Hvað er líknarmeðferð?

Hvað er líkn ?

  •  Líkn er kvenkynsnafnorð skylt líkami.
  •  Að líkna er sagnorð dregið af líkn.
  •  Líkn útleggst: Miskunn, náð, sáluhjálparvegur (vegur guðs), hjálp, hjúkrun.
  •  Að líkna útleggst: Að hjálpa, að hjúkra, að lina þjáningar, að hugga.
  •  Að lækna útleggst: Að ráða bót á sjúkdómi, gera einhvern heilan heilsu, að græða.

Líkn er fylginautur lækningarinnar og stendur áfram þegar lækning er ekki lengur möguleg. Líknin tekur bæði til andlegra og líkamlegra þátta, linar þjáningar, hjálpar og huggar.

Líknarmeðferð eða Hospice hugmyndafræðin er upprunnin í Bretlandi og hefur rutt sér til rúms í flestum löndum.

Líknandi meðferð hefur sjálfsagt alltaf verið til. Munkar á miðöldum veittu þreyttum og þurfandi líknandi þjónustu í anda kristinnar trúar. Þó að líknarmeðferð sé oftast beitt við krabbameinssjúklinga á hún rétt á sér hjá öllum sjúklingum með takmarkaða lífsmöguleika, óháð aldri og orsökum sjúkdómsins.

Sjá einnig: Helstu einkenni ofsakvíða: Hefur þú þörf fyrir meðferð?

Aðaláherslur líknarmeðferðar eru

  • Að ekki séu gerðar tilraunir til að lengja eða stytta líf sjúklings á síðasta tímabili ólæknandi sjúkdóms.
  • Að líta á sjúklinginn í heild sinni, með líkamlegar, andlegar, félagslegar og trúarlegar þarfir.
  • Að leggja ríka áherslu á lífsgæði í öllu sem varðar meðferð sjúklingsins.
  • Að réttur sjúklingsins til ábyrgðar á eigin lífi sé virtur.
  • Að líta á aðstandendur sem skjólstæðinga.

Nauðsynlegt er að góð samskipti séu á milli sjúklings/aðstandenda og hjúkrunarfólks til þess að tryggja gott upplýsingastreymi.

Ef við höfum góðar upplýsingar um gang mála, getum við tjáð okkur opinskátt og af hreinskilni.

Markmið með umönnun

Líknarmeðferð er heildræn umönnun og varðveisla lífsins en jafnframt er litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil. Beitt er markvissri einkennameðferð sem tengir saman umönnun líkamlegra, andlegra, félagslegra og trúarlegra þátta og miðar að því að gera þann hluta lífsins sem eftir er eins innihaldsríkan og þjáningarlausan og kostur er.

Umönnunin felur í sér að uppfylla þarfir einstaklingsins, ekki bara sem sjúklings, heldur fyrst og fremst sem manneskju.

1. Líkamleg: Aðstoð við umhirðu, hreyfingu, næringu,losun úrgangsefna (uppfylling frumþarfa).

2. Andleg: Felur í sér virðingu, hlýju, skilning og gagnkvæmt trúnaðartraust.

3. Félagsleg: Þörfin fyrir að vera einhvers virði, að vera ekki einn. Gott samband við ástvini og hjúkrunarfólk.

4. Trúarleg: Þörfin fyrir skilning og stuðning á sínum eigin trúarlegu forsendum. Að hafa tækifæri til að ræða við trúarleiðtoga (eða aðra) innan eigin trúarbragða.

Þegar um er að ræða aldrað fólk, fólk með skerta vitsmunagetu og andlegt atgerfi, er erfitt að gera sér grein fyrir að hve miklu leiti það skilur hvað um er að vera.

Við ættum að ganga út frá því að skilningurinn sé meiri en fólk gefur til kynna og nálgast dauða hans á sama hátt og hjá öðrum.

Dauðinn er í flestum tilfellum mislangt ferli sem einkennist af því að meira og meira af líkamlegri og andlegri starfsemi dvínar, þar til líkaminn getur ekki lengur haldið uppi nauðsynlegri starfsemi. Þessar breytingar eru eðlileg og náttúruleg aðferð við að búa okkur undir endalokin.

Óttinn við dauðann – Sorgarferlið

Í vestrænum menningarsamfélögum er óttinn við dauðann rótgróinn. Enginn lifir bara með sjálfum sér, þess vegna upplifa ástvinir sjúklinganna ekki síður þennan ótta. Þó dauðinn sé fyrirsjáanlegur er eins og við séum aldrei viðbúin þegar hann knýr dyra.

Sorg er eðlilegt viðbragð við missi. Við finnum fyrir sorg á mismunandi hátt, en talið er að langveikir sjúklingar með alvarlega og ólæknandi sjúkdóma og aðstandendur þeirra gangi í gegnum ýmis geðhrif og sálarkreppur.

Að þekkja þessi stig sjúklingsins og aðstandenda auðveldar samskipti og tjáskipti við sjúklinginn, og eykur skilning okkar á eigin viðbrögðum.

Afneitun: Fyrsta stigið er hjá flestum óraunveruleikatilfining. Þetta getur ekki verið að koma fyrir mig.

Baráttustig: Sjúklingurinn beitir öllum ráðum til þess að fá lækningu. Reynir jafnvel að semja við almættið. Reiði og ásökun eru ríkjandi.

Þunglyndi: Viðurkenning á að lækning er ekki möguleg. Kvíði, sektarkennd og vanmáttarkennd ríkjandi tilfinningar.

Sáttin: Úrvinnsla tilfinninga, endurskoðun lífsins. Sátt við sjálfa sig og aðra. Æðruleysi og rósemd.

Þó að allir sjúklingar gangi í gegnum þessi stig að einhverju leyti, þá koma þau ekki í sömu röð hjá öllum, né eru eins augljós og oft eru fleiri en eitt til staðar í einu. Sumir geta hlaupið allan tilfinningaskalann mörgum sinnum áður en sáttin næst og í sumum tilfellum kemur dauðinn áður en sjúklingur hefur haft tíma til a vinna úr öllum sínum tilfinningum.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE