Þjóðarsálin – ,,Greyið konan er þunglynd”

Frásögn konu sem sendi inn í þjóðarsálina:

Þunglyndi er nokkuð algengur sjúkdómur en því miður eru margir haldnir sjúkdómnum án þess að hafa fengið greiningu.

Ég vil segja ykkur frá minni upplifun sem mun vonandi hjálpa einhverjum.
Sjúkdómnum hef ég alltaf vitað af og vitað hvernig lýsir sér en ég vorkenndi öðrum sem ég vissi að þjáðust af þunglyndi og ég hugsaði oft ,,vesalings stelpan hún er svo þunglynd‘‘.
Eða þegar konur sem ég þekkti fengu fæðingarþunglyndi. Mér datt hinsvegar aldre í hug að ég væri sjálf þunglynd og búin að vera það í dágóðan tíma sem fór aðeins versnandi með tímanum.

Við eigum okkur öll slæma daga og ég í raun helt að ég ætti bara aðeins fleiri slæma daga en flestir aðrir. Ég hugsaði stöðugt hvað ég gæti gert til að uppfylla meiri hamingju og hvernig ég gæti orðið glaðari.
Með tímanum fór allt það sem áður gerði mig glaða og ánægða að fjara út, þessi ánægja hætti að koma sama þó ég gerði hluti sem áður fylltu mig af hamingju og gleði.
Þunglyndið hjá mér lýsir sér þannig að ég verð ofboðslega reið og pirruð. Finn fyrir mikilli depurð, áhugaleysi í öllu sem ég geri, kem litlu í verk og er eirðarlaus.
Sjálfstraustið fór minnkandi með hverri vikunni og hafði það mikil áhrif á allt sem ég gerði.

Ég las grein á netinu í sambandi við þunglyndi en það var frásögn annarrar konu og ég hugsaði ,,greyið konan að vera þunglynd og líða svona‘‘ en fannst svo furðulegt hvað margt í greininni minnti á mig sjálfa.
Lýsingar og annað átti virkilega vel við mig og það fékk mig til að hugsa, ég áttaði mig þá á því að mögulega gæti ég verið þunglynd sjálf þó mér þætti það nú heldur ólíklegt.
Ég meina ÉG þunglynd? Það gat nú ekki komið fyrir mig, rétt eins og flestir hugsa að ég lendi aldrei í bílslysi eða fæ alvarlegan sjúkdóm.
Afneitunin var í hámarki en ég fór að skoða á netinu allavega um þunglyndi, frásagnir og fræðilegar greinar og jú þetta passaði nú heldur vel.
Í framhaldi tók ég próf á netinu og úr því kom að ég væri alvarlega þunglynd.
Mér fannst nú hálfólíklegt að það væri að marka eitthvað próf á netinu.
Næstu daga hugsaði ég ekki um annað og fannst æ meira benda til þess að ég væri þunglynd, allt sem ég gerði sagði eða almenn framkoma hugsaði ég til þess sem ég hafði lesið.
Ég ákvað eftir nokkrar vikur að ég þyrfti að fá mér hjálp, ég var orðin svo dofin að ég nennti stundum ekki að gefa börnunum mínum að borða (ég gerði það að sjálfsögðu) en löngunin til þess var engin, ég var þreytt en hundskaðist þó til þess.

Það að fá hjálpina sem ég ætlaði mér var ekki eins auðvelt og ég hélt. Ég hringdi og pantaði tíma hjá heimilislækni, daginn fyrir tímann minn sem ég hafði beðið eftir í viku fékk ég svakalegan kvíða.
Ég gat ekki hugsað mér að hitta lækninn og segja honum frá vandamálinu mínu sem ég skammaðist mín svo innilega fyrir. Ég sá fyrir mér að hann færi að dæma mig, ég væri óhæf móðir og vorkenndi börnunum mínum fyrir að eiga mig sem mömmu.
Í framhaldi af þessum hugsunum hringd ég og afpantaði tímann minn.
Vikan leið og ég varð verri og dagarnir hálf óbærilegir svo ég hringdi aftur og stappaði í mig stálinu og reyndi að hugsa jákvætt. Læknirinn hefði nú líklegast lent í verri tilvikum en mínu reyndi ég að hugsa.
Ég guggnaði þó aftur og í allt í allt í fjögur skipti sem ég pantaði tíma hjá lækni en afpantaði svo.

Þetta tímabil var hugsanlega um rúmlega tveir mánuðir. Á þessum tíma reyndi ég oft að tala við bestu vini mína eða þá sem standa mér næst en guggnaði alltaf á að segja þeim frá því sem mér lá á hjarta. Ég vildi svo innilega segja frá þessu og fá þá vonandi smá kraft til þess að takast á við þetta.
Eftir þrjá mánuði þá loksins fór ég til læknis án þess að guggna.
Hann greindi mig alvarlega þunglynda og við ákváðum í sameiningu að setja mig á lyf.

Lyfin eru ekki byrjuð að virka en það að ég hafi fengið hjálp og fengið greiningu hjálpaði mér þó helling. Núna loksins hef ég viðurkennt vandan fyrir sjálfri mér og get farið að halda áfram og vinna í sjálfri mér.
Ég vona innilega að lyfin fari að virka á mig og ef ekki þá breytum við um lyf, léttirinn við það að hafa loksins fengið hjálp og lækni sem ég get talað við er ólýsanlegt.
Það ótrúlega við það að allt sem ég hafði gert mér upp að læknirinn myndi dæma mig var svo kolrangt, þetta var eins og það eðlilegasta sem maðurinn hafði heyrt og var hann virkilega fús til þess að hjálpa mér.

Með þessari sögu minni langar mig að segja við ykkur að lífið er allt of stutt til þess að láta sér líða illa eða þora ekki að takast á við vanda sem kemur upp.
Við eigum skilið að líða vel og vera hamingjusöm og börnin okkar eiga skilið að eiga foreldra sem líður vel. Því það segir sig alveg sjálft að ánægð móðir er betri móðir.
Það að hafa loksins haft kjark til þess að leita mér hjálpar er stórt afrek fyrir mig þar sem það var óbærilegt að hugsa til þess og segja upphátt ,,ég held ég sé þunglynd‘‘.
Ég hef ekki enn sagt neinum frá þessu en ég held að það komi með tímanum og kannski þegar lyfin fara að virka. Ég dauðskammast mín ennþá fyrir það að vera þunglynd.
Fyrir mér er svo einfalt fyrir einhvern annan að segja frá sjálfum sér og sinni upplifun af þunglyndi en það er hrikaleg tilhugsun að segja vinum og fjölskyldu að ÉG sé með sjúkdóminn.

Opnum umræðuna og vonandi verður þetta orðið viðurkennt vandamál sem fólk skammast sín ekki fyrir.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here