Laufabrauð

Það er varla neitt jólalegra en laufabrauð. En hafið þið prófað að gera þau sjálf?

Laufabrauð

1 kg hveiti

30 g sykur

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

5-6 ml mjólk

1 msk. smjörlíki

steikingarfeiti eftir þörfumBlandið saman þurrefnunum. Hitið mjólkina upp að suðumarki og bræðið smjörlíkið í henni. Hellið saman við þurrefnin og hrærið vel saman. Hnoðið í samfellt deig, og búið til lengjur. Geymið undir rökum klút. Þetta þarf að ganga hratt fyrir sig, því best er að fletja deigið út á meðan það er ennþá volgt.

Skerið eða klípið deig af rúllunni og fletjið þunnt. Stráið smáhveiti undir áður en flatt er, og berið hveiti á kökukeflið. Það er talin góð flatning ef hægt er að lesa fyrirsagnirnar á forsíðu Morgunblaðsins (sumir segja textann) í gegnum deigið.

Leggið disk ofan á útflatt deigið og skerið út. Notið kleinujárn til að fá skemmtilegar brúnir á kökurnar.

Ef geyma þarf kökurnar í einhvern tíma áður en þær eru steiktar, staflið þeim þá upp með bökunarpappír á milli, og geymið í kæli í lokuðum plastpoka (ekki lengur en í 1-2 sólarhringa).

Skerið kökurnar út með laufabrauðsjárni eða hníf, og pikkið kökurnar vel með kartöflugaffli eða hnífsoddi. Ef það er ekki gert geta myndast loftbólur í kökunum við steikingu.

Steiking

Hitið steikingarfeiti í djúpum, víðum potti. Ýmiskonar feiti má nota, t.d. tólg, djúpsteikingarfeiti eða hrossafitu. Feitin er tilbúin þegar byrjar að rjúka úr henni.

Leggið kökurnar í feitina, eina í einu. Ágætt er að nota steikargaffal til að snúa þeim. Steikið í nokkrar sekúndur og snúið síðan við. Gætið þess að ekki komi brot á kökurnar.

Þegar þær eru gullinbrúnar eru þær veiddar upp úr og lagðar á þykkt lag af eldhúspappír og feitin látin renna af þeim (ágætt er að nota dagblöð og leggja eldhúspappír ofan á). Þrýstið létt ofan á hverja köku með flötum diski eða hlemmi til að þær verði sléttar.

Látið kökurnar kólna alveg, og geymið í lokaðri dós. Ef laufabrauð eru geymd á svölum og þurrum stað geta þau geymst mánuðum saman.

Laufabrauð passar vel með nánast öllum mat, hvort sem er með eða án smjörs.

SHARE