Hvenær ætlið þið svo að koma með barn!?

 

Karen Einarsdóttir, eiginkona Björgvins Páls Gústavssonar, birti þessa færslu á bloggi Björgvins. Færslan fjallar um erfiðleika þeirra við að eignast barn og hvernig það var að takast á við erfiðar spurningar eins og „Hvenær ætlið þið svo að koma með barn?!“.

—————-

Ég hef lengi ætlað að skrifa þetta blogg en verið lengi að koma mér í það. Það sem mjög fáir vita er að það var ekki auðvelt að búa til elsku sólargeislann og kraftaverkið okkar hana Emmu.

Ég og minn maður ákváðum þegar ég var rúmlega tvítug, þá búin að vera saman í fimm ár, að fara að huga að því að eignast barn. Þegar við fluttum erlendis sumarið 2008 vorum við farin að vona að þetta myndi nú detta inn hvað úr hverju. Þá höfðum við ekki hugmynd um að það voru enn fjögur ár þangað til ég yrði ólétt.

Við vorum samt aldrei stressuð og tókum því með miklu jafnaðargeði að þetta væri ekki að takast. Við vorum enn ung og ekkert hundrað í hættunni að þetta væri ekki að gerast strax,  enda vorum við ekki á klukkunni, heldur ætluðum við bara að leyfa þessu að gerast ef það myndi gerast.

Voru alltaf með svarið tilbúið

Á þessum tíma var ég byrjuð að fá spurningar frá mjög mörgum… Þá var spurningin, “Eruð þið farin að spá í barneignir?”, með árunum breyttist þessi spurning og var hún oftar en ekki komin útí “jæja… hvenær ætlið þið svo að koma með barn?”. Eins og ég væri orðin eldgömul og að renna út á tíma. Einnig þegar við vorum búin að gifta okkur að þá skildi enginn í því að barnið kæmi ekki bara strax.

Við vorum alltaf með tilbúið svar þar sem að þetta var mjög algeng spurning og ekki eitthvað sem við vildum deila með almenningi, að þetta væri bara ekki að takast. Svörin voru á borð við “já við erum svo ung” eða “ég ætla að klára námið og svo sjáum við til” og svo framvegis.

Eru bæði mjög jákvæð

Það var ekki fyrr en árið 2011 sem að við ákváðum að fara á stofu í Þýskalandi, svipaða og Art medica á Íslandi, og fá aðstoð. En við vorum á þeim tíma að flytja í bæ þar sem að slík meðferðarstofa var og því auðvelt að leita þangað. Allt í allt fórum við í eina tæknisæðingu, þrjár heilar glasafrjóvgunarmeðferðir ásamt tveimur uppsetningum úr frysti, en allar þessar meðferðir eru stuðningur til þess að frjógva fósturvísana og því er hún Emma 100% úr okkar genum og þurfum ekki meiri utanaðkomandi hjálp og því er vandamálið ekki stórt í okkar tilviki.

Það sem að hjálpaði okkur mikið í þessu ferli öllu var að ég og minn maður erum bæði að eðlisfari mjög jákvæðar manneskjur. Og kannski einnig að við vorum ung þannig að við vorum í leiðinni að njóta lífins og hafa gaman af því. Við áttum alveg frábær 3 ár erlendis fram að þessu sem að eftir á að hyggja var æðislegt að fá að upplifa áður en við helltum okkur í meðferðir og áður en við urðum foreldrar. Þegar ég var á meðferðarstofunni þá vorkenndi ég öllum inni á stofunni fyrir að vera að standa í þessu en samt vorkenndi ég aldrei okkur. Og það var einmitt eitthvað sem að ég vildi alls ekki ef að þetta fréttist, að fá vorkun.

Pressan var erfiðust

Það sem mér fannst erfiðast við þetta allt saman var utanaðkomandi pressan, spurningarnar og þetta jæja, sem kom oft á undan… hvenær komið þið með barn. Þá fyrst fannst mér pressan koma á mig og ég var orðin stressuð. En ég á frábæran mann sem að hélt mér frá því að brotna niður og hvatti mig áfram og fékk mig til að lifa eftir sinni sannfærinu…”Þetta gerist bara þegar það á að gerast og everything happens for a reason”.
Og ég trúi því það fá allir eitthvað verkefni í lífinu til að takast á við og þetta var eitt af okkar verkefnum.

Í Þýskalandi þar sem ég bý er frítt að fara í þetta þegar maður verður 25 ára. En ég var 23 þegar við byrjuðum. Við íhuguðum að bíða en við vorum einfaldlega tilbúin og þess vegna gerðum við það ekki. Það er um helmingi dýrara en á Íslandi að fara í slíkar meðferðir úti, en við erum lánsöm og höfum efni á þessu en það er ekki sjálfgefið og hefur maður heyrt að margir hætta í meðferðum á Íslandi einfaldlega vegna þess að þeir hafi ekki efni á þessu, sem að er auðvitað mjög sorglegt.

Þessar glasameðferðir geta tekið á, það þarf að sprauta hormónum í líkamann í marga daga, endalaus tékk, svæfing, uppsetning og að lokum tveggja vikna biðin hvort útkoman yrði jákvæð eða neikvæð.

Sagði fáum frá þessu

Ég hafði þetta algjörlega útaf fyrir mig þegar við byrjuðum í meðferðum en aðal ástæðan fyrir því var að ég gat ekki ímyndað mér að aðrir en við tvö (fyrir utan mína nánustu) væru að spyrja, hvernig meðferðirnar væru að ganga, því að neikvæðar fréttir voru nógu erfiðar fyrir okkur bæði. Ef við þyrftum að tilkynna það öllum myndi það gera ferlið erfiðara.
En mér fannst líka erfitt að tala um þetta. Það var eitthvað sem stoppaði það hjá mér að tala um þetta við aðra. Oft þegar vinkonur mínar voru að segja mér og fleirum frá sínum vandamálum þá kom ég mér ekki í það að segja frá okkur.

Það var ekki fyrr en þegar nokkrar vinkonur mínar komu í heimsókn til okkar út að ég var nýbúin í meðferð og þurfti að taka því mjög rólega að ég sagði þeim frá meðferðunum og fann þá að það var gott að létta á sér og tala um þetta.
En ég held einnig að ég hafi einfaldlega ekki þurft að ræða þetta við aðra, ég hafði manninn minn, besta vin minn til að tala við og fannst það vera nóg.

Það gat oft verið erfitt að sjá óléttutilkynningar á Facebook eða annars staðar. Að sjálfsögðu samgladdist maður og var ekki afbrýðissamur út í viðkomandi heldur hugsaði maður frekar, Hvenær er röðin komin að mér?
Ég hélt að sá dagur kæmi aldrei að ég yrði ólétt, ég sá það ekki fyrir mér að ég myndi nokkurn tímann fá jákvætt óléttupróf eftir svona mörg neikvæð og marga erfiða daga þegar elsku Rósa frænka mætti á svæðið.

Það er ekki sjálfgefið að allir geti eignast barn

Aðalástæðan fyrir þessu bloggi er að vekja fólk til umhugsunar á því hversu erfið þessi spurning “hvenær kemur barn?” getur verið fyrir pör. Og einnig að segja þeim vinum og fjölskyldu, sem að vita þetta ekki enn, hvað við gengum í gegnum.
Við vorum orðin opin með þetta þegar þetta loksins tókst en vildum njóta þess að geta tilkynnt gleðifréttir og gleyma meðferðum um stund. Það væri aukaatriði sem við segðum frá seinna.

Mig langar þess vegna að biðja fólk um að fara varlega í þessa spurningu. Því að þetta getur verið erfitt fyrir viðkomandi að þurfa að svara fyrir það afhverju í ósköpunum það er ekki komið barn í fjölskylduna. Það er ekki sjálfgefið að allir geti eignast barn og getur þetta tekið á ef illa gengur bæði andlega og líkamlega.

Eins og ég sagði að ofan var ég alltaf með tilbúið svar og var bara farin að svara án þess að hugsa um það meira. Ég erfi það ekki við fólk sem var að pressa á okkur og spyrja heldur vissi ég að fólk hafði bara ekki hugmynd um að við vorum í þessum erfiðleikum þar sem við vorum ung og hélt þá jafnvel að við værum ekkert farin að spá í barneignir.

Við getum enn eignast barn á venjulegan hátt en það getur tekið langan tíma og þess vegna munum við mjög líklega fara aftur í meðferð þegar að það kemur að því að okkur langi að gefa sólargeislanum okkar systkini. En ég myndi gjarnan vilja sleppa frá þeim spurningum og einungis tilkynna gleðifréttirnar þegar þær koma.

Kraftaverkið gerir lífið yndislegra á hverjum degi

Ég myndi líka mjög gjarnan vilja að fólk í sömu stöðu og við myndi leita til okkar ef að einhverjar spurningar brenna á þeirra vörum því ég vil ekkert meira en miðla okkar reynslu og upplifun.

Ég mun aldrei gleyma þessum degi þegar ég leit á óléttuprófið… þetta var virkilega að gerast eftir tæp fimm ár var loksins komið að okkur! Og þetta var svo sannarlega allt þess virði á endanum og erum við endalaust þakklát fyrir kraftaverkið okkar sem að gerir lífið yndislegra á hverjum degi.

Karen Einarsdóttir

SHARE