Hollur “Orange Chicken” – Uppskrift

Þegar við fjölskyldan höfum farið til Bandaríkjanna vilja krakkarnir alltaf fá sér “Orange chicken” í verslunarmiðstöðvunum. Þessi appelsínuhúðaði kjúklingarréttur er algjört lostæti en í flestum tilfellum er kjúklingurinn djúpsteiktur áður en appelsínuglassúrinn er settur yfir hann. Ég fann hinsvegar þessa frábæru og hollari uppskrift af “Orange Chicken” þar sem kjúklingurinn er pönnusteiktur. Prófaði hana í gær og viti menn….. börnin ELSKA hana! Þessi uppskrift er einföld en sú sem ég gerði var tvöföld þannig að magnið er meira á myndunum.

Uppskrift:

 • 3 stk Kjúklingarbringur

Marinering fyrir kjúklinginn:

 • 2 msk – Appelsínusafi úr ferskri appensínu
 • 1 msk – Soyasósa
 • 1/2 tsk – Salt
 • 1/2 tsk – Pipar
 • 1 msk – Maísmjöl
 • 1/2 tsk – Lyftiduft

Aðferð:

Skerið kjúklinginn í hæfilega bita og setið í hæfilega stóra skál. Setið svo öll hráefnin fyrir marineringuna yfir kjúklinginn og blandið vel saman. Leyfið því svo að vera í skálinni í c.a. 20-30 min eða á meðan þið búið til appelsínuglassúrinn.

Appelsínuglassúrinn:

 • 4 msk – Appelsínusafi úr ferskri appensínu
 • 2 tsk – Rifinn appelsínubörkur
 • 4 msk – Hvítvínsedik
 • 2 msk – Soyasósa
 • 4 msk – sykur
 • 1 msk – Hunang
 • 3 stk – Rifinn hvítlauksgeiri
 • 1/2 tsk – Rifið ferskt engifer (passa að setja ekki of mikið)
 • 1/2 tsk – Rauðar chilli flögur/pipar

Aðferð:

Blandið þessu öllu í skál og hrærið saman . Setjið kjúklinginn yfir á heita pönnu með smá olíu og brúnið hann. Þegar það fer að verða stutt í að kjúklingurinn er full eldaður hellið þá glassúrblöndunni yfir kjúklinginn á pönnunni og hrærið því saman við kjötið. Leyfið kjúklingnum að full eldast og þegar sósan er farinn að þykkjast er rétturinn tilbúinn. Ef ykkur finnst glassúrsósan ekki nógu þykk er alltaf hægt að bæta örlítið af maísmjöli í sósuna og þá þykkist hún strax.(Ekki of mikið samt)

Gott er að dreifa sesamfræjum og saxaðan púrlauk yfir kjúklinginn áður en þú berð hann fram. Ég sauð hrísgrjón og pönnusteikti broccoli úrolíu og hvítlauk og bar það fram með appelsínuhúðaða kjúklingnum. Fjölskyldan elskaði það!

SHARE