Að flytja

Ég hef alltaf séð flutninga í einhverskonar rósrauðum ljóma. Ákveðin hreinsun. Nýtt upphaf. Nýir tímar. Rósrauði ljóminn er þó ekki lengi að hverfa þegar flutningsframkvæmdirnar sjálfar hefjast. Skítt með einhverja hreinsun eða nýtt upphaf. Nú eða nýja tíma. Fari það allt saman fjandans til. Ef eitthvað mergsýgur úr manni lífsviljann og myrðir í manni sálina þá eru það flutningar. Allt í lagi, ég skal draga aðeins úr dramatíkinni: það er ömurlegt að flytja.

Til að byrja með er maður í rífandi gír. Svona á meðan tekið er úr helstu hillum og það sem prýðir veggina rifið niður. Þetta sem þægilegast er að eiga við. Síðan hefst ringulreiðin. Þú varst að tæma kommóðuna í forstofunni en finnur þig skyndilega inni í barnaherbergi að sortera legokubba. Þú hleypur aftur inn í forstofu með það í huga að klára af kommóðuna. Ah, alveg rétt – þú ætlaðir að skrúbba aðeins yfir botninn í forstofuskápnum. Þá er rokið inn í eldhús til þess að sækja búnaðinn í þann gjörning. Þú nælir þér í snöggan kóksopa úr ísskápnum fyrst. Shit, þú ætlaðir að þrífa hann. Alveg rétt. Hvar er tuskan? Er hún hjá kommóðunni? Legokubbunum? Í forstofuskápnum? Þú finnur loks helvítis tuskuna. Endar með hana í gluggakistunni inni á baðherbergi. Kommóðan ennþá full af drasli. Legokubbanir í sögulegri óreiðu. Ísskápurinn enn allur í rauðvínsslettum (beljur eiga það til að leka). Og botninn í forstofuskápnum – já, hann hefur ekki verið skrúbbaður.

Ekki skulum við gleyma sakleysislegum skúffum og skápum – hingað og þangað um íbúðina. Manstu þegar þú fluttir inn? Glettnislegur glampinn í augunum á þér þegar þú sást allt skápaplássið. Já, sá glampi er horfinn. Vinalegu skáparnir sem heilsuðu þér í upphafi eru ekki til staðar lengur. Djöfulleg, ótæmandi svarthol hafa komið í þeirra stað. Með semingi vogar þú þér að opna eitt svartholið. Hey, þarna er kassinn með (óopnuðu) spreybrúsunum og akrýlmálningunni – þú ætlaðir jú að gera ógeðslega mörg lekker DIY-verkefni þegar þú fluttir inn. 15 pör af þrívíddargleraugum af því þú manst aldrei eftir að kippa gamla parinu með í bíó – passar samt alltaf að hirða þau í hverri bíóferð. Hleðslutæki af hverju einasta símtæki sem þú hefur átt í gegnum tíðina. Ábyrgðarskírteinið af kaffivélinni. Húfan sem þú kláraðir aldrei að prjóna. Snúrur af öllum raftækjum sem þú hefur nokkurn tímann eignast – bæði lífs og liðnum. Einn skítugur blómapottur á stjákli (þú ætlaðir að spreyja hann sko). Blöðin sem þú geymdir til þess að lesa betur. Þér fallast hendur. Þú lokar svartholinu. ,,Æ, ég tek þennan skáp síðast.”

Eftir fimmtándu ferðina í Sorpu og þrálátar hugsanir um að kveikja einfaldlega í kofanum þá tekur þú þér kaffipásu. Horfir á hundrað og eitthvað kassa í forstofunni. Hvernig er þetta mögulegt? Þú fluttir bara inn með sjö kassa. Þú klórar þér í höfðinu og veltir fyrir þér þessari yfirnáttúrulegu margföldun. Jæja, þetta hafðist þó. Allt komið í kassa. Kommóðan í forstofunni tóm og legokubbanir, tjah, ekki alveg sorteraðir en þó búið að pakka þeim niður. Tími á að koma sér út. Þér svelgist á kaffinu. Þetta er hvergi nærri búið. Því fer fjarri. Það á eftir að þrífa bölvaða íbúðina. Íbúðin sem þér þótti sæmilega hrein lítur allt í einu út eins og þar hafi verið ellefu hestar á bás. Í marga mánuði. Veggjakám sem áður var ósýnilegt er nú á við skærgult veggfóður. Rykið ofan á parketlistunum öskrar nafn þitt. Undarlegir blettir í ruslaskápnum. Fitan ofan á viftunni í eldhúsinu. Íkveikjuhugsanir sækja aftur sterkt að þér.

Það hefði einhver vel mátt gauka því að mér fyrir tæpum 10 árum að maður á aldrei að flytja úr foreldrahúsum. Aldrei!

SHARE