„Ég var í sveit hjá barnaníðingi“

Við hjá hun.is fengum þessa grein senda í kvöld eftir Kastljósþáttinn um barnaníðinginn Karl Vigni Þorsteinsson. Þetta er frásögn rúmlega þrítugrar konu og birtum við hana í heild sinni:

Þegar ég var lítil var ég í sveit hjá manni sem bjó ásamt konu sinni á litlum sveitabæ úti á landi. Maðurinn var mjög vinamargur í sveitinni og allir kunnu vel við hann, fullorðnir og börn en hann átti alltaf sælgæti í vasanum eða í bílnum sínum. Ég var oft hjá þeim og fyrstu árin var þetta allt í lagi og mér leið vel. Það komu oft önnur börn og mikið líf var á bænum. Þegar ég var svona 10 ára þá sat ég eitt kvöldið í stofunni og var að horfa á fréttir með kallinum. Hann situr í sófanum og ég sit framarlega á sófanum því þannig náði ég með fótunum í gólfið. 

Allt í einu kom hönd inn á peysuna og inn á bakið á mér og ég man að ég stirðnaði upp. Ég vissi ekki hvað var að gerast en ég vissi að mér fannst þetta óþægilegt. Ég varð ofsalega hrædd og þorði varla að hreyfa mig. Ég endaði þó á því að færa mig framar í sófan svo hendin næði mér ekki en hún var fljótlega komin aftur. Þá rauk ég á fætur og fór inn í herbergið sem ég svaf í. Mér fannst ég hræðileg manneskja að bregðast svona við og líða svona illa með þetta. Mér fannst ÉG vera eitthvað sjúk og að ég skyldi dirfast að hugsa þetta svona.

Ég sagði aldrei neinum frá þessu en uppfrá þessu hætti ég að vilja fara þangað og mamma vissi ekkert af því ég þorði ekki að segja henni að mér finndist óþægilegt að vera þarna. Mér fannst ég vanþakklát því þau voru jú „alltaf svo góð við mig“. Þau gáfu mér flottustu gjafirnar og fullt af sælgæti alltaf og svo vildi ég ekki koma þangað lengur. Allavega ekki til að gista. 

Þetta samviskubit angraði mig í mörg ár. Alveg þangað til að ég var orðin rúmlega tvítug en þá komst ég að því að þessi maður hafði misnotað a.m.k tvö börn sem ég veit um sem höfðu verið hjá þeim í sveit. Þá fékk ég staðfestingu á því að sú tilfinning sem ég fékk þegar ég var um 10 ára gömul var rétt. Ég hafði ekkert vit á því hvað var „óviðeigandi“, ég bara fann það, alveg inn að beini. 

Mig langaði bara að deila með ykkur minni reynslu svo hún geti kannski orðið einhverjum að gagni og til þess að minna foreldra á það að hlusta á börnin. Ef þau vilja alls ekki fara eitthvert eða hitta einhvern þá skuluð þið taka mark á þeim.

kveðja 

U

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here