Börn óöruggra foreldra líklegri til að glíma við offitu

FreeDigitalPhotos.net

Við höfum öll heyrt fólk tala um að „borða tilfinningar sínar“ og margir eiga það til að fá sér eitthvað gott í gogginn ef dagurinn hefur ekki verið sérstakur. Oft er ástarsorg og það, að borða ísinn beint uppúr boxinu, tengt saman af einhverjum orsökum. Það er mikið grínast með svona og það er leyfilegt að grínast með þetta því við tengjum öll við þetta að einhverju leyti.

Samkvæmt nýrri rannsókn er hinsvegar talið að uppeldisaðferðir foreldra séu tengdar offitu hjá börnum.

Í rannsókninni, sem framkvæmd var af háskóla í Illinois, voru skoðaðar uppeldisaðferðir tæplega 500 foreldra. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir þátttakendur voru margvíslegar. Þær voru frá því að vera tengdar geðheilsu foreldranna til sambands þeirra við barn sitt og hvernig foreldrarnir tókust á við tilfinningar barns síns.

Þeir foreldrar sem kunnu ekki almennilega að takast á við kvíða eða tilfinningalegan vanda barna sinna, voru flokkaðir sem „óöruggir foreldrar“. Þeir foreldrar voru þeir sem, í stað þess að ræða vandann, vísa honum á bug eða jafnvel refsa barninu fyrir að tala um hlutinn.

Af því að börnin fá ekki þann stuðning sem þau þurfa frá fjölskyldunni sinni, þá eru börn „óöruggra foreldra“, líklegri til þess að snúa sér í aðra huggun, eins og til dæmis mat og þá oft á tíðum ruslfæði. Að auki eru þau börn líklegri til þess að eyða miklum tíma fyrir framan tölvu eða sjónvarp, sem einnig er tengt við óheilsusamlegar matarvenjur og offitu barna.

Hvað er þá til ráða að mati þeirra sem stóðu að rannsókninni? Þeir vilja meina að foreldrar þurfi að læra að ræða um vandamálin við börnin sín. Foreldrar og börn eiga að tala saman um hvernig þeim líður og þá verða aðstæðurnar auðveldari og vandamálið mun smærra.

 

 

SHARE