Annað stærsta bankarán aldarinnar í gangi á Íslandi; hvar er Superman?

Hrannar Baldursson skrifaði frábæran pistil og langaði okkur að deila hluta af honum með ykkur lesendum Hún.is.

Nú grunar mig að annað rán sé í gangi. Það er svipað í sniðum og stærð. Sama fólkið stendur á bakvið það. Þegar menn komast upp með einn glæp, og græða gríðarlega, hvers vegna ættu þeir ekki að reyna aftur?

Fyrir rúmum þremur árum skrifaði ég greinina: Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? þar sem ég taldi augljóst að eigendur banka væru að ræna þá innanfrá. Til þess notuðu þeir gjaldeyrissveiflu og veika krónu. Sumum þóttu þessar hugmyndir mínar frekar fjarstæðukenndar, en fyrst hrunið og síðan rannsóknarskýrsla Alþingis staðfesti síðan þennan grun minn með nákvæmum upplýsingum. Enginn hefur verið handtekinn fyrir glæpinn og engum peningum skilað til baka.

Glæpurinn felst í ráni á mismunum í eignarfærslu frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, eins og Marinó G. Njálsson lýsir vel í færslu sinni: Gott að Arion banka gangi vel, en eru tölurnar ekki eitthvað skrítnar?

Frá árinu 2007 hafa þúsundir íslenskra heimila þjáðst gífurlega vegna ranglætis frá hendi glæpamanna sem rændu og rupluðu banka innanfrá. Ákveðið var að bæta tjónið með því að lækka kröfur á húsnæðislán heimila. Það hefur verið gert að hluta til, en það lítur út fyrir að minnst 200 milljörðum hafi verið komið undan í stað þess að nota þá til að leiðrétta lánin, og þar með stórglæpinn.

Þess í stað eru þessir 200 milljarðar notaðir til að greiða eigendum bónusa vegna mikils hagnaðar, þannig að nú geta glæpamennirnir baðað sig í gullinu á meðan heimilum er viðhaldið sem mjólkurkú, þar sem þau hafa enn greiðsluvilja, vegna veikrar vonar um að réttlætið sigri að lokum.

Hins vegar virðist eina von fólksins gegn þessu bákni, ríkisstjórnin, vera hluti af vandamálinu. Viðskiptaráðherra lætur eins og allt sé í ljómandi lagi, að ekkert athugavert sé í gangi. Rétt eins og flokksbróðir hans í sama hlutverki sagði fyrir þremur árum. Fjármálaráðherra segir allt vera á uppleið. Rétt eins og fjármálaráðherra rétt fyrir hrun. Forsætisráðherra er hljóð eins og gröfin og þegar hún birtist talar hún helst um pólitík eins og hún sé eitthvað í skýjabökkum til vinstri og hægri.

Ekki gleyma að gríðarleg lán voru tekin til að forða íslenska ríkinu frá gjaldþroti. Slíkar alþjóðlegar skuldir þarf að greiða til baka. Þær eru ekki niðurfelldar.

Með þessu áframhaldi stefnum við að feigðarósi. Með þessu áframhaldi er annað hrun óhjákvæmilegt.

Ég taldi í minni fávisku að vextir á lán í bönkum væru reiknaðir á ársgrundvelli. Síðar sýndist mér að það eina sem gæti útskýrt margföldunaráhrif lána væri að vextirnir séu reiknaðir á mánaðargrundvelli. Nú hefur hins vegar komið á ljós að þessir vextir virðast reiknaðir minnst daglega, þannig að húsnæðislán sem tekið var árið 2005 upp á 19 milljónir stendur í dag í 30 milljónum og með uppreiknaða vaxtavexti upp á allt að 6000 krónur daglega. Og venjulegar fjölskyldur eiga að geta borgað þetta okur!

Ég er rjúkandi reiður yfir þessu. Vildi óska að ég gæti hringt í lögregluna til að stoppa þessa augljósu glæpi, en það er enginn til staðar sem getur hjálpað. Jafnvel Seðlabankinn er hluti af vandanum. Hagsmunasamtök heimilanna sendu ósköp einfalda fyrirspurn um framkvæmd húsnæðislána, þar sem þau virðast ólöglega reiknuð, en sjálfur Seðlabankinn fór undan í flæmingi, svaraði spurningunni með að svara henni ekki í þrettán blaðsíðna skjali um eitthvað allt annað mál.

Restina má lesa á bloggi Hrannars sem má finna hér.

SHARE