Aðgát skal höfð í nærveru sálar, ekki síst á aðventunni

Hlakkar þú til jólanna?

Margir svara þessari spurningu játandi og mörgum finnst aðventan skemmtilegasti tími ársins þar sem litadýrð jólaljósanna, jólalögin og gjafastúss gefa tilverunni aðeins meiri glans en aðra daga ársins.

En það eru aðrir sem svara spurningunni neitandi og kvíða hreinlega jólunum.

Allt sem tengist aðventunni og undirbúningi jólanna er óþægileg áminning um hátíðina sem er senn að koma.

Það geta verið margvíslegar ástæður að baki því að kvíða jólunum.

Sem dæmi má nefna að það er ekki óalgengt að börnum alkóhólista kvíði jólunum og að foreldrum sem eiga börn sem neita vímuefna finnist þessi árstími mjög erfiður.

Þeir sem eiga lítið milli handanna og langar að veita börnum sínum góð jól en geta það ekki vegna fátæktar finna oft fyrir depurð og kvíða í desember.

Það er líka oft þannig að þeir sem hafa misst ástvin eiga erfitt um jólin en þá hellast yfir minningar og tómarúmið tekur pláss í hjartanu og oft er auður stóll við matarborðið á aðfangadag sársaukafull minning.

Ekkert af þessu sést endilega utan á fólki.

Það er einnmitt það sem er kjarni málsins að muna að þegar við mætum fólki hvort sem við þekkjum það vel eða ekki þá vitum við aldrei raunverulega hvernig þeim líður eða hvernig þeirra tilvera er.

Því finnst mér finnst góð hugmynd að tileinka aðventuna því að hafa aðgát í nærveru sálar.

Með því að muna að við vitum ekki hvernig fólki líður og því ættum við öll að taka aðeins meira tillit til næsta manns.

Sjá einnig: Efldu sjálfsmynd barnsins þíns

Það er líka gefandi og góð hugmynd að nota aðventuna til þess að gera heiminn aðeins betri. Til dæmis með því að gera góðverk þar sem er þörf.

Góðverk eru allskonar og þurfa ekki endilega að kosta pening, því höfum við öll efni á að gera góðverk.

Til dæmis getur það eitt að brosa til einhvers, gefið heilmikið inn í líf viðkomandi og bros eru jú alveg ókeypis.

Ég hvet þig lesandi góður til þess að hafa kærleikann að leiðarljósi þessa aðventu og muna að þú veist ekkert um líðan þess sem þú mætir.

Kærleikurinn kostar EKKERT dreifum honum út um allt.

Kærleikskveðja

Kristín Snorradóttir

Heimasíða Sterk saman og Facebook.

 

Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og a þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiðin miðaldra kvenna, með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar motto er jákvæðni út í cosmmosið því af lífnu hefur hún lært að jákvæðni kemur manni ansi langt!

SHARE