Aðalheiður Ýr hefur náð langt í módelfitness heiminum undanfarið ár og skrifaði árangurssögu sína á heimasíðuna ifitness.is. Við fengum leyfi til að birta hér færsluna í heild sinni.
Það hefur verið áhugavert að bera saman myndir af mér frá því að ég keppti á mínu fyrsta móti sem var Bikarmót IFBB í nóvember 2009 til stærsta keppnisárs míns sem var 2012.
Ég er 176 cm á hæð og keppi í hæðsta flokki í módelfitness/bikini fitness.
Á fyrsta mótinu mínu árið 2009 var ég 54 kg.
Ég var ekki búin að lyfta lengi þegar ég ákvað að keppa á mínu fyrsta móti í módelfitness og í raun vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í.
Ég hafði fylgst með nokkrum mótum og alltaf haft áhuga á þessu sporti en líkt og svo margar stelpur sem eru að byrja að keppa þá skorti mig þekkingu á undirbúningsferlinu og mætti ég því til leiks mjög grönn og í raun bara eins og vel tálgaður stöngull en ég náði 3. sæti og frá þeirri stundu var ég komin með fitness bakteríuna.
Það er nefnilega fátt sem jafnast á við það að standa stolt á stóru sviði fyrir framan hundruðir og stundum þúsundir áhorfenda í mínu allra besta formi.
Eftir að hafa þrælað í æfingasalnum svo mánuðum skiptir og eftir að hafa beytt mig svo mikilli hörku í mataræðinu þá einhvern veginn verður þetta allt þess virði þegar ég er komin upp á svið.
Adrenalinið flæðir um æðarnar og mér líður vel, ég veit hvað ég hef lagt mikið á mig og ég er stolt af sjálfri mér fyrir að halda þetta ferli út og ég vil bara keppa meira og bæta mig helling.
Eftir fyrsta mótið ákvað ég að nú þyrfti ég á hjálp að halda. Þetta er jú aðeins meira en bara að lyfta lóðum 3x í viku og hætta að borða nammi. Ég hafði því samband við meistarann hann Konna (Konráð Gíslason) og byrjaði hjá honum í þjálfun/fjarþjálfun strax eftir fyrsta mótið.
Ég var þá að spá í að keppa aftur á Íslandsmótinu 4-5 mánuðum seinna en Konni þjálfari ráðlagði mér að taka mér allavega ár í uppbyggingu og ekki að keppa fyrr en í nóvember 2010.
Ég sé sko ekki eftir því að hafa farið að ráðum Konna. Breytingin var ótrúleg fyrsta árið og enn finnst mér ég vera að bæta mig á milli móta.
Helsta ástæðan fyrir þessum bætingum er að ég er mikil reglumanneskja og ég þarf alltaf að hafa plan til að fara eftir, hvort sem það er í mataræði eða æfingum. Ég fer 100% eftir því sem ég og þjálfarinn minn leggjum upp með.
Ég hef einnig verið dugleg að fara í nudd hjá Víði Þrastarsyni í World class Laugum og svo fer ég einnig til Magna hjá Kírópraktorstofu Íslands.
Þegar ég keppti árið 2012 var ég 62 kg.
Núna er ég samt komin á þann stað að ég þarf ekki endilega að auka vöðvamassann meira fyrir minn flokk, en samt er alltaf hægt að bæta ákveðna líkamsparta og það er einmitt það sem er svo skemmtilegt við þetta sport að þú geturendalaust unnið í því að bæta þig hvort sem það er að auka vöðvamassa, ná betri skurð, já eða bara móta líkamann á þann hátt sem fallegt þykir í þessari íþrótt.
Árið 2012 keppti ég á 7 mótum og held ég að formið hafi ekki verið eins á neinu þeirra.
Auðvitað krefst þetta sport mikils aga í mataræði og lífsstíl yfirleitt. Hollur matur, mikil hreyfing og auðvitað regluleg hvíld og góður svefn eru skilyrði ef ætlast er til að ná einhverjum árangri.
Aginn er mikill á meðan á undirbúning fyrir keppni stendur en það er ekki síður mikilvægt að hafa leiðsögn þjálfara eftir keppni til koma líkamanum aftur í eðlilegt horf. Keppnisform er auðvitað ekki eitthvað sem hægt er að halda allan ársins hring og er því mikilvægt að koma líkamanum rólega til baka í það form sem gæti talist eðlilegt “offseason” ástand. Það gengur ekki að detta ofan í sælgæti og óhollustu fæðu strax eftir mót því líkaminn á erfitt með að vinna úr því sem svo getur valdið mikilli líkamlegri og andlegri vanlíðan.
Tengdar fréttir: Viðtal við Aðalheiði Ýr á Hún.is
Aðalheiður er komin í smá frí – Viðtal á Hún.is
Höfundur greinar: Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir.