Kjúklingaleggir í Jamaíka kryddlegi

Þetta er svo einfalt og svakalega gott! Hann kemur vitaskuld frá Allskonar.is. Þessi réttur er ótrúlega fljótlegur en bragðið er eins og þú hafir staðið sveitt/ur í eldhúsinu í marga klukkutíma.

Kjúklingaleggirnir liggja í marineringu yfir nótt eða lengur.
Mesta vinnan er að skinnhreinsa leggina og útbúa marineringuna, sem tekur samt bara nokkrar mínútur. Þú getur notað kjúklingabita, kjúklingafile, vængi, bringur -eða bara hvaða kjúklingakjöt sem þér dettur í hug fyrir þessa marineringu. Marineringin dugar fyrir a.m.k. 12-15 bita eða bringur.

Kjúklingaleggir í Jamaíka kryddlegi

  • 2 hvítlauksrif, marin
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk salt
  • 1/4 tsk svartur pipar, malaður
  • 1 tsk timian eða 5 greinar ferskt timian
  • 1/2 tsk cayenne pipar
  • 1/2 tsk kanill, malaður
  • 1/2 tsk engifer, malað
  • 1/4 tsk allrahanda
  • 1/4 tsk negull, malaður
  • 2 msk púðursykur
  • 6 msk olía
  • 2 msk sojasósa
  • 6 slettur af tabasco eða chilisósu
  • kjúklingabitar

Undirbúningstími: 15 mínútur

Marinering í ísskáp: 12 klst+ eða lengur

Eldunartími: 25 mínútur

Settu í stóra skál, hvítlauk, laukduft, salt, pipar, timian, cayenne, kanil, engifer, allrahanda, negul og púðursykur. Blandaðu vel.

Þeyttu olíunni og sojasósunni saman við öll kryddin ásamt tabasco/chilisósunni þar til þú ert komin/n með mjúka en þykka sósu.

Skinnhreinsaðu kjúklinginn ef þú vilt. Veltu kjúklingnum varlega en vel upp úr blöndunni og settu í plastílát inn í ísskáp. Láttu marinerast yfir nótt, því lengur – því betra.

Hitaðu ofninn í 180°C. Settu olíu í eldfast mót og helltu svo öllu úr plastílátinu í eldfasta mótið. Marineringunni og kjúklingnum.

Steiktu í ofninum í 25-30 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.

Borið fram með fersku salati og hrísgrjónum. Gott að setja 1 tsk af tómatpúrru út í hrísgrjónin þegar þú sýður þau og hálfa kanilstöng til að gefa bragð.Það er frábært að nota afganginn af þessum kjúklingi út í hrísgrjón eða salat þar sem að marineringin gefur gott og mikið bragð alveg inn að beini. Svo er alveg meiriháttar að vera með einn soð-safn-poka í frystinum þar sem þú safnar ÖLLUM kjúklingaafgöngum; skinni, kjöti, beinum. Þegar þú ert komin/n með fullan poka þá seturðu allt í pott með lauk, gulrótum, selleríi, piparkornum og lárviðarlaufum og 3-4L af vatni og sýður í soð. Það er sko ekkert eins og heimatilbúið alvöru soð. Soðið er svo hægt að frysta, mér finnst best að frysta það í ziploc pokum, það er auðvelt að frysta soðið flatt í pokunum og stafla inn í frystinum, í mismunandi stærðum eins og 450 ml og 650 ml sem virðist vera það magn sem oftast þarf af soði í uppskriftir.

Endilega smellið einu like-i á Allskonar á Facebook.

SHARE