Dýragarður sonar míns

Ég hef aldrei æft íþróttir. Fótbolti, sund, hlaup, hef aldrei skilið aðdráttaraflið. En í kvöld kláraði ég verkefni sem ég hef unnið að í nokkra daga, og þegar ég límdi síðasta hlutinn þá hugsaði ég að svona hlyti fólki líða þegar það kláraði maraþon eða náði fjallstindinum.

Sonur minn á mjög mikið af tuskudýrum, og hann hreinlega elskar þau. Herbergið hans er mjög lítið þannig að mér datt í hug að útbúa eitthvað fyrir þessi dýr. Ég keypti 2 ramma, 4 viðarstangir, viðarkúlur, viðarmerkingar (í Söstrene grene, ætlaðar til að merkja gróður), og svo átti ég viðarstafina og þetta þykka snæri. Ég notaði líka trélim, viðarbæsi og bor.

 

Ég minnkaði stangirnar aðeins og sagaði viðargróðurmerkinguna til þannig að þetta varð jafnt á alla kanta. Svo bæsaði ég hlutina sem þurfti að bæsa og merkti fyrir og boraði í rammana fyrir snærið. Eftir að ég bæsaði þá beið ég í sólahring með að halda áfram.

Svo skrúfaði ég stangirnar og rammana saman og viðarkúlurnar. Þá leit þetta svona út.

Svo þræddi ég snærið í gegnum götin á römmunum, festi endana með heitri límbyssunni undir neðri rammanum þannig að þeir sjást ekki.

Svo límdi ég stafina á skiltið og skiltið á efri rammann. Og sonur minn var kominn með dýragarð.

SHARE