Dulið einelti

Ég er 14 ára stelpa og ég er lögð í dulið einelti.

Ég áttaði mig ekki á því almennilega fyrr en skólinn gaf okkur bækling um einelti þar sem útskýrðar eru mismunandi gerðir af einelti. Ég hafði alltaf haldið að einelti væri þegar krakkar beita þolanda líkamlegu ofbeldi eða í gegnum tölvu eða síma. Ég vissi ekki að það sem ég var að lenda í var í raun bara önnur mynd eineltis.

„Dulið einelti er hvers konar útilokun, útskúfun sem ekki er sýnileg. Þetta er ef til vill alvarlegasta tegund eineltis sem barn getur lent í. Ekkert er sagt, ekkert virðist gert en hlutirnir gerast samt. Höfuðpaurinn er heldur ekki alltaf sýnilegur. Hjálparliðið (hækjur/viðhlæjendur/klapplið) framkvæmir þá duldu athafnirnar. Þegar eineltið hefur staðið lengi yfir getur þolandinn talið sér trú um að það sé í raun honum sjálfum að kenna. Hann forðast vissar aðstæður, tekur ekki þátt af því að hann veit fyrirfram að bjóði hann sig fram (til dæmis í leik) verði honum hafnað. Það er eins og hann hafi hafnað sjálfum sér. Hann hefur komið höggi á sig án þess að hafa sjálfur reitt til höggs. Þolandi er útilokaður, fær ekki að vera með í félagsskap án þess að nokkuð sé gefið til kynna. Þolandi er ekki boðið í afmæli eða í sameiginlega bíóferð svo eitthvað sé nefnt“
-Heimili og skóli-

Ég þurfti að lesa þetta nokkrum sinnum til að átta mig á því að þetta átti við mig. Ég skipti um skóla fyrir 5 árum þegar ég flutti í annað bæjarfélag. Þegar ég kom í unglingadeild og bekkjunum var skipt upp byrjaði þetta.

Ég er ekki beint venjuleg stelpa. Ég klæði mig ekki eftir tískunni, er ekki máluð, er góður námsmaður, ég spila á hljóðfæri, er í dansi, og stunda því ekki „íþróttir“ eins og flestir krakkar skilgreina þær. Ég er með sérstakan fatastíl og sker mig þar af leiðandi úr.

Krakkarnir í skólanum sögðu stundum við mig þegar ég var í 5-7 bekk „Þú ert skrýtin“, „Af hverju klæðir þú þig svona skringilega?“, „Af hverju ertu ekki í íþróttum?“, „Þú átt ljót föt“.

Núna er það hins vegar bara útilokun. Ég fer aldrei í félagsstarf í félagsmiðstöð skólans míns. Þar eru allir vinsælu krakkarnir, allir sem eru töff. Ég veit að ég er ekki töff , og augngoturnar þeirra sanna það alveg. En má ég ekki bara vera ég sjálf? Þarf ég endilega að klæða mig í þröngar gallabuxur og mála mig til þess að geta verið með?

Niðurlægingin sem fylgir þessu er sársaukafull.

Þeir fáu vinir sem ég á í skólanum hafa núna líka útilokað mig að hluta. Þær fela sig í frímínútum, einhvers staðar þar sem ég get ekki fundið þær. Kannski er það af því að þeim finnst vandræðalegt að láta aðra sjá sig með „skrýtnu stelpunni“. Ég veit það ekki.

Ég hef misst mikið úr skóla vegna heilsufarsvandamála en ég veit að það er ekki bara þess vegna sem ég mæti ekki alltaf í skólann. Mér líður illa í skólanum. Ég er hrædd við að fara í skólann af því að ég veit að ég er ein.

Það skrýtna er að ég held að krakkarnir átti sig ekki á þessu sjálfir.

Ég sagði mömmu minni þetta ekki fyrr en fyrir stuttu, en ég held að það hafi verið rétt ákvörðun því að nú er hægt að breyta til.
Ég hef því loksins fengið að skipta um skóla. Ég byrja í nýjum skóla eftir sumarið. Þar vonast ég til að geta byrjað upp á nýtt og eignast góða vini.

Ég vil deila sögu minni með ykkur því að enginn á að þurfa að ganga í gegnum einelti. Því að það er sárt og enginn á það skilið.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here