Steinaldarhnífar og kökustimplar á Hönnunarmars – Myndir

Hanna Dís Whitehead & Whitehorse design duo sýna nýjustu afurðir sínar í Hannesarholti á Grundarstíg 10 ásamt fleirum á Hönnunarmars. Opnunarhóf verður fimmtudagsskvöldið 27. mars frá 20.00-22.00 og mun sýningin standa til sunnudagsins 30. mars.

Whitehorse design duo er skipað þeim Hönnu Dís Whitehead & Rúnu Thors. Leiðir þeirra lágu saman austur í Skaftafellssýslu sumarið 2010 og hafa þær starfað saman síðan. Markmið Whitehorse design duo er að hanna nútímalegar vörulínur fyrir heimilið með fjölbreytt notagildi í leik og starfi.

Kökustimplarnir KEKS er nýjasta afurð Whitehorse. Þeir eru ætlaðir til kökuskreytinga og eru búnir til úr leir. Hægt er að velja á milli ótal mismunandi munstra og á milli þess sem þeir eru ekki í notkun geta þeir gengt hlutverki skrautmuna fyrir heimilið greina þær frá á heimsíðu sinni.

Hanna Whitehead kynnir aftur á móti nýjan hlut innblásin frá steinöld þegar maðurinn bjó við frumstæðar aðstæður og hjó mikið af áhöldum sínum úr steini. Hnífarnir eru sprottnir út frá sverðum sem hún hannaði árið 2012 og voru með skírskotun aftur til steinaldar. Eins og segir á heimasíðu Hönnu þá eru steinaldarhnífar hennar “húgga búgga” útgáfan af nútíma hníf, þeir eru á mörkum notagildis og skúlptúrs. En þessi fornu steináhöld hafa tapað hlutverki sínu í nútímasamfélagi þar sem þeir eru varðveittir á söfnum sem minning um liðna tíma.

Hnífa Hönnu er því ekki hægt að nota við eldhússtörf og þeir eru ekki höggnir í stein heldur mótaðir í leir, en þeir segja sögu mannkyns í aldanna rás.

 

SHARE