Dauðinn og líf eftir dauðann

Ég var mjög ung þegar ég kynntist dauðanum í fyrsta sinn. Í rauninni vissi ég ekkert hvað þetta var en ég man að ein uppáhalds frænka mín lést úr krabbameini og mér var sagt frá því og hún væri núna komin til guðs og ég skildi að ég sæi hana aldrei aftur. Frænka mín varð 68 ára gömul og ég sem 8 ára gömul stúlka reiknaði á puttunum mínum hversu langt væri þangað til mamma mín yrði 68 ára og myndi fara frá mér líka. Það sama gerði ég fyrir allt lykilfólkið í kringum mig á þessum tíma.

Ég skildi ekki hvað dauðinn var. Ég skil það ekki ennþá. Þegar fólk sem okkur þykir vænt um deyr þá finnur maður svo svakalega fyrir vanmætti sínum því þegar svo er komið er EKKERT sem maður getur sagt eða gert sem breytir því. Ég var svoleiðis krakki sem vildi alltaf vita allt um allt og mamma mín hafði alltaf öll svör fyrir mig, en þegar ég fór að spyrja spurninga um dauðan þá liggja svörin auðvitað ekki alveg á reiðum höndum. Mig langaði að vita hvert maður færi þegar maður deyr og fékk þau svör að maður færi til himna. Gott og vel, en hvar er það? Jú það er fyrir ofan skýin. En ég vissi það að lengst fyrir ofan skýin væri bara myrkur og mér fannst það ekki huggulegur staður til að vera á ALLTAF. Ég afgreiddi það með því að þetta hlyti bara að vera ENN ofar en myrkrið og stjörnurnar.

Seinna heyrði ég að til væru draugar og það væru andar þeirra sem væru farnir. Það fannst mér engan veginn passa því andarnir áttu að vera hjá guði í himnaríki. Þetta var enn meira rugl fyrir mig og ég barðist í mörg ár við þversögnina í þessu. Ég var myrkfælin og draugahrædd, sérstaklega þegar ég labbaði framhjá kirkjugarðinum í sveitinni minni að kvöldi til.

Ennþá seinna heyrði ég svo að við fæddumst aftur og aftur bara í öðrum líkama. Bíddu nú við, þarna var einn vinkillinn í viðbót sem ég átti erfitt með að skilja. Rómantíska hugmyndin um eilífa gleði, regnboga og hringekjur í himnaríki varð alltaf minna og minna trúverðug í huganum á mér. Ég var á þessum tímapunkti orðin alveg rugluð í þessu, hvað gerist eiginlega þegar maður deyr? Ég spurði marga að þessu en fékk aldrei neitt svar að sjálfsögðu.

Sannleikurinn er sár og óþægilegur en við vitum EKKERT hvað gerist þegar við deyjum og það er eitthvað sem vísindamenn geta skoðað alla daga og allar nætur og það myndi áreiðanlega ekki leiða til neinna niðurstaðna.

Sjálf óttast ég ekki að deyja, ég er viss um að hvað sem gerist hljóti það að vera bara ágætt. Það sem ég hinsvegar óttast meira er að fólkið sem ég elska fari frá mér og ég þurfi að takast á við það. Ég hef misst nokkra nákomna mér á því sem af er ævi minni og mér hefur alltaf þótt það svo erfitt að sætta mig við og komast yfir, sérstaklega er það óvissan sem mér finnst svo erfið. Er maður að fara að hitta þann látna aftur þegar maður deyr sjálfur? Eða þarf maður bara að sætta sig við að þetta sé búið?
Ég vona svo sannarlega ekki.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here