Þrálátir verkir og bjargráð

Á heimasíðu NLFÍ er hægt að lesa sér til um margskonar heilsutengda hluti. Þessi grein birtist þar fyrst og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

Vandamál eru eins misjöfn og þau eru mörg og því er mikilvægt að bera sig ekki saman við náungann og huga að því að hugsa vel um sig og fá ráðleggingar frá fagaðilum með sitt vandamál.
Flest upplifum við verki af og til, en þrálátir verkir frábrugðnir þessum algengu geta truflað daglegt líf svo um munar. Mismunandi er hvernig hver og einn bregst við verkjum og er það mótað af mörgum þáttum, eins og til dæmis:

  • Erfðum
  • Kyni
  • Aldri
  • Persónuleikaeinkennum
  • Lífi áður en verkir gerðu vart við sig
  • Fjárhagsstöðu
  • Stuðningsneti fjölskyldu og vina
  • Menningu

Þrálátum verkjum getur fylgt kvíði, þunglyndi, reiði og að missa trú á sér. Það að upplifa reiði, kvíða eða þunglyndi í kjölfar verkja getur komið af stað vítahring sem erfitt getur verið að brjótast úr. Þegar reiði og kvíði er til staðar í kjölfar verkja, þá getur stífni í vöðvum aukist sem getur þá leitt af sér meiri verk.

Sjá einnig: Hollráð við háþrýstingi

Hvernig viðkomandi kemur fyrir er mikilvægur þáttur í fari einstaklings, og það að hafa þráláta verki og að vita ekki hvort eða hvenær þeir hætta getur haft mikil áhrif á það. Einnig getur upplifun hvers og eins af verkjum farið eftir því hversu mikilvægir líkamlegir þættir eru í daglegu lífi viðkomandi.

Trúin á að hafa stjórn á eigin lífi og hægt sé að halda áfram með daglegt líf þrátt fyrir verkina hefur verið sýnt fram á að geti dregið úr líkum á þunglyndi í kjölfar verkja.

Einstaklingar með stoðkerfisverki geta upplifað að það sé ekki hlustað á þá eða þeir séu að kvarta yfir einhverju sem sé ekki til staðar. Það getur svo aukið á kvíða sem getur aukið á verkina.

Mikilvægt er hjá einstaklingum með þráláta verki að hafa bjargráð, það er að eiga ráð, aðferðir og áætlun til að fylgja þegar verkir aukast og trufla verulega daglegt líf og líðan. Bjargráð eru mjög mikilvæg og oft það sem einstaklingar með þráláta verki byrja fljótlega að þróa með sér. En algengt getur þó verið að einstaklingar hafi ekki nægjanlegt magn af ráðum og þegar verkir aukast sé eina ráðið að taka verkjatöflu.

Eins og sést hér að ofan að þá geta andleg og líkamleg vandamál verið nátengd, þrálátir verkir geta leitt af sér aukið stig af streitu og öfugt. Það að læra hvernig hægt sé að vinna með streitu á heilbrigðan hátt getur gert það að verkum að viðkomandi er betur í stakk búin að takast á við verkina. Þar spilar næring, hreyfing og svefn stórt hlutverk til að hjálpa til við að meðhöndla streitu og þar af leiðandi verki.

Jákvæð hugsun er öflugt tól. Einblína á framfarir og hugsa um þá þætti sem verið er að vinna í til að að draga úr tilteknum verkjum í stað þess að finnast maður hjálparvana.

Það að vinna að því að dreifa huganum frá verkjunum hefur verið sýnt fram á að sé öflugt bjargráð, með því að sinna áhugamálum, stunda hugleiðslu og þá hreyfingu sem möguleg er ásamt því að verja tíma með fjölskyldu og vinum getur hjálpað til.

Einnig getur verið hjálplegt að fá stuðning frá einstaklingum í sömu sporum og að tala við einhvern sem getur skilið hvað verið er að ganga í gegnum.

Vandamál eru eins misjöfn og þau eru mörg og því er mikilvægt að bera sig ekki saman við náungann og huga að því að hugsa vel um sig og fá ráðleggingar frá fagaðilum með sitt vandamál.

Heimildir:


www.hss.edu
www.painmanagement.org
www.practicalmanagement.com
www.apa.org
www.arthritis.org

Þessi grein birtist á netsjukrathjalfun.is

SHARE