Hollt kjúklingapasta með pestó – Uppskrift

Einfalt og gott frá Evabrink.com

Ég ákvað að skella í pasta og hafði það að leiðarljósi að hafa réttinn frekar hollan. Rétturinn kom mér svona líka skemmtilega á óvart, en hann bragðast einstaklega vel. Meira að segja börnunum á heimilinu fannst hann góður! Ég gerði beyglu-hvítlauksbrauð til að hafa með og fór þetta ákaflega vel saman. Þessi verður sko pottþétt gerður aftur fljótlega!

IMG_2059

Hollt kjúklingapasta með pestó (fyrir 3-4)

5 dl spelt penne pasta
1 krukka rautt pestó
15 ólívur
6 kirsuberjatómatar
2 kjúklingabringur
15 teningar fetaostur
100 grömm spínat
3 hvítlauksrif
(Rifinn parmesan ostur)

Sjóðið pasta í 10-12 mínútur eða þangað til það er orðið mjúkt. Þegar það er tilbúið takið það þá frá og leyfið að kólna aðeins. Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið þær upp úr olíu. Setjið kreist hvítlauksrif ofan í og kryddið kjúklingabringurnar með salti og pipar. Takið 10-15 teninga af fetaosti og stappið þá. Takið skál og blandið rauða pestóinu og stappaða fetaostinum saman. Þegar kjúklingabitarnir eru tilbúnir blandi þá pastanu, kjúklingnum og pestóblöndunni saman í frekar stórri skál. Blandið spínatinu við. Skerið svo kirsuberjatómatana og ólívurnar niður og blandið ofan í.

Berið fram með hvítlauksbrauði. Það er svo rosalega gott að setja smá rifinn parmesan ost ofan á en ég átti hann ekki til í þetta skiptið.

38

SHARE