Hvað er blóðleysi á meðgöngu?

 • Blóðleysi felur í sér skort á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin ferðast um líkamann eftir æðunum, vinna súrefni úr lungunum og skila því til frumna líkamans. Frumurnar nota súrefnið til brennslu sem gefur okkur orku. Úrgangsefni brennslunnar er koldíoxíð (CO2 ) sem binst rauðu blóðkornunum sem hafa skilað súrefninu til frumnanna. Koldíoxíð flyst til lungnanna þar sem því er skilað út með öndun.
 • Ef rauðu blóðkornin eru of fá eða starfa ekki sem skyldi koma fram einkenni súrefnisskorts, þ.á.m. þreyta, slappleiki ofl.
 • Blóðleysi verður yfirleitt vegna minnkaðrar framleiðslu rauðra blóðkorna og/eða vegna óeðlilega mikils taps á þeim.
 • Rauðu blóðkornin eru framleidd í beinmerg og lifa í u.þ.b. 4 mánuði. Til framleiðslunnar þarf m.a. járn, B12 vítamín og fólínsýru. Ef eitthvert þessara efna vantar eða er í litlum mæli í líkamanum minnkar framleiðsla rauðu blóðkornanna með tímanum og einkenni blóðleysis koma fram.

Orsakir blóðleysis á meðgöngu

 • Járnsnautt fæði, sérstaklega hjá grænmetisætum og þeim sem eru sífellt í megrun, en kjöt er ein aðaluppspretta járns úr fæði.
 • Fólínsýruskortur.
 • Aukið blóðtap vegna blæðandi gyllinæðar eða blæðinga frá meltingavegi.
 • Á meðgöngu eykst þörf á þeim efnum sem notuð eru til framleiðslu rauðra blóðkorna því að hið ófædda barn þarf að sjálfsögðu á rauðum blóðkornum að halda.

Sjá einnig: Hvað er blóðleysi vegna skorts á B12 vítamíni?

Hver eru einkennin?

 • Það er nokkuð einstaklingsbundið hvenær fólk fer að finna fyrir einkennum. Blóðleysi er skilgreint þannig að konur sem hafa hemóglóbín minna en 120 g/l og karlar með minna en 130 g/L af hemóglóbín teljast vera blóðlítil. Einnig er einstaklingsbundið hversu mikið hemoglobin fólk hefur og gildi sem veldur einkennum hjá einum þarf ekki að valda einkennum hjá öðrum.
 • Fyrstu einkennin eru þreyta, aukinn eða þungur hjartsláttur, andþyngsli og svimi.
 • Ef blóðleysið er mikið getur það leitt til hjartverkja, hausverkja og verkja í fótum við gang eða áreynslu.

Hvað ber að gera til að forðast blóðleysi á meðgöngu?

 • Borða skal fjölbreytt fæði, gjarnan járn-og vítamínríkt og þá sérstaklega fólínsýruríkt en fólínsýran er m.a. í grænu grænmeti s.s. spergilkáli, grænkáli og spínati. Baunir, haframjöl, sveppir, aspas, nautakjöt og lifur innihalda einnig mikið af fólínsýru.
 • Ráðgjöf hjá lækni þínum hvað varðar mataræði á meðgöngu og þá gjarnan fyrir þungun.Gott er að líkaminn hafa næga fólínsýru áður en þungun á sér stað ef hugað er að barneignum, fáðu þá ráðleggingar um töku hennar hjá lækni.
 • Lifur, nautakjöt og heilhveitibrauð innihalda mikið járn sem og morgunkorn, egg og þurrkaðir ávextir.
 • C vítamín hjálpar líkamanum að taka upp járn úr þörmunum. Ferskt grænmeti,kartöflur og sítrusávextir, t.d. appelsínur innihalda mikið af C vítamíni.
 • Varast skal reykingar og áfengisneyslu á meðgöngu.

Sjá einnig: Af hverju fær maður blöðrubólgu?

Hvernig greinir læknirinn blóðleysi á meðgöngu?

Í fyrstu er tekið blóðsýni til þess að ganga úr skugga um að um blóðleysi sé að ræða. Um leið og blóðmagnið er metið er útlit rauðu blóðkornanna skoðað en þau geta breytt um lögun og jafnvel lit ef þau skortir byggingarefni. Læknirinn notar einnig ýmis önnur gildi sem koma fram í blóðsýninu til þess að finna orsök blóðleysisins og taka ákvörðun um hvort hægt sé að fjarlægja orsökina.

Hvað gerir ástandið verra?

 • Einstaklingar með kransæða- og/eða lungnasjúkdóm þola blóðleysi síður en aðrir.
 • Andþyngsli, ör hjartsláttur og hjartaverkur.
 • Fæðing fyrir tímann.
 • Aukið blóðleysi t.d. vegna mikils blóðtaps í fæðingunni.

Þróun sjúkdómsins

Ef orsökin er fjarlægð og/eða skortur á ýmsum efnum bættur ættu einkennin að hverfa.

Hvað getur læknirinn gert?

 • Læknirinn getur fundið orsakavaldinn og beitt meðferð gegn honum.
 • Gefið ráðleggingar um bætiefni og vítamín.
SHARE