Það ætlar enginn að gera barninu sínu mein. Slysin gerast nú samt reglulega og oftast gerast þau vegna þess að fólk er ekki nógu vel upplýst. Það var um daginn að ung móðir sagði mér frá því að barn hennar hafi þurft endurlífgun. Þegar hún spurði lækna hvað hefði valdið því að barnið hætti að anda var henni sagt að það væri vegna súrefnisskorts sem dóttir hennar fékk vegna þess að teppi var sett fyrir vagnop á vagni sem barnið svaf í úti. Að sjálfsögðu grunaði móður barnsins ekki að hún væri að gera barninu óleik með því að setja grófheklað teppi fyrir vagnopið en það er ekki sjaldséð hér á landi.

Það getur nefninlega verið hættulegt að setja teppi fyrir vagnop hjá litlu krílunum sem sofa út í vagni. Það getur valdið súrefnisskorti ef súrefnið nær ekki nógu vel að komast í gegnum teppið, einnig getur orðið ofhitnun í vagninum sem er mjög hættulegt fyrir barnið, það segir sig alveg sjálft. Svipað og þegar börnin eru skilin eftir í bílstól í lokuðum bíl í sólinni. Það var venja að gera það og það hefur orðið mikil vakning hjá fólki í heitum löndum að skilja barnið sitt aldrei eftir inn í bíl og þá sérstaklega ekki í mikilli sól og hita. Við íslendingar látum börnin okkar mikið sofa út í vagni og því er mikilvægt að vita að það er ekki æskilegt að setja teppi fyrir vagnop, til hvers að taka þá áhættu?

Í dag er hægt að kaupa góð net á vagnana sem hleypa súrefninu vel í gegn og það er klárlega þess virði að kaupa gott net. Mér finnst alveg hræðilegt að sjá vagna þar sem teppið er brotið tvöfalt og sett yfir vagnopið. Fólk veit þá ekki að þetta getur valdið skaða og það þarf að vekja athygli á þessu. Ég ræddi þetta við ljósmóður sem sagði mér að það væru tengls á milli vöggudauða og hita og ofdúðunar.

Setjum EKKI teppi fyrir vagnop hjá börnunum okkar, það er mikilvægt að muna!

SHARE