Neikvæð áhrif ofþyngdar á meðgöngu

Offita og ofþyngd er vaxandi vandi hér á landi eins og í öðrum vestrænum löndum. Það geta allir verið í ofþyngd og það er alltaf að verða algengara að konur á barneignaraldri séu í ofþyngd. Mig langaði að kynna mér áhrif ofþyngdar á meðgöngu og deila því sem ég fann með ykkur. Niðurstöðurnar sem ég ætla að birta eru úr rannsókn sem gerð var hér á landi. Tilgangurinn var að kanna tíðni fylgikvilla á meðgöngu, í fæðingu og hjá nýburum kvenna í kjörþyngd, of þungra og feitra við upphaf meðgöngu.
Upplýsingum um þyngd við upphaf meðgöngu var safnað hjá 600 konum; þar af voru 300 í kjörþyngd (þyngdarstuðull (ÞS) 19,0-24,9), 150 of þungar (ÞS 25,0-29,9) og 150 of feitar (ÞS ³30). Tíðni fylgikvilla var borin saman milli hópanna.

Í rannsókninni segir:

“Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ofþyngd og offita verðandi mæðra getur haft neikvæð áhrif á meðgöngu, fæðingu og nýbura. Sýnt hefur verið fram á að of feitar konur eru líklegri til að vera með háþrýsting fyrir þungun og þær eru einnig líklegri til að fá háþrýsting á meðgöngu og fá frekar meðgöngueitrun en konur í kjörþyngd.Meðgöngusykursýkier hins vegar algengasti fylgikvilli ofþyngdar/offitu þungaðra kvenna.Ómeðhöndluð sykursýki á meðgöngu getur haft í för með séróhóflega þyngdaraukningu barns, legvatn verður of mikið (polyhydramnion) auk vandamála við fæðingu og á nýburaskeiði.

Offita móður, án meðgöngusykursýki, hefur verið tengd fæðingum þungbura en þungburi er yfirleitt skilgreindur sem barn með fæðingarþyngd 4500 g. Konur í ofþyngd og með offitu eru líklegri til að þurfa inngrip í fæðingu, svo sem framköllun fæðingar, fæðingu með keisaraskurði og fæðingu með sogklukku eða töng samanborið við konur í kjörþyngd. Þungburar hafa verri horfur síðar á ævinni hvað varðar líkur á offitu og sjúkdómum tengdum henni. Framköllun fæðingar og fæðing með keisaraskurði eru algengari hjá of feitum konum en konum í kjörþyngd. Líkur á axlaklemmu í fæðingu aukast ef barn er þungburi og blóðsykurfall á nýburaskeiði er algengara, einkum ef móðirin hefur sykursýki. Börn sykursjúkra kvenna hafa auknar líkur á axlaklemmu samanborið við jafn þung börn kvenna án sykursýki. Offita mæðra hefur hins vegar ekki jafn skýr tengsl við skaða á fæðingarvegi, axlaklemmu barns, lágt Apgarstig, blóðsykurfall barns og þörf fyrir innlögn barns á nýburagjörgæslu.

Ofþyngd getur líka haft áhrif á konur sem eru að reyna að eignast barn, tíðni fósturgalla er einnig aukin hjá fóstrum of þungra kvenna.

“Vandamál of þungra kvenna tengd meðgöngu eru einnig til staðar fyrir þungun, því frjósemi er skert og tíðni fósturláta er aukin. Tíðni fósturgalla er aukin hjá fóstrum of þungra kvenna, einkum eru það gallar í miðtaugakerfi, svo sem klofinn hryggur og hjartagallar, auk fjölkerfa fósturgalla.”

Hér birtast svo niðurstöður úr rannsókninni

Fylgikvillar á meðgöngu

Þegar vandamál of feitra kvenna eru skoðuð með konur í kjörþyngd til samanburðar, sést að of feitar konur eru marktækt líklegri til að hafa langvinnan háþrýsting fyrir þungun, fá háþrýsting á meðgöngu, meðgöngueitrun, meðgöngusykursýki og stoðkerfisverki, samanborið við konur í kjörþyngd. Ekki var marktækur munur á tíðni háþrýstings fyrir þungun, meðgönguháþrýstings, meðgöngueitrunar, meðgöngusykursýki og stoðkerfisverkja, hjá konum í ofþyngd samanborið við konur í kjörþyngd

Framköllun fæðingar og fæðing með keisaraskurði

Tíðni framköllunar fæðingar og fæðinga með keisaraskurði var marktækt hærri hjá of feitum konum samanborið við konur í kjörþyngd. Ekki var marktækur munur á tíðni framköllunar fæðingar og fæðingu með keisaraskurði hjá konum í ofþyngd samanborið við konur í kjörþyngd. Ennfremur sýndu niðurstöður okkar að framköllun fæðingar eykur ekki marktækt líkur á bráðakeisaraskurði (OR 1,9, CI 1,02-3,52).

Áhaldafæðing, spangaráverki og axlaklemma

Ekki var marktækur munur á notkun sogklukku eða tangar við fæðingu, tíðni spangarsprungu, spangarskurðar eða axlaklemmu hjá konum í kjörþyngd, ofþyngd eða offitu.

Fylgikvillar barna

Fylgikvillar barna kvenna með offitu voru marktækt algengari en hjá börnum kvenna í kjörþyngd og ofþyngd. Meðalþyngd nýbura of feitra kvenna var 3908 g ± 38 g, en börn kvenna í kjörþyngd vógu 3771 g ± 27 g, p=0,004. Höfuðummál barna kvenna með offitu var marktækt meira en barna kvenna í kjörþyngd, p<0,001. Börn kvenna með offitu voru líklegri til að þurfa innlögn á nýburagjörgæslu, bæði til lengri og skemmri tíma, samanborið við börn kvenna í kjörþyngd. Börn of þungra kvenna voru jafn oft lögð inn á nýburagjörgæsludeild og börn kvenna í kjörþyngd. Ástæður innlagnar á nýburagjörgæslu voru blóðsykurfall nýbura (6% vs 4% vs 2,7%), vot lungu 2% vs 0% vs 1,7%) og barnabiksásvelging (0,1% vs 0% vs 0%). Ekki reyndist marktækur munur á milli hópanna. Lungnabólga hrjáði  0,1% barna of feitra kvenna, 1,3% barna kvenna í ofþyngd en ekkert barn kvenna í kjörþyngd fékk lungnabólgu.

Þú getur lesið rannsóknina í heild sinni hér.

Heimildir: Læknablaðið.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here