar eru mun sjaldgæfari hjá körlum. Þó svo að flestar þvagfærasýkingar séu af völdum baktería er ekki gott að tengja fjölda þeirra við einkenni sýkinganna. Bakterían E.coli er valdur að 90% þeirra sýkinga þar sem hægt er að greina bakteríurnar.2

Einkenni:

Helstu einkenni blöðrubólgu eru sviði við þvaglát, verkur í nára fyrir og eftir þvaglát, að þurfa sífellt að vera að kasta af sér vatni auk þess sem þvagið getur verið skýjað.1 Yfirleitt er sjúklingur með þvagfærasýkingu settur á sýklalyfjakúr en með notkun slíkra lyfja eykst hættan á þrálátri blöðrubólgu. Orsökin er sú að sýklalyfin eyða náttúrulegri gerlaflóru líkamans auk þess að eyða sýklunum. Þar með er náttúruleg vörn okkar farin og auðveldara er fyrir sýkla að komast að, auk þess sem hætta er talin á því að stofnar af E.coli sem þola sýklalyf geti þróast.2

Fyrirbyggjandi aðgerðir:

Markmið náttúrulegrar aðferðar við meðhöndlun blöðrubólgu, er að auka náttúrulegar varnir líkamans gegn þvagfærasýkingum. Aðferðirnar fela m.a. í sér að auka flæði vatns í gegnum líkamann, stuðla að pH gildi sem hamlar vexti sýklanna, koma í veg fyrir að þeir geti fest sig við þvagblöðruna og að efla ónæmiskerfið.2

Almennar ráðleggingar:

Drekka mikið af vökva til þess að auka flæðið í gegnum líkamann. Auðvelt er að auka vatnsflæðið með því að drekka 2 l af vökva á dag, helst vatn en te og ferskur ávaxtasafi eru einnig heppilegir vökvar.2Einnig er mikilvægt fyrir konur að pissa eftir samfarir þar sem að hættan á bakteríusýkingu er mikil eftir þær.2 Kuldi er oft meðvirkandi valdur að blöðrubólgu, því er mikilvægt að klæða hann af sér. Einnig getur gagnast að fara í hálftíma daglega í heitt bað, um 37-40° C, sem er svipaður hiti og í heitu pottunum. Fólk með háþrýsting og þeir sem veikir eru fyrir hjarta ættu þó að fara varlega í heitu böðin.5

Efling ónæmiskerfisins:

Þegar heilbrigðir sjálfboðaliðar voru fengnir til þess að borða 100 g af unnum sykri kom í ljós að geta hvítu blóðkornanna til þess að eyðileggja bakteríur minnkaði í a.m.k. 5 klst. eftir að þeir innbyrtu sykurinn. Þegar mikið af áfengi er drukkið verður einnig ákveðin bæling í ónæmiskerfinu. Því ráðleggja sumir læknar að minnka neyslu sykurs og áfengis á meðan barist er við þvagfærasýkingu.4

Trönuber koma í veg fyrir að bakteríurnar festi sig við þvagblöðruvegginn:

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að efni í trönuberjasafa torvelda E.coli að festa sig við þvagblöðruvegginn. Til þess að bakteríurnar geti sýkt er nauðsynlegt að þær festi sig fyrst við vegginn. Ef þessi festing er trufluð minnka því líkurnar á sýkingu, einnig hjálpar það líkamanum að berjast við sýkingar. Því er trönuberjasafi eitt af helstu vopnum náttúrulækninga gegn blöðrubólgu og öðrum þvagfærasýkingum.2Algengast er að drekka safann eða nota hylki eða töflur með þykkni úr safanum.

D-Mannose binst E-coli og skolar henni út með þvagi

E-coli bakterían veldur um 90% þvagfærasýkinga. D-Mannose er einsykra sem E-coli festir sig við í stað þess að festast við blöðruvegginn. Þannig kemur D-mannose í veg fyrir að sýking nái fótfestu og hún skolast út með þvagi. Þó að D-mannose sé sykra hefur hún hvorki áhrif á blóðsykur né þyngd. Hún meltist öðruvísi og hægar en t.d. glúkósi og ferðast þannig nokkuð óhindrað í gegnum nýru og niður í þvagblöðru þar sem hennar er mest þörf. D-mannose hefur það framyfir sýklalyf að vera laus við aukaverkanir og drepa ekki vinveittu gerlaflóruna sem er einn helsti ókostur sýklalyfja. Nýleg rannsókn sýndi fram á öfluga virkni D-mannose við að koma í veg fyrir endurteknar þvagfærasýkingar sem getur verið mjög erfitt að eiga við.Því má nota D-mannose sem öfluga forvörn í slíkum tilfellum.

D-mannose má finna í ýmsum ávöxtum og berjum en magnið þar er líklega ekki nóg til að vinna á sýkingum eða koma í veg fyrir að þær endurtaki sig. D-mannose er hægt að fá í dufti og í hylkjum í nægum styrkleika og hefur reynst mjög vel til að vinna á þessu hvimleiða og oft þráláta vandamáli.

Sólhattur (Echinacea) vinnur á sýklum og styrkir ónæmiskerfið:

Ákveðin mjög virk efni í sólhattinum styrkja ónæmiskerfið og hjálpa þannig líkamanum til að verjast sýkingum og vinna á þeim. En sólhatturinn gerir meira, í honum eru einnig efni sem beinlínis ráðast á sýkla og eyða þeim. Best er að taka 10 dropa (Echinacea Tonic) eða 1 töflu (Echinaforce) á stundar fresti í nokkra daga eða lengur ef með þarf. Nokkrar tegundir eru til af þessari jurt og sumar með lítið sem ekkert af hinum gagnlegu virku efnum. Sú tegund sem virkust er, er Echinacea purpurea.5

Sortulyng (Uva ursi)

Í þessari jurt er m.a. virka efnið arbútín. Arbútin breytist í hydroquinone og glúkósa í líkamanum en þessi síðasttöldu efni hafa bæði sýklaeyðandi eiginleika. Þó hefur komið í ljós að óunnið plöntuþykkni hefur betri áhrif en einangrað arbútín. Sortulyng er sérstaklega áhrifaríkt gegn E.coli. Birtar hafa verið rannsóknir þar sem fyrirbyggjandi áhrif jurtarinnar eru skoðuð. Í einni tvíblindri rannsókn voru athuguð áhrif sortulyngþykknis á endurtekna blöðrubólgu hjá 57 konum. Eftir eitt ár höfðu 5 af 27 konum í samanburðarhópnum (sem fékk lyfleysu) fengið blöðrubólgu en engin af þeim 30 sem voru í tilraunahópnum (sem fékk sortulyngs-þykknið) hafði fengið blöðrubólgu. Í hvorugum hópnum komu fram neinar aukaverkanir. Þessar niðurstöður benda til þess að regluleg notkun sortulyngs geti komið í veg fyrir blöðrubólgu. Þó þarf að gæta þess að taka ekki of mikið af sortulyngi, því það getur haft aukaverkanir í för með sér, jafnvel 15 g af þurrkuðum laufum getur valdið aukaverkunum, aðallega flökurleika hjá viðkvæmum einstaklingum. Ef tekið er allt of mikið getur fólki orðið mjög flökurt, kastað upp, fengið köfnunartilfinningu og misst andann. Börnum, ófrískum konum og konum með barn á brjósti er ekki ráðlagt að nota sortulyng.2

Annað sem mælt hefur verið með er:

  • Gullhrís (Solidago virgaurea) örvar starfsemi nýrnanna og eykur þar með vökvalosun.5
  • Goldenseal (Hydrastis canadensis) inniheldur efni sem vinnur á bakteríum. Sérstaklega hefur gildi hennar sannast gegn algengustu sýklum sem valda blöðrubólgu, þ.e. E.coli og Proteus gerla. Ekki er mælt með notkun þessarar jurtar á meðan á meðgöngu stendur.2
  • Acidophilus. Mjólkursýrubakteríur t.d. Lactobacillus acidophilus, Bifidobacterium bifidum og Lactobacillus bulgaricus byggja upp réttan gerlagróður í meltingarfærum. Bæði er hægt að taka þessar bakteríur inn í hylkjum og t.d. í jógúrti, en hylkin eru ávallt margfalt, margfalt sterkari.3
  • C-vítamín. Sumir læknar ráðleggja fólki að taka daglega allt að 5000 mg af C-vítamíni gegn bráðri blöðrubólgu. Sýnt hefur verið fram á að C-vítamín hamlar vexti E.coli auk þess sem það sýrir þvagið og skapar þannig óhentugar aðstæður fyrir ákveðnar bakteríur.4 Svo stóra skammta ætti þó aðeins að nota í skamman tíma.

Heimildir:

 

1. Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir: Íslenskar lækningajurtir. Örn og Örlygur 1992.

2. Murray/Pizzorno: Encyclopedia of Natural Medicine. Prima Publishing, 1998.

3. http://www.tnp.com/

4. http://www.vitaminworld.com/

5. Dr. h.c. A. Vogel: The Nature Doktor. Mainstream Publishing.

6. Altarac S et. al. D-mannose powder for prophylaxis of recurrent urinary tract infections in women: a randomized clinical trial. World Journal of urology, 32:1, 79-84.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.

Heimildir: Heilsa.is

Heilsa á Facebook

SHARE