Bönnum smálánin eins og þau eru í dag.

Ég er hlynnt því að banna smálán eins og þau eru í umferð nú um stundir. Allt frá því lánastarfsemi hófst í Evrópu á miðöldum gengu lánadrottnararnir (taktu eftir orðinu) víxlararnir úr skugga um að sá sem falaðist eftir láninu væri borgunarmaður. Vextir voru háir- það er ekki nýtt- en lánþeginn kom til víxlarans, gerði grein fyrir sjálfum sér og gengið var frá málum. Stundum endaði þetta með ósköpum, lánþeginn gat ekki af ýmsum ástæðum staðið við skuldbindingar sínar.  Óorð fór af starfi víxlaranna  þó að ýmsir þyrftu í vandræðum að leita til þeirra. Orðið okurlánari varð til.

Enn er fólk að leita til okurlánara. En það leitar í raun ekki til lánaranna sjálfra, það sendir bara SMS og svo gerist eitthvað hókus pókus og allt í einu eru komnir peningar á kortið þitt svo að þú getur fengið þér drykk á barnum eða spilað áfram í kassanum eða hvað það nú er sem var svona knýjandi.  En það er hins vegar ekkert hókus pókus þegar SMS víxlararnir fara að innheimta. Kaupmaðurinn í Feneyjum sem er frægasti víxlari allra tíma úr leikriti Shakespears hótaði að skera pund af holdi úr brjósti lánþega síns sem gat ekki borgað og hann „átti með það“.   Maður heyrir að íslenskir lánþegar liggi lemstraðir eftir heimsóknir innheimtumanna víxlaranna þegar lánþegar geta ekki borgað lánin sem þöndust úr eins og hverjar aðrar ófreskjur.

Ef ég sé að óviti er í hættu reyni ég að forða honum frá hættunni. Ég tel mun farsælla að reyna að forða því að barn detti t.d. í forarpytt en freista þess að draga það upp úr pyttinum þegar það hefur dottið ofan í hann.

Nú er ég ekki að segja að allir sem taka smálán séu með þroska óvitans. En ég held að þeir hugsi ekki málið til enda af hvaða ástæðum sem það er. Ef til vill er greindin ekki mikil, skilgreind þroskaskerðing eða ef til vill illviðráðanleg hvatvísi, þráhyggja eða önnur röskun. Eða var hér ef til vill einstaklingur sem hefur orðið fyrir heilaskemmd, er vegna veikinda eða elli komin með einhverskonar glöp hugsunarinnar?   Sá er lánið veitti lætur sig þetta engu varða og ræður sér bara fleiri stóra og sterka innheimtumenn.

Auðvitað er það í takt við andlegt ástand/þroska lántaka að ganga svo um kvartandi yfir því að hann(hún) þurfi að borga lánið. Ég er hrædd um að ferlið hafi ekki verið hugsað til enda og tel að það væri góð vernd fyrir þá og hreinsun í samfélaginu að setja þessari starfsemi þær skorður að hún hætti að mala víxlurum nútímans gull.

Hver okkar ætli hafi skrifað þessa grein? það fær að liggja milli hluta.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here