Að þroskast er val – Falleg saga

Fyrsta skóladaginn kynnti prófessorinn okkar sig og bað okkur um að fara út úr þægindarammanum og kynnast einhverjum í stofunni sem við þekktum ekki nú þegar. Ég stóð upp og leit í kringum mig þegar hlý hönd snerti öxl mína. Ég sneri mér við og sá þar gamla litla konu sem leit með kímni upp á mig, hún bar stórt bros sem lýsti upp allt í kringum hana. Hún sagði: „Hæ myndarlegi maður, ég heiti Rósa, ég er áttatíu og sjö ára gömul. Má ég knúsa þig?“
Ég hló og svaraði strax: „Auðvitað máttu það!“ og hún gaf mér stórt og mikið knús.

„Af hverju ert þú komin í skóla, svona ung og saklaus?“ spurði ég.

Í gríni svaraði hún, „Ég er hér til þess að hitta ríkan eiginmann, gifta mig, eignast nokkur börn, hætta svo að vinna og ferðast.“

„En svona í alvöru, af hverju?“ spurði ég. Ég var forvitinn um það hvað dreif konu á þessum aldri í að takast á við þessa áskorun.

„Mig hefur alltaf dreymt um að klára háskólapróf og nú er ég að vinna að því!“ sagði hún mér.

Eftir tímann röltum við saman í gegnum skólabygginguna og deildum súkkulaðisjeik. Við urðum strax góðir vinir. Á hverjum degi næstu þrjá mánuðina fylgdumst við að úr tímanum og töluðum tæpitungulaust. Ég var alltaf jafn dolfallinn yfir að hlusta á þessa „tímavél“ á meðan hún deildi með mér visku sinni og reynslu. Næsta árið eða svo varð Rósa þekkt á háskólasvæðinu og hún eignaðist auðveldlega vini hvert sem hún fór. Hún elskaði að klæða sig upp og naut athyglinnar sem hún fékk frá hinum nemendunum. Hún var svo sannarlega að lifa lífinu. Í lok annarinnar buðum við Rósu að halda ræðu á fögnuði innan skólans. Ég mun aldrei gleyma því sem hún kenndi okkur þennan dag.

Hún var kynnt á svið og steig svo upp í pontu. Rétt eftir að hún byrjaði að flytja tilbúna ræðu af minnisspjöldum missti hún þrjú af fimm spjöldunum á gólfið. Örlítið pirruð og skömmustuleg beygði hún sig að míkrafóninum og sagði einfaldlega: „æi afsakið mig, ég er svo skjálfhent. Ég skipti út bjór fyrir viskí og það er bara að fara með mig! Ég mun aldrei ná að flytja þessa ræðu hérna og leyfið mér því bara að segja ykkur frá því sem ég veit.“

Á meðan við hlógum, ræskti hún sig og hóf svo ræðuna sína: „Við hættum ekki að leika okkur af því að við verðum gömul, við verðum gömul vegna þess að við hættum að leika okkur. Það eru aðeins fjögur leyndarmál á bak við það að haldast ung, vera glöð og ná árangri:

Þú verður að hlæja og finna það skoplega við allar aðstæður.

Þú verður að láta þig dreyma, ef þú týnir draumum þínum deyrð þú. Það er svo margt fólk sem gengur um sem er í raun dáið og veit það ekki einu sinni!

Það er stór munur á því að þroskast og eldast. Ef þú ert 19 ára og liggur í rúminu í heilt ár og gerir ekkert af viti allan tímann munt þú samt verða 20 ára. Ef ég er 87 ára og ligg í rúminu í ár og geri aldrei neitt af viti allan tímann mun ég samt verða 88 ára. Allir geta elst, það hefur ekkert með getu eða efni að gera. Hugmyndin er sem sagt sú að að þroskast með því að sjá alltaf tækifærin í breytingunum.

Lifðu ekki með eftirsjá. Við gamla fólkið sjáum venjulega ekki eftir því sem við gerðum, heldur frekar sjáum við eftir því sem við gerðum ekki. Það eru bara þeir sem hræðast dauðann sem lifa með eftirsjá.“

Hún lauk svo ræðu sinni með því að syngja lagið „The Rose“. Hún hvatti okkur öll til þess að læra textann af laginu og lifa eftir honum í okkar daglega lífi.

Þetta ár lauk Rósa loksins háskólagráðunni sem hún hafði stefnt að öll þessi ár. Viku eftir útskrift lést hún með friðsælum hætti í svefni. Meira en 2000 háskólastúdentar mættu í jarðaförina hennar til þess að votta, þessari yndislegu konu sem hafði kennt okkur svo margt, virðingu sína. Konu sem hafði kennt okkur með fordæmi að það er aldrei of seint að verða allt það sem þig mögulega getur langað að verða. Það er aldrei of seint að láta sig dreyma.

Að eldast er óhjákvæmilegt
Að þroskast er val

Lífið er 10% það sem gerist og 90% hvernig ég bregst við því.

SHARE