Hvað er blóðleysi?

 • Blóðleysi felur í sér skort á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin ferðast um líkamann eftir æðunum, vinna súrefni í lungunum og skila því til frumna líkamans. Frumurnar nota súrefnið til brennslu sem gefur okkur orku. Úrgangsefni brennslunnar er koldíoxíð (CO2 ) sem binst rauðu blóðkornunum sem hafa skilað súrefninu til frumnanna. Koldíoxíð flyst til lungnanna þar sem því er skilað út með öndun.
 • Ef rauðu blóðkornin eru of fá eða starfa ekki sem skyldi koma fram einkenni súrefnisskorts, t.d. þreyta og slappleiki.
 • Blóðleysi verður yfirleitt vegna minnkaðrar framleiðslu rauðra blóðkorna og/eða vegna óeðlilega mikils taps á þeim.
 • Rauðu blóðkornin eru framleidd í beinmerg og lifa í u.þ.b. 4 mánuði. Til framleiðslunnar þarf m.a. járn, B12 vítamín og fólínsýru. Ef eitthvert þessara efna vantar eða er í litlum mæli í líkamanum minnkar framleiðsla rauðu blóðkornanna með tímanum og einkenni blóðleysis koma fram.
 • Ef skortur er á járni í líkamanum geta einkenni frá slímhúð í munni og kverkum bæst við almenn einkenni blóðleysis.

Hverjar eru orsakir járnskorts?

 • Járnsnautt fæði: Sérstaklega hjá grænmetisætum vegna þess að okkar aðal járnuppspretta er kjöt. Ungabörn, einkum þau sem eru fædd fyrir tímann, geta þjáðst af járnskorti fyrst um sinn vegna þess að járnbirgðirnar eru ekki nægar, en þær byggjast upp á mánuðunum fyrir fæðingu.
 • Aukin þörf: Verður vegna aukinna frumuskiptinga, t.d. á meðgöngu og á vaxtarskeiði barna.
 • Minnkuð upptaka frá meltingarvegi: Smáþarmasjúkdómar geta orsakað minnkaða upptöku næringarefna frá smáþörmum, t.d. glútenóþol (Coeliaksjúkdómur) eða svæðisgarnabólga (Crohns sjúkdómur)
 • Járnskortur af óþekktum uppruna: Alltaf skal leita læknis þar sem orsökin getur verið sár í meltingarvegi sem eiga uppruna sinn í sepum eða krabbameini.

Þeir sem helst þjást af járnskortsblóðleysi: Konur sem hafa miklar blæðingar, reykja og neyta járnsnauðrar fæðu. 

Hver eru einkenni blóðleysis þ.á.m. járnskortsblóðleysis?

 • Það er nokkuð einstaklingsbundið hvenær fólk fer að finna fyrir einkennum. Blóðleysi er skilgreint þannig að konur sem hafa hemóglóbín minna en 120 g/L og karlar með minna en 130 g/L af hemóglóbíni teljast vera blóðlítil. Einnig er einstaklingsbundið hversu mikið hemoglobin fólk hefur og gildi sem veldur einkennum hjá einum, þarf ekki að valda einkennum hjá öðrum.
 • Fyrstu einkennin eru þreyta, ör eða þungur hjartsláttur, andþyngsli og svimi.
 • Ef blóðleysi er mikið getur fólk fengið hjartverk, höfuðverk og verki í fætur við gang og áreynslu sem hverfa í hvíld.
 • Einkenni sem eru einkennandi fyrir langvarandi járnskort eru: Brunatilfinning í tungu, þurrkur í munni og kverkum og smá sár í munnvikum. Í sumum tilvikum verða neglur skrítnar og hrjúfar og hafa tilhneigingu til þess að rifna.
 • Við járnskort getur viðkomandi orðið óeðlilega sólginn í ákveðnar matartegundir, t.d. vanilluís, frostpinna og lakkrís.

Sjá einnig: Furðuleg ráð sem óléttar konur fá gjarnan 

Hvað er hægt að gera til þess að forðast járnskort?

 • Borða fjölbreytt fæði.
 • Hafa augun opin fyrir því hvort járnþörfin verði meiri á vissum tímum. Þetta á einkum við um konur.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

 • Í fyrstu er tekið blóðsýni og gengið úr skugga um hvort um blóðleysi sé að ræða.
 • Útlit rauðu blóðkornanna er skoðað í smásjá og ef þau eru lítil og fölrauð bendir það til járnskorts.
 • Einnig er hægt að mæla prótín sem flytja járnsameindirnar (Ferritín og Transferrín).
 • Síðan leitar læknirinn að orsök járnskortsins og tekur ákvörðun um meðferð í framhaldi af því.

Hvað gerir ástandið verra?

 • Einstaklingar með kransæða og/eða lungnasjúkdóma þola síður blóðleysi en aðrir.
 • Járnskortur getur í einstaka tilfellum valdið varanlegum breytingum í slímhúð kverkanna, s.k. járnskortskyngingartregðu (Plummer-vinson syndrome). Þetta ástand getur síðar leitt til myndunar krabbameins og ætti því að forðast.

 

Batahorfur

 • Með því að fjarlægja orsakavaldinn og/eða með því að bæta upp járnskortinn er hægt að ná fullri heilsu.

 

Hvað er hægt að gera?

 • Borða fjölbreytt fæði.
 • Veita einkennum athygli og leita læknis.
 • Konum með járnskort sem hyggja á barneignir er bent á að tala við lækni.

 Hvað getur læknirinn gert?

 • Leitað að orsök blóðleysisins með rannsóknum og veitt meðferð í samræmi við það.
 • Gefið járn.

Lyf

 • Bætiefni
 • Lyf sem innihalda járn

 

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

 

SHARE