Dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir hrottalegar nauðganir og líkamsárásir

Í gær dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Jens Hjartarson í átta ára fangelsi fyrir að nauðga stúlku og að auki beita þrjár stúlkur hrottalegu ofbeldi. Hann hefur einnig verið fundinn sekur um tvær líkamsárásir.

Árásirnar áttu sér stað frá því í ágúst og fram í desember í fyrra. Jens var handtekinn á gistiheimili í miðbæ Reykjavíkur fyrir að ganga þar í skrokk á átján ára stúlku. Maðurinn sagðist ekkert muna eftir atvikum en viðurkenndi þó að til átaka hefði komið. Hann er sakfelldur fyrir að hafa slegið hana ítrekað í andlitið, sparkað í höfuð hennar og líkama, traðkað á andliti hennar, barið hana með eldhússtól, dregið hana á hárinu eftir gólfinu, haldið fyrir vit hennar þannig að hún náði ekki andanum og lagt hníf að hálsi hennar og hótað henni lífláti.

Í október réðst hann á fyrrverandi unnustu sína eftir að hafa séð hana á tali við ókunnugan mann í bakaríi. Jens ruddist inn til konunnar og sló hana í tvígang þannig hún missti meðvitund. Eftir að konan rankaði við sér fór hún inn í svefnherbergi til dóttur sinnar þar sem hann réðst á hana aftur, þegar hún var með barnið í fanginu. Hann lamdi hana þannig að samfella barnsins varð útötuð í blóði. Barnið grét og Jens öskraði, sagði barninu að þegja og sló til þess.

Eftir þetta atvik segir í dómnum að konan hafi þurft að vinna sér inn traust barnsins að nýju.

Í fyrstu árásinni, sem átti sér stað í ágúst í fyrra, þvingaði hann stúlku til samræðis og endaþarmsmaka. Jens neitaði sök en skoðun lækna og framburður konunnar bentu eindregið til þess að konunni hafði verið nauðgað. Stúlkan hefur hlotið mikinn skaða af nauðguninni, getur ekki búið heima hjá sér vegna hræðslu, er félagsfælin og treysti ekki fólki.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here