Ég var svo lánsöm að vera í samkvæmi ekki fyrir svo löngu þar sem mætti töframaður með eiginkonu sína uppá arminn og þetta kvöld mun alltaf teljast til eins af skemmtilegri kvöldum sem ég hef upplifað. Ég hef sjaldan hlegið eins mikið, verið jafnagndofa og undrandi.

Eftir þetta kvöld var ég algerlega heilluð af þeim hjónum og hafði svo samband við þau og fékk að taka smá viðtal. Ég er alveg handviss um að þeirra saga og sérstaða er hvatning fyrir marga til að gera það sem þeir hafa gaman af. Ég er líka viss um að einhverjir elski að hlæja og skemmta sér en þar kemur Jón Víðis töframaður manni í opna skjöldu með óborganlegt „show“, því þetta er svo miklu meira en bara töfrabrögð hjá honum.

Ég fór og hitti þau hjón heima hjá þeim og þau tóku ákaflega vel á móti mér, svo hóf ég yfirheyrsluna!

Hvað var til þess að þú varðst töframaður?
Það voru nokkur atriði sem urðu til þess. Ég hafði verið að sýna börnum systur minnar töfrabrögð ein jólin og þau sáu strax að frændi gæti ekkert gert nein töfrabrögð.
Árið eftir gaf systir mín mér töfrabragðasett í jólagjöf með því skilyrði að ég sýndi börnunum hennar töfrabrögð á afmælinu sínu. Hún á afmæli annan í jólum svo jóladagur það árið fór í að læra á töfrabragðasettið.
Þegar ég svo sýndi þeim töfrabrögðin fóru kjálkarnir á þeim alveg niður á bringu og undrunarsvipurinn var slíkur að ég skemmti mér held ég best af öllum.
Stuttu síðar var árshátíð hjá fyrirtækinu sem ég var að vinna hjá. En á árshátíðinni var alltaf keppt um það hvaða deild væri með besta skemmtiatriðið og okkar deild hafði unnið bikarinn tvö ár í röð. Strákarnir sem höfðu verið með uppistand voru ekki til í það eitt árið enn en sögðu að þar sem Jón væri með upprúllað yfirvaraskegg mætti setja hann í mörgæsabúning og þá gæti hann verið töframaður. Þeir vissu ekki hvað ég hafði verið að gera um jólin en ég samþykkti þetta náttúrulega strax og við rigguðum upp töfrasýningu og unnum bikarinn sem skemmtilegasta deildin mjög sannfærandi.

Eitthvað fréttist þetta og þá um sumarið var ég töframaður á 17. júní skemmtun á Grundarfirði og þar með var þetta komið.

Hvað er það sem þú gerir sem töframaður?
Ég verð með töfrabragðanámskeið í sumar fyrir 9-12 ára og það er rétti staðurinn til að læra töfrabrögð ef þú hefur aldur til.
Töfrabragðanámskeiðið sem ég held í sumar verður 11.-15. júní fyrir 9-12 ára krakka, við erum að setja saman hvernig það verður nákvæmlega en það verður auglýst á Facebooksíðunni minni og svo má ná í mig í síma 8953035 eða jonvidis@tofrar.is til að fá frekari upplýsingar eða skrá sig.
Annars er ég með sýningar fyrir alla aldurshópa, ég fer mikið á árshátíðir, útiskemmtanir bæði fyrir börn og fullorðna, svo kem ég fram í einkasamkvæmum eins og barnaafmælum, fermingum, fullorðinsafmælum og brúðkaupum. Bara þar sem fólk vill hafa gaman! Fólk virðist samt einhvern veginn ekki átta sig á því að töframenn eru ekki bara fyrir börn, því eins og ég geri þetta þá er þetta meira í átt við uppistand.
Seinna lærði ég svo dáleiðslu og í dag rek ég Dáleiðslumiðstöðina ásamt því að vera töframaður.

Töfraðir þú til þín konuna þina? 🙂
Ég held ég geti alveg haldið því fram því konan mín sá mig fyrst töfra í afmæli lítillar frænku sinnar og svo í brúðkaupi bróður síns. Ég kynntist henni svo í partýi með nokkrum dáleiðurum, en náði endanlega að heilla hana upp úr skónum með því að töfra fram fyrir hana ferð (með mér) til að sjá foss sem hana hafði lengi dreymt um að sjá, Dynjanda í Arnarfirði á Vestfjörðum.
Ég held ég hafi unnið í happdrættinu þar, eini gallinn er samt að hún hefur aldrei viljað leyfa mér að saga sig í sundur þannig að ég þarf ennþá að fá „sjálfboðaliða“ þegar ég geri það töfrabragð.

Nú leit ég á Regínu, konu Jóns, og spurði hvað hún hefði um þetta allt að segja og bað hana að segja okkur aðeins frá því hvað hún gerir?

Ég hafði séð Jón Víðis töframann nokkrum sinnum áður en ég kynntist honum almennilega. Hann hafði tvisvar töfrað í afmæli bróðurdætra minna á heimili bróður míns og líka í brúðkaupi bróður míns. Og ég hafði fengið Origami trönu frá honum á Handverkshátíðinni í Ráðhúsinu. En ég kynntist honum fyrst almennilega þar sem okkur var báðum boðið í kvöldverð til bandarískra hjóna, sem bæði eru dáleiðarar. Jón er dáleiðari og hafði líka lært sviðsdáleiðslu í Las Vegas hjá vinum þessara hjóna – hann sagði þeim að hafa samband við Jón þegar þau komu í sína fyrstu Íslandsför.
Ég var að skrifa ferðablogg á Virtualtourist um mín ferðalög um heiminn og þar höfðu þau samband við til að fá upplýsingar um Ísland. Þessum einu Íslendingum, sem þau þekktu til, mér og Jóni, buðu þau svo í kvöldverð. Jón segir þessa sögu oft og spyr fólk hvort það hefði mætt í boð með 3 dáleiðurum og töframanni? Því ekki – ég hafði reynslu af dáleiðslu og vissi út á hvað hún gekk og hafði séð Jón töfra, svo mér fannst þetta bara spennandi.
Skemmst er frá því að segja að við Jón tókum leigubíl heim, sem er líka saga sem hann hefur gaman að að segja – en við komumst að því að við bjuggum í 2ja mínútna fjarlægð hvort frá öðru í Grafarvoginum og fórum hvort til síns heima. Þetta var 2. júlí 2013. Á leiðinni heim í bílnum fékk ég e-mail um boðsferð í jeppaferð upp á Eyjafjallajökul og að ég mætti bjóða gestum með. Jón bauðst til að koma með – og þar með byrjaði ævintýrið. Ári síðar vorum við gift 🙂
Þessi ferð var sú fyrsta af mörgum ferðum sem ég hef farið í í gegnum Guide to Iceland. Ingólfur Shahin, frkv.stj. var á þessum tíma að koma á legg Guide to Iceland, sem er sölusíða fyrir ferðir á Íslandi, svipað Booking.com. Hann vantaði ferðabloggara til að skrifa um Ísland og hafði séð það sem ég var að skrifa á Virtualtourist og bað mig um að skrifa ferðablogg fyrir sig. Það sem heillaði mig við þetta tilboð var að í boði var að fara ókeypis í ferðir sem til sölu eru á Guide to Iceland gegn ferðabloggi. Það voru nefnilega heilmargir staðir á Íslandi sem ég hafði aldrei barið augum – og þarna hafði ég tækifæri til þess að kynnast landinu mínu betur – svo ég sló til.
Jeppaferðin upp á Eyjafjallajökul var s.s. fyrsta ferðin sem ég skrifaði um og þetta vatt upp á sig og hef ég farið í ótal ferðir síðan þá – og Jón kemur oft með mér. Við höfum 2x farið í ferð upp að Öskju, eina ferð upp að hinum ægifagra Gjábakka, 3 hvalaskoðunarferðir, ég fór ein í þyrluferð upp að hverasvæði í Hengli.
Tvisvar hef ég farið í ferð í Ice tunnel og Víðgelmi. Tveir íshellar hafa verið heimsóttir og fleira og fleira skemmtilegt hefur verið í boði, sem ég síðan skrifaði um ferðablogg. Þannig hef ég kynnst því sem Íslendingar í ferðaþjónustu eru að bjóða upp á og séð landið mitt frá öðru sjónarhorni. Íslendingar eru að bjóða upp á svo margt skemmtilegt fyrir erlenda ferðalanga, sem “hinn venjulegi Íslendingur” kynnist kannski aldrei og það er mjög gaman að fara með túristunum og finna hvernig þeir upplifa landið okkar.
Við höfum líka ferðast mjög mikið um landið á eigin vegum og hef ég skrifað um hótelgistingar og þá staði sem mér finnast áhugaverðir á landinu. 2016 vorum við 9 daga á Vestfjörðum og 2017 aðra 8 daga og höfum við núna keyrt næstum alla vegi á Vestfjörðum. Þar var okkur líka boðið í ferð á Hummer um hættulegasta veg landsins – Kjaransbrautina – Svalvoga en þar er hrikaleg náttúrufegurð. Ég er núna búin að skrifa ferðablogg í næstum 5 ár og er að nálgast 250sta ferðabloggið. Síðan svara ég kommentum, sem koma undir ferðabloggin og fyrirspurnum frá ferðalöngum í gegnum ferðabloggið. Sérstakt áhugamál hjá mér eru torfhúsin okkar og álfastaðir og ég leita uppi álfastaði úti um allt land og tengi þá við Þjóðsögur Jóns Árnasonar, til þess að kynna fyrir ferðalöngunum og áhugamönnum um Ísland þessa merku álfatrú Íslendinga.
Annað áhugamál okkar eru bændakirkjurnar okkar, við stoppum við þær allar og skoðum og við lærum ýmislegt áhugavert af bændunum, sem eru með lyklana að kirkjunum, sem gerir ferðalög um landið okkar að svo miklu ríkulegri upplifun en ella.
Hvað töframanninn Jón Víðis varðar þá fer ég oft með honum á skemmtanir og tek myndir, sem ég birti á Facebook síðu Töframannsins Jóns Víðis. Það er alltaf gaman á þessum skemmtunum, en hann fer í barnaafmæli, árshátíðir, brúðkaup og almennar útiskemmtanir og það er allltaf fjör, sama hve oft ég hef séð töfrabrögðin hans – það er þessi skemmilega stemmning sem myndast á þessum viðburðum, sem er reglulega góð fyrir sálina. Jón hefur líka komið fram hjá Uppistandi.is, en ég er ljósmyndari þess félags. Og þar er líka alltaf gaman og mikið hlegið og hef ég kynnst þar alls konar uppistöndurum, bæði íslenskum og alls staðar að úr heiminum, sem ég hefði aldrei annars haft tök á að kynnast.
Síðan er Jón Víðis dáleiðari og kennir í Dáleiðsluskóla Íslands, þar sem ég tek myndir og tek upp námskeiðin. Svo við eyðum miklum tíma saman í að gera það sem okkur finnst skemmtilegt í lífnu – dáleiðsla, töfrabrögð og ferðalög um landið.

Ég þakkaði þeim hjónum kærlega fyrir að taka á móti mér og það sem mig langar að tileinka mér eru lokaorðin hennar Regínu.
Að eyða miklum tíma í það sem okkur finnst skemmtilegast!

SHARE