Að styðja við ástvin með brjóstakrabbamein – Stöndum saman

Það er mikið áfall að fá úrskurð um að maður sé með brjóstakrabba – ekki bara fyrir konuna sem er með krabbann heldur líka fyrir fjölskylduna og vinina. Maður veit ekki hvað maður á að segja og manni finnst maður ekki geta gert neitt. Ef maður ætlar sér að styðja við þann sem berst við krabba þarf maður að tileinka sér dug hermannsins og eiga kærleika  vinar. Flest höfum við þekkt einhvern sem hefur þurft að berjast við brjóstakrabbamein og við vitum því hvað það er erfitt.   

Hér eru nokkrar leiðbeiningar um stuðning við konur sem eru að berjast við brjóstakrabba.

Hlustaðu og vertu á staðnum

Það skiptir miklu máli að hlusta vel. Kona sem hefur verið greind með brjóstakrabba er hrædd, reið og óörugg. Hlustaðu á hana tala um líðan sína og vertu hjá henni. Þú þarft ekki endilega að segja neitt en getur samt veitt styrk með nærveru þinni. Hún veit þá að þú lætur þig ekki hverfa þegar harðnar á dalnum.

Leitaðu að upplýsingum en láttu aðra um ráðgjöfina

Kvíði og angur hellist gjarnan yfir konur þegar þær fá  greininguna. Það hjálpar þeim að safna upplýsingum um þekktan gang meðferðarinnar, hvaða kostir eru í stöðunni og hvaða stuðninghópar eru starfandi. En það er allt annað að afla upplýsinga en að gefa ráð eða leggja að fólki hvað það eigi að gera. Hlustaðu og leitaðu áfram ef meiri upplýsingar vantar en haltu ráðunum þínum fyrir þig.

Þú skalt bara styðja !

Oft þarf að taka ýmsar ákvarðanir þegar veikindi ber að höndum. Það er ekki þitt hlutverk að hafa skoðun á þeim þó að þær séu ef til vill ekki eins og þú hefðir ákveðið.

 

Hláturinn lengir lífið

Manstu eftir þessum málshætti? Verið ekki hrædd við að hlæja og hafa það skemmtilegt. Það er ekkert grín að takast á við krabba og styðja þann sem stendur í því stríði. Ef þið getið hlegið saman getur það hjálpað mikið við að komast yfir erfiðustu hjallana.

 Áttaðu þig á sorgarferlinu

Þegar konur eru greindar með brjóstkrabba finnst þeim mörgum að þær missi kvenleikann og meðferðin heldur þessari hugsun við. Í stöðunni er sorgarferlið eðlilegt. Konan syrgir kvenleika sinn. Styddu hana í sorg hennar, hlustaðu á reiði hennar, ótta og kvíða og hikaðu ekki við að faðma hana að þér.

Myndaðu stuðningsnet

Það eru margir stuðningshópar við konur sem eru með brjóstakrabba. Það eru líka margir einstaklingar sem styðja konur með brjóstakrabba. En þetta er verkefni sem maður leysir ekki einn. Reyndu að koma þér í samband við fólk sem styður þig og hvetur í því verki að styðja við ástvin þinn sem hefur veikst. Það skiptir afar miklu máli að takast ekki á hendur meira en maður ræður við.    Það er ekkert veikleikamerki að finna sér stuðningshóp heldur er það merki um styrk sem verður þér ómetanlegur styrkur á erfiðum tímum.

Skemmtið ykkur

Gerið eitthvað skemmtilegt. Það skiptir miklu máli að hugsa um fleira en sjúkdóminn af því að ástvinur þinn er annað og miklu meira en sjúkdómsgreining!  Það er mikilvægt að gera eitthvað skemmtilegt – skipuleggið þið stelpukvöld, horfið á myndir saman – grín eða hrylling eða þið getið farið etthvað út ef heilsan leyfir- rölt um eða farið út að borða. Það er meira en í lagi að hlæja og skemmta sér.

Vertu þú sjálf

Það getur verið heilmikill vandi að segja réttu orðin þegar maður er að styðja við konu sem berst við brjóstakrabba. Það skiptir öllu máli að ástvinir okkar sem við erum að reyna að styðja finni að þeir, manneskjan sjálf  skiptir meira máli en greiningin/ sjúkdómurinn.

Stríðsmaðurinn hefur styrk og er tilbúinn að takast á við það sem mætir honum. Sá sem tekst á við brjóstakrabba þarf styrk stríðsmannsins, stöðugleika hans og einurð en hann sigrar ekki einn. Svo að sigur náist þarf sameiginlegt átak hóps stríðsmanna  sem eru tilbúnir að berjast með og fylgja  ástvini sínum gegnum súrt og sætt, gefast ekki upp og kvika aldrei.     

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here