Lús sem festist aðallega við hárin á kynfærum

Flatlús er sníkjudýr sem lifir á mönnum. Hún er gulgrá að lit, 2-3 mm að stærð og sést með berum augum. Lúsin er mjög flöt og líkist krabbadýri í smækkaðri mynd. Hún festist aðallega við hárin á kynfærum en getur einnig breiðst út til annarra staða á líkamanum þar sem hárvöxtur er, s.s. í handarkrika og á bringu og hún getur einnig sest í augnhár. Flatlús tekur sér sjaldnast bólfestu í hársverði, nema hjá ungbörnum. Lúsin verpir eggjum sem kallast nit. Nitin binst á hárið við hársvörðinn og vex upp með hárinu.

Sjá einnig: Kynsjúkdómar – Hvað er algengast á Íslandi?

Smitleiðir

Flatlús smitar helst við nána snertingu, s.s. við kynmök. Ef flatlús greinist þarf ætíð að athuga hvort um aðra kynsjúkdóma er að ræða hjá viðkomandi og rekkjunautum hans. Flatlús getur einnig borist af nærfötum og sængurfatnaði sé ekki þvegið nægilega vel. Smit getur einnig átt sér stað á sólbaðsstofum ef bekkir eru ekki vel þrifnir.

Einkenni

Þegar lúsin sýgur blóð ertist húðin. Þetta veldur kláða. Hann er mestur í kringum kynfærin en getur komið á aðra staði þar sem lúsin þrífst. Kláðinn kemur oft nokkrum vikum eftir smit. Nitin klekst út á 5-10 dögum en skelin verður eftir og er oft ógerningur að sjá hvort um er að ræða tóma skel eða nit.

Fylgikvillar

Engir.

Greining

Yfirleitt þarf læknir að skoða viðkomandi til að greina sjúkdóminn og einnig til að taka sýni vegna annarra kynsjúkdóma sem oft eru til staðar samtímis. Flatlús er greind með því að sjá lifandi lús eða nit á hári.

Meðferð

Áburður gegn lús og nit er borinn á alla hærða staði nema hársvörð og er síðan þveginn af eftir 12 klukkustundir. Meðferðin er stundum endurtekin eftir eina viku. Ef um flatlús er að ræða á augnhárum þarf sérstaka áburði sem læknir gefur. Flatlús getur lifað í u.þ.b. 2 sólarhringa án næringar, sé hún í hlýju umhverfi.

Birtist fyrst á vef Landlæknisembættisins,
birt með góðfúslegu leyfi embættisins.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE