Áráttukennd þörf fyrir kynlíf – Gætirðu verið fíkill?

Það er hægt að vera með kynlífs- og ástarfíkn og til eru samtök fyrir fólk sem er með þessar fíknir hér á landi, líkt og í öðrum löndum. Á heimasíðu SLAA á Íslandi er hægt að fá ýmsar upplýsingar um kynlífs- og ástarfíkn.

Þessi sjúkdómur getur birst í margvíslegum myndum, meðal annars sem:

  • Áráttukennd þörf fyrir kynlíf.
  • Algjört ófrelsi gagnvart annarri/öðrum manneskjum(m).
  • Stöðugir dagdraumar eða hugsanir um ástarsambönd eða kynlíf.
  • Einangrandi kynhegðun eins og sjálfsfróun, klám, gægjur og sýniþörf.
  • Óhamið lauslæti, kaup á vændisþjónustu, skyndikynni, símakynlíf, notkun kláms á netinu o.s.frv.
  • Kynferðislegar sjálfsmeiðingar eða misnotkun á öðrum.
  • Kynferðislegt lystarstol.

Tilfinningaleg/kynferðisleg áráttuhegðun er til staðar, þegar ástarsambönd eða kynhegðun skaða í æ meira mæli starf, fjölskyldu og sjálfsvirðingu viðkomandi einstaklings.  Ástar- og kynlífsfíkn tekur á sig sífellt verri myndir, ef hún fær að þróast óhindrað.

Einkenni kynlífs- og ástarfíknar:

1. Þar sem við kunnum ekki að setja heilbrigð mörk tengjumst við fólki kynferðislega og/eða tilfinningalega án þess að kynnast því fyrst.

2. Við erum í og leitum aftur í sársaukafull og mannskemmandi sambönd vegna þess að við erum hrædd við að vera ein og yfirgefin. Við felum þetta atferli fyrir sjálfum okkur og öðrum og verðum stöðugt einangraðri frá vinum okkar og fjölskyldu, okkur sjálfum og Guði.

3. Við óttumst að líða tilfinningalegan og/eða kynferðislegan skort og leitum því af þráhyggju í samband eftir samband og eigum stundum í fleiri en einu kynlífs- eða tilfinningasambandi í einu.

4. Við þekkjum ekki muninn á ást og þörf fyrir aðrar manneskjur, því að laðast líkamlega og kynferðislega að einhverjum, samúð og/eða þörf fyrir að bjarga einhverjum eða einhver bjargi okkur.

5. Okkur finnst við innantóm og ófullkomin þegar við erum einsömul. Þrátt fyrir að við óttumst nánd og skuldbindingu leitum við stöðugt að ástarsamböndum og kynlífsfélögum.

6. Við leysum eftirfarandi tilfinningavandamál með kynlífi: Streitu, sektarkennd, einmanaleika, reiði, skömm, ótta og öfund. Við notum kynlíf og tilfinningalega meðvirkni í staðinn fyrir umhyggju og stuðning.

7. Við notum kynlíf og tilfinningaleg samskipti til að stjórna fólki og láta það gera það sem við viljum.

8. Við getum orðið óstarfhæf eða afar trufluð af rómantískum eða kynferðislegum þráhyggjum og dagdraumum.

9. Við komum okkur hjá því að taka ábyrgð á sjálfum okkur með því að tengjast fólki sem hefur ekkert að gefa okkur tilfinningalega.

10. Við erum þrælar meðvirkra tilfinningasambanda, rómantískra leikja eða áráttuhegðunar í kynlífi.

11. Til að komast hjá því að verða særð eigum við til að draga okkur í hlé frá öllum nánum samskiptum og teljum okkur trú um að tilfinningalegt og kynferðislegt lystarstol sé bati.

12. Við sveipum aðrar manneskjur töfraljóma, gerum þær að guðlegum verum og gerum allt til að láta sambandið ganga. Svo kennum við þeim um þegar þær standast ekki dagdrauma okkar og væntingar.

Einkenni manneskju sem elskar of mikið:

1. Að öllum líkindum var æskuheimili mitt sjúkt og tilfinningalegum þörfum mínum ekki mætt þar.

2. Þar sem tilfinningalegum þörfum mínum var ekki sinnt sem skyldi reyni ég að fá þeim fullnægt með því að annast aðra, einkum þó fólk sem mér finnst þurfa á slíku að halda.

3. Þar sem mér tókst aldrei að breyta foreldrum mínum í hlýtt og elskulegt fólk sem annaðist mig, þá dregst ég mjög sterklega að fjarrænu fólki sem kallar fram kunnuglegar tilfinningar en hefur enga ást að gefa mér. Mig langar að ást mín breyti þeim.

4. Ég óttast svo mjög að vera yfirgefin/n að ég geri hvað sem er til að halda sambandi gangandi.

5. Ekkert er of erfitt, dýrt eða tímafrekt ef það „hjálpar“ þráhyggjunni minni.

6. Þar sem ég á að venjast ástleysi í persónulegum samböndum er ég reiðubúin/n til að bíða, vona og reyna enn meira að falla þráhyggjunni minni í geð.

7. Ég er reiðubúin/n að axla miklu meira en helminginn af allri ábyrgð, samviskubiti og sekt í sambandinu.

8. Sjálfsálit mitt er afar lítið og innst inni finnst mér ég ekki eiga skilið að vera hamingjusamur/söm. Mér finnst að ég þurfi að vinna mér inn rétt á því að njóta lífsins.

9. Ég hef mikla og örvæntingarfulla þörf á að stjórna fólki og samböndum þar sem ég naut svo lítils öryggis í bernsku. Ég dulbý stjórnsemi mína sem “Hjálpsemi.”

10. Þegar ég er í ástarsambandi veit ég miklu meira um hvernig sambandið gæti verið/ætti að vera en hvernig það er.

11. Ég er háð/ur þráhyggjunni minni og tilfinningalegum sársauka.

12. Ég er líkleg/ur tilfinningalega og oft líka lífefnafræðilega til að vera fíkill á lyf, áfengi og/eða ákveðinn mat, einkum þó sætan og sykraðan mat.

13. Þar sem ég er stöðugt að hjálpa öðru fólki að leysa sín vandamál og/eða í aðstæðum sem eru óvissar og tilfinningalega sársaukafullar kemst ég hjá því að taka ábyrgð á eigin lífi.

14. Ég á til að falla í tímabundið þunglyndi sem ég reyni að forðast með því að upplifa spennuna í óstöðugu ástarsambandi.

15. Ég hef ekki áhuga á fólki sem er gott, áreiðanlegt, heiðarlegt og hefur áhuga á mér. Mér finnst svoleiðis „almennilegt“ fólk leiðinlegt.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here