Ég fór að velta því fyrir mér um daginn eftir að ég heyrði af manni út í bæ ljúga til um það að hann hefði bæði sofið hjá mér, og vinkonu minni, hvort að þetta væri algengt, að fólk lygi til um þessi mál. Ég kom af fjöllum þegar vinkona mín tjáði mér að maður nokkur hefði setið með henni á bar og verið að segja henni frá því að hann hefði sko sofið hjá bæði mér og annarri vinkonu okkar. Ég bað hana um að segja mér nafn mannsins og eftir að hún tjáði mér það var svarið auðvelt, ég hafði aldrei sofið hjá manni sem hét þessu nafni, ég hafði heldur aldrei hitt manninn í persónu eins og ég komst að eftir eftirgrennslan á Facebook og sama kom á daginn með vinkonu mína sem hafði aldrei heyrt um þennan mann.

Þegar ég svo renndi yfir Facebook síðu mannsinns sá ég að hann er skráður í samband. Ég athugaði í skilaboðin mín á Facebook og fann þar póst frá honum þar sem hann bauð mér á deit, sem ég afþakkaði pent, fyrir nokkrum ÁRUM síðan. Ekki skrítið að ég hefði ekki munað eftir manninum en ég hafði greinilega átt samskipti við hann á Facebook fyrir nokkrum árum og afþakkað boð hans en þakkað honum fyrir gullhamrana (já, ég las samtalið)

Ég ræddi við nokkrar stelpur sem nokkrar höfðu lent í þessu sama. Ég man eftir þessu á unglingsárunum og læt það nú vera þegar litlir óþroskaðir unglingar ljúga til um þessi mál en þegar rígfullorðnir karlmenn taka upp þessa iðju er mér allri lokið. Það er líklega fátt hallærislegra en þetta og sérlega vegna þess að Ísland er svo lítið land að lygi þín mun alltaf komast upp. Þú líklega segir einhverjum sem stelpan þekkir, hann segir stelpunni og hún leiðréttir misskilninginn. Í þessu tilfelli til að mynda var það svo ólíklegt að ég og vinkona mín hefðum sofið hjá þessum manni að fólkið í kring vissi strax að maðurinn var að ljúga. Það voru líklega um rúm 20 ár á milli okkar og afar ólíklegt að þetta atvik hefði átt sér stað.

Ég tala hér um karlmenn vegna þess að ég hef aldrei heyrt um konur sem gorta sig af hárri tölu kynlífsfélaga eða yfir höfuð tala mikið um eða ljúga til um fólk sem þær hafa sofið hjá. Ég hef aldrei heyrt konu segja „Já, búin með þá alla!“ Eða eitthvað í þá áttina, ég er bara að tala út frá minni reynslu og vitneskju og skv henni hef ég einungis heyrt um að karlmenn geri þetta.

Tek það fram að ég held að það séu fáir karlmenn sem stunda þetta og þeir sem gera það búa yfir mikilli minnimáttarkennd og er oft sýnd lítil virðing. Fólk sem lýgur á það nefninlega til að missa mannorð sitt voðalega fljótt og fólk kemst oftast að lygunum fyrr en síðar. Ég veit að flestum karlmönnum finnst þetta alveg jafn hallærislegt og mér en það er enn fólk þarna úti sem stundar þetta.

Pössum hvað við segjum, við búum að pínulitlu landi þar sem lygar komast nær alltaf upp!

SHARE